ID-100307566Langvinnt heyrnartap veldur rýrnun á heilastöðvum

Dr Frank Lin og rannsóknarteymi frá John Hopkins spítalanum og Bandarísku öldrunarstofnuninni (National Institute of Aging) hafa rannsakað samhengið á milli heyrnartaps aldraðra og andlegrar heilsu og heilastarfsemi þeirra. Niðurstöður hópsins benda til þess að heyrnartap flýti hrörnun heilans og geti verið orsakavaldur ýmissa sjúkdóma s.s. Alzheimers, geðsjúkdóma og elliglapa.

Hópurinn notaði gögn úr langtímarannsókn (Baltimore Longitudinal Study of Aging) til að skoða breytingar á heilastarfsemi aldraðra með eðlilega heyrn og samanburðarhóps aldraðra með skerta heyrn. Fyrri rannsóknir hafa áður sýnt fram á tengsl á milli heyrnarskerðingar og breyttrar heilastarfsemi. T.d. virðast svæði heilans sem vinna úr hljóði og heyrnarmerkjum vera minni hjá heyrnarskertum en hjá fullheyrandi einstaklingum. Ekki hafði þó verið sýnt fram á að breytingarnar kæmu til vegna heyrnarskerðingarinnar eða hefður verið til staðar áður en heyrnarskerðing kom til sögunnar.

Rannsóknin                                                     

126 aldraðir einstaklingar, ýmist heyrandi (75) eða heyrnarskertir (51) fóru í heilaskanna og nákvæma heyrnarmælingu árið 1994 og þeim síðan fylgt eftir árlega. Niðurstöður sýna að heyrnarskertu einstaklingarnir sýndu hraðari hörnun heilans (rýrnun heilavefjar) en jafnaldrar með eðlilega heyrn. Þessir einstaklingar sýndu einnig hlutfallslega meiri rýrnun í þeim heilastöðvum sem vinna úr hljóðum og tali.
Dr Lin segir þetta valda áhyggjum þar sem þessi heilasvæði sinni ekki eingöngu heyrn heldur séu einnig mikilvægar starfsstöðvar þegar kemur að minni og skynjun. Þessi svæði heilans komi þannig við sögu í elliglöpum og hjá Alzheimer sjúklingum.

Mikilvægt að meðhöndla heyrnarskerðingu

Rannsakendur leggja áherslu á mikilvægi þess að láta ekki heyrnarskerðingu ómeðhöndlaða. „Við viljum að gripið sé til meferðar á heyrnarskerðingu sem fyrst í ferlinu.“ segir dr Lin, „Ef heyrnarskerðing veldur þessum neikvæðu áhrifum, sem við sjáum á heilaskanna, þá viljum við meðhöndla heyrn einstaklinganna áður en þessar óafturkræfu breytingar á heilanum eiga sér stað.“

Meira en helmingur fólks 75 ára og eldra er með skerta heyrn og með auknu langlífi verður heyrnarskerðing og heyrnartap sífellt stærra vandamál. Afar mikilvægt er að auka lífsgæði þessa hóps með því að meðhöndla heyrnarskerðinguna um leið og hún greinist. Í ljósi rannsóknar dr Lin og félaga er enn brýnni nauðsyn á að tryggja að allir eldri borgarar geti fengið nauðsynlega meðhöndlun á heyrn sinni. Heyrnartæki verða og eiga að vera aðgengileg og innan kaupgetu eldri borgara.

Hvernig hjálpa heyrnartæki?

Næstu skref í rannsókn dr Lin er að kanna hvort að reglulega notkun heyrnartækja og snemmtæk íhlutun í heyrnarskerðingu fullorðinna geti breytt einhverju um þróun elliglapa. Aðspurður að gagnsemi heyrnartækja svarar dr Lin: „Við vitum því miður ekki enn hvort að kjörmeðferð við heyrnarskerðingu með góðum heyrnartækjum og reglulegu eftirliti geti afstýrt þessum breytingum sem við sáum. Það krefst mun stærri rannsóknar og yfir lengri tíma. Við vonumst þó til að næstu rannsóknir okkar geti svarað þessari spurningu.“
Heyrnartæki, ef rétt notuð og stillt eftir heyrn viðkomandi getur auðveldað fólki hljóðvinnslu og talgreiningu. Því er rökrétt að álykta að bætt heyrn með hjálp heyrnartækja gæti dregið úr líkum á þeim breytingum á heila sem rannsóknir dr Lin og félaga sýndu. Vonandi tekst að sýna fram á það í framtíðinni.

Heimildir:
www.asha.org
www.hopkinsmedicine.org

júlí 2015