blodleysi jarnskortur

 Ný rannsókn sýnir tengsl heyrnarskerðingar og járnskorts í blóði (iron deficiency anemia)

Fólk með blóðleysi (skort á járni í blóði) er meira en tvöfalt líklegra til að vera með skerta heyrn en þeir sem ekki þjást af járnskorti. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar sem framkvæmd var af Pennsylvania State University College of Medicine í Bandaríkjunum.

Þegar rannsakendur skoðuðu mismunandi tegundir heyrnarskerðingar kom í ljós að þeir sem hafa járnskort í blóði eru með 82% auknar líkur á s.k. skyntauga-heyrnartapi (sensorineural) miðað við fólk sem ekki er með járnskort í blóði. Þá jukust líkur á samsettri heyrnarskerðingu (skyntauga- og leiðnitapi) um 240% í samanburði við fólk án járnskorts í blóði.

 

 

Hvernig stendur á þessu ?

Höfundar ítreka að niðurstöður sýni einungis sterk tengsl á milli heyrnarskerðingar og þessa sjúkdóms. Rannsóknin sanni ekkert hvort að annað valdi hinu á einhvern hátt.

Dr Peter Steyger við heyrnarrannsóknarstofu Oregon Health & Science háskólans segir að nokkur atriði komi til greina varðandi tilgátur um orsakatengsl á milli þessara þátta.

„Járn er augljóslega mikilvægt fyrir eðlilega starfsemi heyrnarkerfis líkamans, líkt og fyrir mörg önnur líffæri. Of lítið járn veldur blóðleysi og skortur á blóðrauða (hemoglóbíni) hindrar flutning súrefnis til vefja líkamans. Of lítið járn getur þannig truflað starfsemi fruma og jafnvel leitt til frumudauða sem gæti valdið heyrnarleysi, ef um hárfrumur í innra eyra er að ræða.“, segir læknirinn.

Um rannsóknina

Rannsakendur skoðuðu tíðni heyrnartaps og heyrnarskerðingar hjá meira en 300.000 fullorðnu fólki á árunum 2011-2015. Þátttakendur voru á aldrinum 21-90 ára (meðalaldur 50 ár), 50,56% voru konur en 43,4% karlar.

Rannsóknarniðurstöður birtust í vísindagrein í tímaritinu JAMA Otolaryngology - Head & Neck Surgery.

Heimildir: jamanetwork.com og upi.com