Stækka letur

Hluti þeirra barna sem fæðast heyrnarlaus eða tapa heyrn á unga aldri eru fórnarlömb veiru sem þau smituðust af frá móður sinni, CMV eða cytomegalo-veirunni. CMV Veira

CMV er veira sem berst á milli einstaklinga með líkamsvessum s.s. munnvatni eða þvagi. Fyrir heilbrigða einstaklinga með óskert ónæmiskerfi orskar veiran varla meira en lítilsháttar hita eða höfuðverk. En fyrir þungaðar konur getur veiran þó haft mun alvarlegri afleiðingar. Það er óvíst að móðirin sjálf finni að hún hafi smitast af CMV en veiran getur borist í fylgjuna og sýkt fóstrið og valdið óafturkræfum fötlunum eins og heyrnarskerðingu, heyrnarleysi eða jafnvel heilaskaða sem getur valdið þroskahömlun af ýmsu tagi.

Í Ástralíu fæðast árlega um 2 000 börn sem sýkt eru af CMV

Af þessum 2000 börnum fæðast um 380 börn með varanlega fötlun s.s. heyrnarleysi, sjónleysi eða andlega þroskahömlun. Í vanþróuðum löndum er talið að allt að fimmtungur nýbura með CMV veiruna fæðist með varanlega fötlun. CMV veiran er þannig ein algengasta orsök fatlana hjá nýburum.
Hér á landi er talið að um 1% barna fæðist með CMV.  Mestar líkur á smiti við 1° sýkingu móður á meðgöngu, einnig miklu meiri líkur á einkennum. 90% barna sem fæðast með CMV eru einkennalaus við fæðingu en 15% þeirra fá neurogen heyrnartap síðar.

Ekki hefur enn tekist að sýna fram á nákvæmlega hvað stjórnar því hvernig fóstur sýkist af CMV en vísindamenn grunar að veiran í blóði móðurinnar sýki fyrst frumur í fylgjunni þar sem þeim fjölgar og berist síðan með naflastreng og sýki fóstrið. 

Þungaðar konur vita lítið um CMV!

Kannanir sýna að þungaðar konur eru ekki mjög meðvitaðar um hvað CMV er né hverjar afleiðingar CMV-sýkingar geta verið. Rannsóknir í þróuðum löndum s.s. Kanada, Bandaríkjunum, Frakklandi, Sviss, Hollandi og Japan hafa sýnt að 61-87 prósent þungaðra kvenna hafa aldrei heyrt talað um CMV.

Þá fer heldur lítið fyrir skipulögðum áróðri til að upplýsa óléttar konur um hvernig þær gætu verndað ófædd börn sín gegn CMV. Og því miður veldur grandaleysi þeirra því að hættan á CMV sýkingum getur aukist.
Flestar konur vita og þeim hefur verið kennt að óléttar konur eigi ekki að borða hrátt kjöt, hráan fisk, ógerilsneydda osta o.fl. Þetta er gert til að forðast aðrar hættulegar sýkingar fyrir fóstur t.d. af völdum listeria-sýkinga.

Þetta veldur því að í dag eru sýkingar af völdum CMV algengari hjá þunguðum konum en t.d. sýkingar af völdum listeriu.

Upplýsingar og árvekni geta komið í veg fyrir CMV sýkingar.

Nauðsynlegt er að það verði vitundarvakning um CMV og hvernig koma megi í veg fyrir smit hjá þunguðum konum. Þungaðar konur ættu t.d. að varast að umgangast kornabörn því að líkamsvessar þeirra geta innihaldið CMV veiruna.
Hér á eftir fara nokkrar ráðleggingar til óléttra kvenna svo draga megi úr CMV sýkingum og að börn fæðist með skaða af völdum þeirra:

  • Ekki deila mat eða drykk með smábörnum
  • Aldrei stinga snuði barns eða leikföngum þeirra í eigin munn
  • Forðist að koma í snertingu við munnvatn ungra barna við faðmlög, knús og kossa
  • Gætið fyllsta hreinlætir – þvoið hendur vandlega eftir bleijuskipti o.s.frv.

Er lækning í augsýn ?

Ekkert bóluefni hefur enn verið þróað gegn CMV veirusýkingum en rannsóknir eru í fullum gangi og vonandi næst að þróa bóluefni sem fyrst.

Meðferð með lyfjum gegn veirusýkingum er bæði tímafrek og dýr og best væri ef hægt verður að komast fyrir smit með bólusetningum eða forvarnarstarfi með verðandi mæðrum.

Heilbrigðisstarfsmenn sem vinna með heyrnarskertum og heyrnarlausum taka mikinn þátt í slíkum rannsóknum í þágu skjólstæðinga sinna. Á Landspítala er skimað fyrir CMV veiru hjá börnum á vökudeild og hjá börnum sem sýna neikvæða svörun við heyrnarskimunarprófi (við 5 daga skoðun).

Við hvetjum þungaðar konur til að ræða þessi mál við sína lækna og starfsfólk heilsugæslu.