Greinar

Allir Döff einstaklingar og margir heyrnarlausra (þ.m.t. kuðungsígræöðsluþegar) og heyrnarskertra, sem og aðstandendur og umönnunaraðilar nýta sér táknmál sem samskiptamál. Táknmál þróuðust í samfélögum heyrnarlausra en lengi vel var heyrnarlausum meinað að læra eða nota táknmál. Nú á dögum er öflugt starf við þróun og kennslu íslensks táknmáls, til hagsbóta fyrir heyrnarlausa sem ekki geta nýtt sér talað raddmál.

Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra (SHH) vinnur að útbreiðslu íslensks táknmáls og þar getur almenningur komist á námskeið í "hinu" viðurkennda íslenska málinu en íslenskt táknmál fékk löggildingu með lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls nr. 61/2011 en þar segir m.a.  í 13. gr. að ,,íslenskt táknmál sé jafnrétthátt íslensku sem tjáningarform í samskiptum manna í milli og óheimilt sé að mismuna mönnum eftir því hvort málið þeir nota".

Með því að smella á myndina sem hér fylgir má komast á vefsíðu SHH þar sem ýmsan fróðleik er að finna um íslenskt táknmál og myndband á táknmáli um þetta merkilega mál.

SHH Íslenskt táknmál

hur hörsel med cochleaimplantat låter

Margar órökstuddar fullyrðingar eru hafðar í frammi á meðal andstæðinga kuðungsígræðsla varðandi gæði þeirrar heyrnar sem ígræðsluþegar geta fengið með hjálp þessarar tækni.

Í raun er það svo að nánast ómögulegt er að gera sér grein fyrir því nákvæmlega hvernig heyrn nokkurs einstaklings "hljómar". Við heyrum nefnilega með heilanum þ.e. heyrnarstöðvar heilans túlka þau boð sem berast og það er afar líklegt að heyrnarupplifun hvers og eins einstaklings sé einstök.

Barn sem fæðist heyrnarlaust en fær heyrn með kuðungsígræðslutækjum þekkir ekki og mun aldrei þekkja neina aðra heyrn en þá sem tækin veita. Sú heyrn er þeim því "eðlileg". En við vitum ekki hvernig hún hljómar og ekki hægt að gera ráð fyrir að barnið geti lýst sinni heyrn því það hefur engan samanburð. Máltaka, málþroski og beiting talmáls leiðir oftast best í ljós hversu vel þetta endurskapaða skilningarvit gegnir hlutverki sínu fyrir börnin.

Þeir sem geta sagt okkur til um gæði heyrnar sem kuðungsígræðslutæki veita eru annars vegar þeir sem hafa misst heyrn snögglega á fullorðinsárum og fá "nýja" heyrn með ígræðslu og sennilega gæti besti hópurinn til að svara spurningunni þó verið fólk sem heyrir á öðru eyra en hefur fengið kuðungsígræðslu á heyrnarlaust eyra hinum megin á höfðinu.

Með því að spila hljóð í náttúrlega heyrandi eyrað og síðan senda sama hljóð en mismunandi meðhöndlað í gegnum kuðungsígræðsluna er hægt að biðja einstaklininn um að velja hvenær þeim finnst hljóðið hljóma nákvæmlega "eins" í báðum eyrum í höfði sér.

Hér á eftir fylgir myndband sem sýnir einmitt slíka tilraun þar sem ung stúlka heyrir mannsrödd (merkt Original 1) með heyrandi eyranu. Síðan fær hún sömu upptöku senda í gegnum kuðungsígræðslutækið (og sem við áhorfendur heyrum spilaða ) en nú í ýmsum útgáfum og heyrnarfræðingurinn reynir að laga til eftir lýsingu stúlkunnur uns hún telur upptökurnar hljóma nákvæmlega eins í báðum eyrum.

Niðurstaðan bendir til þess að heyrnin um ígræddu tækin sé býsna nálægt eðlilega heyrandi eyranu. Þetta er virkilega ánægjulegt og vonandi slær það aðeins á þær gagnrýnisraddir sem halda því ítrekað fram að kuðungstæki hljómi eins og róbótar eða brakandi útvarpsviðtæki eða þaðan af verra. Tæknin hefur tekið miklum framförum frá fyrstu, frumstæðu ígræðslutækjunum en sumir virðast neita að horfast í augu við það til að þjóna málstað sínum. Hræðsluáróður til foreldra barna sem fæðast heyrnarlaus mun vonandi hverfa í framtíðinni. Börnin geta fengið virka og góða heyrn og fengið fullan aðgang að hljóðheimi talandi fólks.

Hér er hlekkur á myndbandið: https://youtu.be/1dhTWVMcpC4

 

HTÍ og Zontaklúbbur Reykjavíkur

Það er ekki nóg að byrja - Það þarf að byrja rétt!

Saga Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands er um margt fróðleg og merkileg. Fyrstu heyrnarstöð landsins var komið á fót árið 1962. Var það einungis fyrir einstakan áhuga og þrotlaust og óeigingjarnt starf fárra einstaklinga sem þessum merka áfanga var náð. Hér á eftir verður getið þáttar nokkurra þessa einstaklinga og félagssamtaka sem hlut áttu að máli.

Zontaklúbbur Reykjavíkur var stofnaður í nóvember árið 1941. Zontaklúbbarnir eru alþjóðaregla sem stofnuð var í Bandaríkjunum í kjölfar fyrri heimstyrjaldarinnar. Zontaklúbbur Reykjavíkur hafði yfir að ráða sjóði nokkrum, Margrétarsjóði, sem komið var á fót árið 1944 til heiðurs Margréti Bjarnadóttur Rasmus, sem þá lét af störfum sem skólastjóri Málleysingjaskólans. Margrét var einmitt ein af stofnendum Zontaklúbbsins.
Málleysingjaskóli þessi var stofnaður af séra Ólafi Helgasyni, presti við Gaulverjabæjarprestakall, laust fyrir aldamótin 1900. Margrét byrjaði að kenna við skólann árið 1899. Saga Málleysingjaskólans er afar áhugaverð og lýsir dæmalausum áhuga, ósérhlífni og dugnaði séra Ólafs, frú Margrétar og samverkafólks þeirra. Þeirri sögu verður ekki gerð skil hér en áhugasömum bent á ritið „Á brattann“, sem Zontaklúbbur Reykjavíkur gaf út árið 1985.

Friede Briem

Frú Friede Briem (1900-1997) var formaður Zontaklúbbs Reykjavíkur til margra ára og hún barðist ötullega fyrir málefnum heyrnarskertra og heyrnarlausra. FriedeBriemUngHún tók þátt í Zontamóti í Kaupmannahöfn árið 1959, ásamt annarri Zontakonu, Ingibjörgu Bjarnadóttur. Í móttöku á þinginu spjölluðu þær m.a. við sænska konu, Brittu Larsson frá Uppsölum. Þegar Friede og Ingibjörg minntust á Margrétarsjóðinn og stuðning Zontaklúbbsins við heyrnarlausa lifnaði heldur yfir þeirri sænsku. Vildi hún endilega koma Íslendingunum í samband við Bodil Willesmoes frá Árósum, sem hún sagði hafa unnið mjög merkilegt starf fyrir heyrnarlaus börn. Bodil þessi væri stödd á þinginu en héldi heim daginn eftir.

Ekki er að orðlengja það að Friede og ingibjörg „rýndu nærgöngulum augum á öll barmmerkin til þess að finna Bodil Willesmoes og tókst það að lokum“, eins og segir í endurminningum Friede. Gefum henni áfram orðið:

Við bárum upp erindi okkar og lýstum fyrir henni, hversu mikinn áhuga við hefðum á að kynnast starfsaðferðum hennar til hjálpar heyrnarskertum börnum og sögðum henni frá sjóðnum. Hún lifnaði öll við og var fljót að átta sig á því, að starfinu þyrftum við að kynnast með eigin augum og koma beint til Árósa.“ Þær ingibjörg réðu ráðum sínum og ákváðu að lokum að skella sér í heimsókn til Árósa.

Í júní 1959 stóðu þær við dyrnar á dagheimilinu Granly og spurð eftir forstöðukonunni. Bodil tók þeim með kostum og kynjum og kynnti þeim starfsemina og einnig kynnti hún þær fyrir yfirlækni stöðvarinnar, dr Ole Bentzen og kynnin við þau skötuhjúin áttu heldur betur eftir að reynast okkur Íslendingum vel.

Dr Ole Bentzen

Þegar dr Bentzen heyrði að engin heyrnarstöð væri til á Íslandi og að Zontaklúbburinn ætti sjóð til hjálpar heyrnarlausu fólki varð honum að orði: „Sjóðinn eigið þið að nota til að koma upp heyrnarstöð. Ísland getur ekki verið án heyrnarstöðvar. Ef klúbburinn óskar eftir minni aðstoð, skal hún fúslega veitt.
Bodil Willesmoes sýndi þeim margvíslega starfsemi stöðvarinnar í Árósum og áhugi hennar og sannfæringarkraftur smitaði íslensku stöllurnar varanlega.
Með þetta vegarnesti, ásamt fræðsluritum, bæklingum og bókum kvöddu þær stöllur yfirlækninn og frú Willesmoes og héldu heim á leið.
Þegar heim var komið skýrðu Friede og Ingibjörg klúbbsystrum sínum frá ferð sinni og frá þeirri stundu „varð nánast bylting í félagsstarfinu“, eins og Friede lýsir því. Klúbburinn samþykkti að leggja áherslu á stuðning við heyrnarlaus börn og nú skyldi hafist handa.
Eitt af mörgum heilræðum sem dr Bentzen hafði gefið þeim í veganesti var þetta: „Það er ekki nóg að byrja, það þarf að byrja rétt.“
Vegna þarfar á sérfræðilegri leiðsögn fengu Zontasystur Erling Þorsteinsson, háls-nef og eyrnalækni til að skrifa dr Bentzen ásamt þeim Zontasystrum. Erlingur skrifaði dr Bentzen sem og yfirlækni heyrnarstöðvarinnar í Kaupmannahöfn, dr Ewertsen, sem hann þekkti frá dvöl sinni í Danmörku.

DrBentzen1954Eftir nákvæma skoðun á tillögum dönsku læknanna varð niðurstaðan sú að Zontaklúbburinn ákvað að auglýsa námsstyrk til fóstru í júní 1960. Skydli námið fara fram í Árósum, þar sem kennsla færi fram í heyrnarmælingum og verklegt nám í sambandi við heyrnartæki. Styrkþegi skyldi sækja fyrirlestra í háskólanum um heyrnarrannsóknir og fylgjast með öllu starfi á heyrnarstöðinni, dagheimili og leikskóla Bodil Willesmoes. Styrkinn fékk María Kjeld og hóf hún námið þ. 19.ágúst 1960.

 

Heyrnarstöð verður til

Heyrnarstöð þarf að sjálfsögðu húsnæði og rekstraraðila. Zontaklúbbur Reykjavíkur tók þá stefnu að Heilsuverndarstöð Reykjavíkur væri rétti aðilinn til þess og formaður klúbbsins, Auður Auðuns, hitti Jón Sigurðsson borgarlækni að máli 9.febrúar 1961 til að reifa málið. Borgarlæknir var frá fyrstu stundu málinu hliðhollur. Kom hann því til leiðar að 22.desember 1961 ákvað stjórn Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur að stofna heyrnarstöð fyrir börn innan 4ra ára aldurs.

Fjáröflun hófst nú af fullum krafti undir forystu Zontaklúbbsins, með skemmtanahaldi o.fl. Tókst þeim svo vel upp að senn voru til fjármunir til tækjakaupa fyrir nýju stöðina. Enn var leitað til dr Bentzen í Árósum. Pantaði hann tæki fyrir klúbbinn og einnig voru keypt ýmis áhöld og leikföng, valin af Maríu Kjeld í samvinnu við Bodil Willesmoes.

Friede Brien var ekki af baki dottin. Hún fór til Kaupmannahafnar sumarið 1962 og hafði enn samband við dr Bentzen og vildi falast eftir kröftum hans við fyrirlestra á Íslandi. Ekki hafði hann tök á því en benti á kollega sinn á Fjóni, dr Christian Röjskjær, yfirlækni heyrnarstöðvarinnar í Óðinsvéum 1). Sá tók málaleitan vel þar sem hann færi um Ísland um haustið á leið til Grænlands. Friede bauð honum og eiginkonu umsvifalaust að búa heima hjá sér. Sonur Friede, Eggert Briem, rifjaði nýlega upp (des 2017) þennan tíma í viðtali við höfund þessarar greinar og sagðist muna vel þessar heimsóknir og að Eggert hefði verið fyrsta "tilraunadýrið" sem nýji heyrnarmælirinn var prófaður á.

Fyrirlesturinn var svo haldinn í Háskóla Íslands 11.september 1962 og bauð Zontaklúbburinn ýmsum fyrirmönnum og áhrifamönnum til hans. Vakti fyrirlesturinn mikla athygli og Morgunblaðið birti grein um málið.

Friede fékk dr Röjskjær til að ráðleggja Borgarlækni og stjórn Heilsuverndarstöðvarinnar á ýmsa lund og komu ráðleggingar hans að góðum notum.

Heyrnarstöðin, sú fyrsta á Íslandi og fyrirrennari Heyrnar-og talmeinastöðvar Íslands, opnaði síðan undir stjórn Erlings Þorsteinssonar í Heilsuverndarstöð Reykjavíkur þann 1.nóvember 1962. María Kjeld var ráðin til starfa við heyrnarmælingar og meðferð heyrnarskertra barna.

Vert er að leggja áherslu á ómetanlegt framlag þessara einstaklinga. Erlingur Þorsteinsson starfaði t.d. án endurgjalds við stöðina fyrstu misserin og lagði Zontaklúbbnum til ráðgjöf og aðstoð á ýmsa lund. Framsýni og dugnaður þessara einstaklinga allra verður seint fullmetinn.

 

Zontakonur láta ekki deigan síga

Þótt mikilvægum áfanga væri náð voru Zontakonur hvergi nærri hættar. Þær stungu upp á því við formann Barnaverndarfélags Reykjavíkur, að halda fyrirlestra um fötluð börn og samfélagið, ekki síst um þá fötlun sem heyrnarskerðing er. Var því vel tekið og Friede, sem nú var orðin formaður klúbbsins, falið að skrifa dr Bentzen og bjóða honum til Íslands til fyrirlestrarhalds. Þáði hann boðið og var fyrirlestur haldinn í Háskóla Íslands þann 8.júní 1964. Meðal gesta var heiðursfélagi Zontaklúbbsins, Dóra Þórhallsdóttir forsetafrú.
Dr Bentzen flutti einnig fyrirlestra og fundi á Landspítala, Heilsuverndarstöð, með Borgarlækni sem og með Fóstrufélagi Íslands. Fékk heimsókn dr Bentzen góða umfjöllun í dagblöðum bæjarins og vakti athygli á málstaðnum.

Næsti áfangi í starfi Zontaklúbbins var að bjóða fram námsstyrk til kennara sem sérhæfði sig í smíði hlustarstykkja og kynnti sér leiðbeiningarstarf við notkun heyrnartækja, bæði barna og unglinga. Skemmtun var haldin til fjáröflunar með tízkusýningum, happdrætti og ýmsum skemmtiatriðum. „Hljómsveit Svavars Gests lék fyrir dansi og söngvarar voru þau Ellý Vilhjálms og Ragnar Bjarnason.“
Skemmtunin jók sjóðinn verulega og í kjölfarið var boðinn fram námsstyrkurinn. Hann var veittur Birgi Ás Guðmundssyni, ungum kennara sem verið hafði í framhaldsnámi við Kennaraháskólann í Kaupmannahöfn. Hann hafði auk þess kynnt sér kennslu fatlaðra barna í Danmörku.Dr Bentzen reyndist Friede enn hollráður og skipulagði námið og útvegaði húsnæði fyrir Birgi. Birgir var siðan ráðinn til starfa á heyrnarstöðinni þann 1.febrúar 1966 og færði Zontaklúbbur Reykjavíkur stöðinni allan nauðsynlegan tækjabúnað til hlustarstykkjasmíða að gjöf. Birgir starfaði síðan um langt árabil hjá HTÍ.

Auk námsstyrkja söfnuðu Zontasystur fyrir ýmsum tækjum s.s. hljómflutningstækjum í leikhús o.m.fl. Slíkur búnaður, ætlaður heyrnarskertum, var settur upp í Iðnó í janúar 1968, sá fyrsti sinnar tegundar á Íslandi.

 

Friede, dr Bentzen og Stefán Skaftason

Sumarið 1967 er Friede enn stödd í Danmörku og hitti þá dr Bentzen og Stefán Skaftason, sem Zontaklúbburinn höfðu styrkt til framhaldsnáms í Árósum, en Stefán hafði starfað við sjúkrahúsið í Kalmar í Svíþjóð en hafði hug á að koma heim til Íslands og koma upp háls-nef-og eyrnadeild við sjúkrahús hér heima.

Tríóið setti saman aðgerðaáætlun til stuðnings þeim hópi barna sem fæðst höfðu heyrnarlaus í kjölfar Rauðu Hunda faraldurs á Íslandi 1963. Stefán þýddi margvíslegt efni, fjölritaði og sendi heim til Íslands og Friede tók höndum saman við Gylfa Baldursson, sem nú var tekinn við forstöðu heyrnarstöðvarinnar, nýkominn heim úr heyrnarfræðinámi í Bandaríkjunum, og þau söfnuðu saman upplýsingum um heyrnarlausu börnin og aðstandendur þeirra og miðluðu upplýsingum um úrræði sem nú voru í boði. Féllu þau ráð í misgóðan jarðveg og skoðanir dr Bentzen á meðferð heyrnarlausra barna þóttu umdeildar á sínum tíma.FriedeBriemEldri

Að lokum er vert að vitna til orða Auðar Auðuns, sem ritaði lokaorð í ritlinginn „Á brattann“ og sem ítrekað er vitnað í hér að framan. Þar er aðkoma Zontaklúbbs Reykjavíkur rakin og hlutur þeirra gerður ljós, en ýmsum þótti sem hlutverk og framlag frú Friede og Zontasystra allra hefði legið í þagnargildi hvað varðar tilurð fyrstu heyrnarstöðvar sem Íslendingar eignuðust og það brautryðjendastarf, sem unnið var í þágu heyrnarskertra.

Þar segir Auður: „Þögnin um þátt Zontaklúbbsins sýnist mér ásamt fleiru staðfesta það, ...... að þegar fram líða stundir yrði enginn til frásagnar um þátt Zontaklúbbsins varðandi úrbætur í málefnum heyrnarskertra, og því hefi ég og fleiri hvatt til þess að framanrituð frásögn Friede Briem kæmi fyrir almenningssjónir. En sú saga hefði orðið á annan veg ef ekki hefði notið forustu Friede Briem, ráðgjafar dr. Ole Bentzen og skilnings dr. Jóns Sigurðssonar borgarlæknis.“

Við látum svo lokið frásögn þessari af frú Friede Briem og félögum hennar í Zontaklúbb Reykjavíkur. Heyrnar-og talmeinastöð Íslands og Íslendingar allir eiga þeim margt að þakka.

 

Janúar 2014,

Kristján Sverrisson, forstjóri HTÍ

 

(athugasemdir: 1) til gamans má geta að Ole Bentzen, Christian Röjskjær og Harald Ewertsen voru kallaðir „Skytturnar 3 í heyrnarfræði“ í Danmörku á sínum tíma vegna brautryðjendastarfa sinna.)

Tölum (og tölum…) við barnið.

Öflug málörvun er alltaf af hinu góða. Það þarf að gefa sér tíma til að spjalla við barnið hvort sem um er að ræða í leik eða daglegum störfum hversdagsins. En barnið verður líka að hafa svigrúm til að nema það sem við segjum og við þurfum að gefa því tíma til að svara.

Notum sömu orðin – í mismunandi samhengi.

Börn læra stöðugt ný orð og til að auðvelda þeim að víkka orðaforðann þurfum við að vera þeim góð fyrirmynd. Dæmi: „Sjáðu boltann. Hann er sko aldeilis fínn þessi rauði bolti. Þú átt næstum alveg eins bolta. Eigum við að setja litla rauða boltann oní kassann?“ „Er þér heitt? Já, ég veit, það er sjóðheitt hér inni!“ „Ertu svöng? Ég er líka sársvöng / Ég er líka glorhungruð.“

Nefnum athafnir.

Tölum um það sem við gerum á hverjum degi, innan heimilis sem utan. Til dæmis þegar við erum að elda („nú set ég vatn í pottinn og svo fiskinn ofan í. Mmm… mér finnst fiskur svo góður.“), kaupum í matinn, þvoum bílinn, hengjum upp þvott o.s.frv. Tölum þegar við leikum við barnið án þess að spyrja beinna spurninga sem krefjast já/nei svars („Hvar ætli rauði kubburinn sé? Hérna er hann, nú set ég hann ofan á græna kubbinn.“).

Almenn málörvun barnaTölum um atburði í nútíð, þátíð og framtíð.

Ung börn lifa í núinu. Við þurfum smátt og smátt að byggja ofan á, tala um það sem gerst hefur og það sem á eftir að gerast. Þannig lærir barnið að skynja tímann og við leggjum grunn að skipulagningu frásagnar. Tölum um það sem ætlum að gera á eftir („fyrst ætlum við að fara í sund og svo að heimsækja ömmu. Hún gefur okkur kannski ís.“). Síðan er hægt að rifja upp skemmtilega atburði („Manstu hvað við gerðum í gær? Fyrst fórum við í sund og svo til ömmu. Manstu hvað amma gaf okkur góðan ís?“). Ekki er verra að hafa myndir til að styðjast við þegar skemmtilegir atburðir eru rifjaðir upp.

Verum barninu skýr málfyrirmynd.

Reynum að öðlast tilfinningu fyrir málskilningi barnsins. Notum setningar sem við vitum að barnið skilur en bætum stöðugt við nýjum orðum og hugtökum. Notum bendingar til skýringar (t.d. benda á hluti eða myndir) og útskýrum orð eða notum samheiti („veistu að drengur þýðir það sama og strákur?“). Gætum þess að tala ekki of hratt.

Kynnum ný orð og hugtök til sögunnar.

Í leik eða daglegum athöfnum er gott að nefna liti, tölur og bókstafi þegar slíkt á við. Tölum um afstöðuhugtök (t.d. undir, yfir, kringum, við hliðina o.s.frv.), lýsandi hugtök (t.d. þessi pollur er grunnur en þessi er djúpur, eða, þessi bolti er stærri en þessi og þessi er minnstur). Nefnum líkamshluta, t.d. þegar verið er að baða eða hátta. Tölum um mismunandi áferð t.d. fatnaðar (mjúkur, hrjúfur) o.s.frv. Allt sem okkur dettur í hug!

Bergmálun.

Oft er talað um að beinar leiðréttingar á málfari skili ekki árangri, a.m.k. ekki þegar barnið er ungt að árum. Höfum „rétt“ mál fyrir barninu með því að endurtaka það sem þau segja á réttan hátt. Dæmi: Barnið segir, „dúkkan sofaði með mér í rúmið í nóttina.“ Við segjum við barnið, „svaf dúkkan hjá þér í rúminu í alla nótt?“ Endurtökum jafnvel orðin eða setninguna í öðru samhengi.

Lesum á hverjum degi.

Það er deginum ljósara að lestur fyrir börn felur í sér mikla og góða málörvun. Við lestur örvum við orðaforða barna, þau kynnast annarskonar málfari en við notum venjulega og það er hollt og gott að lesa sömu bækurnar aftur og aftur. Börnin skynja uppbyggingu frásagnar, skipulag atburðarásar, orðaröð og setningagerð. Við upphaf lestrar ættum við að skoða bókarkápuna með barninu, spá í nafnið á bókinni og íhuga efni bókarinnar út frá titlinum. Þegar við lesum þurfum við að hafa orðaskil greinileg, ýkja örlítið blæbrigði, benda á myndir um leið og lesið er, útskýra orð og hugtök í stuttu máli ef þörf krefur eða nefna önnur orð til skýringar. Byrjum að lesa fyrir börn um leið og þau geta fylgst með stórum og einföldum myndum (vanalega upp úr þriggja mánaða aldri).

Hvetjum barnið til að segja frá.

Það er gott fyrir barnið að læra að skipuleggja frásögn og segja frá atburðum. Við þurfum að vera góð fyrirmynd. Segjum frá okkar degi áður en við spyrjum hvað þau hafi verið að gera í leikskólanum. Rifjum sameiginlega upp skemmtilega atburði. Fyrir börn sem skynja illa atburðarás og eiga í erfiðleikum með að segja frá er gott að nota dagbækur sem ganga t.d. á milli heimilis og leikskóla. Flestum hentar vel að láta myndir (t.d. úr „Pictogram“ eða „Board maker“ eða jafnvel raunverulegar myndir t.d. úr stafrænum myndavélum) fylgja með til að örva barnið til frásagnar.

Búum til sögur saman.

Segjum sögur upp úr okkur eða eftir myndum. Hvetjum barnið til þess sama. Skrifum niður sögur sem barnið segir. Hægt er að búa til litla bók með auðum blaðsíðum, skrá sögur og leyfa barninu að skreyta bókina. Einnig er sniðugt að klippa út teiknimyndasögur úr dagblöðum, raða í rétta röð og líma í bók. Barnið er þá hvatt til að „lesa“ söguna og rekja hana frá vinstri til hægri (líkt og texta í bókum).

Málörvun í bílnum.

Flestir eyða töluverðum tíma á degi hverjum í bíl. Notum þennan tíma til að örva mál barnsins, t.d. rifja upp atburði dagsins, nefna kennileiti, syngja eða fara með vísur, hvað sem er. Látum það þó ekki trufla okkur við aksturinn!

Syngjum saman.

Syngjum fyrir eða með barninu alveg frá fæðingu þess. Kynnum okkur hvað verið er að syngja í leikskólanum. Hlustum á spólur eða geisladiska með skemmtilegum lögum sem hægt er að syngja. Börnum finnst gaman að setja nýja (bulltexta) við gömul lög. Gott er að lesa fyrir barnið skemmtilegar rímaðar vísur eða kvæði með söguþræði, t.d. Tótu tætibusku, En hvað það var skrítið!, Handagúndavél o.s.frv. Leikum okkur með rím og hvetjum barnið til að „bullríma“. Sum börn hafa ekki gaman að söng vegna þess að þau ráða ekki við orðin eða taktinn (hrynjandina). Með þessum börnum er hentugt að nota tákn (sbr. Tákn með tali) og syngja hægt og taktvisst . Flest börn hafa gaman af að syngja – fyrr eða síðar!

Þykjustuleikir.

Förum í þykjustuleiki með börnunum. Það geta verið dúkku-, búðar-, löggu- eða læknisleikir eða þykjast að tala í síma. Verum dugleg að nota þykjustuhluti til að virkja og efla ímyndunarafl barnsins.

Brandarar.

Börn fá fljótt tilfinningu fyrir kímni. Frá unga aldri er hægt að bulla með þeim og búa til skrítin hljóð og orð. Seinna er hægt að leika sér með orð og setningar. Oft eru heimatilbúnir, einfaldir brandarar skemmtilegastir.

Gátur.

Leggjum fyrir börnin einfaldar gátur, t.d. Hvað er lítið og loðið og geltir voff, voff? Hvað er rautt og vex á trjám? Einnig er hægt að fara í leiki eins og Ég sé… (lýsa hlut og barnið reynir að geta upp á).

Teiknimyndir í sjónvarpi.

Horfum með barninu á leikna mynd eða teiknimynd sjónvarpi eða á myndbandi. Tölum um myndina og rifjum upp söguþráðinn. Veltum fyrir okkur með barninu hvernig sagan hefði getað endað á annan hátt. Spyrjum opinna spurninga (ekki spurninga sem krefjast þess að svarað er eingöngu með já eða nei). Hvetjum barnið til að sitja ekki lengi í einu fyrir framan sjónvarpsskjáinn.

Tölvuleikir.

Til eru á geisladiskum alls konar málörvandi leikir eins og t.d. A-Ö, Leikskólinn og Leikver, Stafakarlarnir og fleiri. Ekki gleyma því að við örvum barnið með því að vera í návist þess og tala við það – og umfram allt, leyfa því að tjá sig.
Málþroski barna

 

 

 Þú getur skoðað bæklingin á síðunni með því að smella á myndina eða hlaða honum niður á PDF formi.

 

baeklingur fyrir foreldra barna med skard i gomi.pdf - Adobe Reader