Tímabundnar breytingar

covid vefsida banner

Frá og með þriðjudegi 17.mars verður nokkur breytinga á starfsemi okkar á HTÍ. Breytingar þessar eru gerðar til að reyna að tryggja að við getum haldið áfram starfsemi okkar sem allra lengst og tryggt a.m.k. lágmarksþjónustu fyrir heyrnarskerta og heyrnartækjanotendur á næstu vikum eða á meðan faraldur gengur yfir.

Starfsfólki HTÍ hefur verið skipt upp í 2 hópa sem munu skipta starfsdeginum með sér. Enginn samgangur verður á milli hópanna nema í sýndarveruleika, tölvuheimum og gegnum síma. Tilgangurinn er sá að reyna að tryggja að ef sýking kemur upp meðal starfsfólks þá þurfi ekki að senda alla starfsmenn í Reykjavík í sóttkví og loka stöðinni fyrir viðskiptavinum. Ef einstaklingu í öðrum hópnum sýkist getur hinn hópurinn þá tekið yfir starfsemina þó skert verði.

Forgangsröðun verkefna

Við munum leggja höfuðáherslu á að tryggja forgangshópum þjónustu okkar og að halda úti viðgerðarþjónustu fyrir biluð heyrnartæki.Opnir viðgerðartímar falla niður næstu vikur og tímar fyrir nýburaskimun munu einnig falla niður. Ýmiss önnur starfsemi verður felld niður til að draga úr hættu á smiti. Megináhersla verður lögð á að tryggja að starfsfólk smitist ekki og smiti ekki viðskiptavini né öfugt. Ýmsar varúðarráðstafanir hafa verið gerðar í þessu skyni og viðskiptavinir munu verða varir við þær. Þannig er starfsfólk nú með varnarbúnað, í sloppum og með hanska og grímur ef þau koma í nálægt við skjólstæðinga. Allt er þetta í samræmi við leiðbeiningar og ráðgjöd sóttvarnaráðs og Landlæknis.

Viðskiptavinir forðist ónauðsynlegar heimsóknir

VIð beinum því til viðskiptavina að sleppa alveg ónauðsynlegum heimsóknum á stöðina. Hægt er að kaupa rafhlöður í öllum lyfjabúðum eða fá þær sendar frá okkur með pósti (panta á vefsíðu okkar).

Opnir viðgerðartímar falla niður um óákveðin tíma en þurfi fólk að koma með biluð tæki til okkar er hægt að senda okkur tækin í pósti (merkja vel eiganda og tengiupplýsingar sem og lýsing á bilun) eða koma með tækin á biðstofu HTÍ þar sem er sérstakt móttökuborð við lyftu á 4.hæð með sérstökum umslögum sem tækin eru sett í, þau merkt og skilin eftir. Að viðgerð lokinni fá eigendur skilaboð um að sækja megi tækin.
Við vonum að viðskiptavinir hafi skilning á þessum ráðstöfunum og hjálpi okkur að láta hlutina ganga upp.

Við munum reyna að veita allar upplýsingar í síma stofnunarinnar 581-3855 en einnig er hægt að senda okkur skilaboð í tölvupósti This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða í gegnum Facebook síðu Heyrnar-og talmeinastöðvar Íslands.

 

birt: 17.mars 2020