Stækka letur

Heyrnar- og talmeinastöð Íslands skortir menntaða heyrnarfræðinga til starfa því eftirspurn eftir þjónustu stofnunarinnar eykst með ári hverju. Þar sem heyrnarfræði er ekki kennd á háskólastigi á Íslandi hefur HTÍ þurft að reiða sig á að íslenskir námsmenn nemi fræðin við erlenda háskóla og skili sér síðan aftur upp á klakann til starfa. Því miður hafa sárafáir Íslendingar numið heyrnarfræði síðustu árin og því þurfti stofnunin að bregðast við með einhverjum hætti þegar ljóst var að endurnýjun og fjölgun sérmenntaðra heyrnarfræðinga væri í hættu.

HTÍ auglýsti því eftir heyrnarfræðingum á Norðurlöndunum og á árinu 2015 fékk stöðin fyrstu erlendu heyrnarfræðingana til starfasebastian waechter heyrnarfræðingur

Sebastian Waechter
heitir ungur Svíi (en þýzkur í aðra ættina) sem réði sig til sumarstarfa hjá okkur því hann hafði mikinn áhuga á að skoða Ísland nánar. Óhætt er að segja að það hafi verið mikill happadráttur fyrir HTÍ því að Sebastian hefur komið reglulega til starfa hjá okkur síðan og mun starfa af og til á þessu ári. Sebastian vann hug og hjörtu bæði starfsmanna og viðskiptavina, lærði íslensku á örfáum vikum og er bæði vandvirkur sérfræðingur og verið öflugur talsmaður HTÍ á erlendri grund. Þannig hefur hann kynnt HTÍ sem starfsvettvang fyrir heyrnarfræðinema í háskólum í Svíþjóð og beinlínis stuðlað að komu nokkurra slíkra til skemmri dvalar hjá HTÍ síðustu árin. Sebastian er að ljúka doktorsnámi við háskólann í Lundi.

Sara Hjelm er heyrnarfræðingur sem útskrifaðist frá háskólanum í Örebro 2016. Hún kynntist HTÍ í gegnum vinkonu sína sem vann hjá okkur um tíma. Sara heimsótti hana til Íslands sumarið 2016 og hafði síðar samband og spurðist fyrir um mögulega stöðu hér á landi. Sara kom snemma árs 2017 og hefur síðan framlengt dvöl sína. Hún hefur náð góðum tökum á íslensku og skjólstæðingar bera henni gott orð fyrir þjónustulund og hlýtt viðmót auk vandaðrar vinnu sem heyrnarsérfræðingur.

Sara Hjelm

Við tókum þessa geðþekku Svía tali og spurðum þau nokkurra spurninga varðandi heyrnarfræðina og dvöl þeirra á Íslandi.

Hvað varð til þess að þið ákváðuð að koma til Íslands til að vinna ?

Sebastian: Fyrsta skiptið sem ég kom til starfa á Íslandi gerðist fyrir röð tilviljana. Ég var ekki nógu ánægður í starfi mínu í Svíþjóð og hafði sótt um styrki til ýmissa aðila vegna rannsóknarverkefna sem ég hugðist vinna að. Góður vinur minn benti mér á að það væri skortur á menntuðum heyrnarfræðingum á Íslandi og spurði mig hvort að það væri ekki góð hugmynd að prófa að vinna þar um tíma á meðan ég biði eftir svörum við umsóknum mínum. Ég ákvað að prófa þetta og síðan gengu hlutirnir ótrúlega hratt fyrir sig og 2 mánuðum seinna var ég mættur hingað og byrjaður að vinna hjá HTÍ.
Seinna fékk ég styrki og stunda nú rannsóknir til doktorsprófs við háskólann í Lundi en mér þótti svo gaman að kynnast Íslandi að ég hef reynt að fá vinnu hér alltaf þegar hlé skapast í starfi mínu í Svíþjóð.

Sara: Mig langaði að vinna heyrnarstöð sem gæfi mér kost á sem fjölbreyttustu viðfangsefnum. Vinkona mín var að vinna hjá HTÍ á undan mér svo ég prófaði að senda tölvupóst með fyrirspurn um starf. Fáum vikum síðar var ég svo bara lent hér og byrjuð að starfa.

Hafðir þú komið áður til Íslands?

Sebastian: ég hafði bara komið einu sinni áður, eina frábæra helgi í nóvember 2013. Við vorum ótrúlega heppin með veður alla þá helgi, sólskin og heiður himinn og varla bærðist hár á höfði. Svo að segja má að hugmyndir mínar um íslenska veðráttu hafi verið eilítið á skjön við veruleikann þegar ég ákvað að flytja hingað en ég hef síðan lært að meta hina mislyndu veðráttu Íslands.

Sara: ,,Ég hafði heimsótt vinkonu mína sumarið 2016 þegar hún vann hérna og ferðast um í nokkra daga í sól og sumaryl. Það gaf nú ekki alveg rétta mynd af loftslaginu“, segir hún hlæjandi.

Hver voru fyrstu viðbrögð þín eftir að þú hafðir dvalist hér fyrstu dagana?

Sara: Fyrsta viðkynning var bara mjög jákvæð og starfsfólk HTÍ tók mér mjög vel.

Sebastian: Ég kem frá Skáni í Svíþjóð þar sem allt er marflatt svo að íslensku fjöllin heilluðu mig algjörlega frá byrjun. (skrásetjari getur staðfest þetta, í fyrsta bíltúr austur fyrir fjall tók Sebastian myndir í gríð og erg af hverjum hól, hæð og fjalli). Jú, auðvitað finnast fjöll í Svíþjóð en ég hefði alltaf þurft að aka í allt að 30 klukkustundir til þess að komast í tæri við þau.  Hér get ég hoppað upp í strætó upp að Esju eftir vinnu á daginn, gengið upp á topp og samt verið kominn heim aftur í kvöldmat. Frábært og hreinn munaður að mínum dómi.   

Hvernig munduð þið lýsa Íslendingum?

Sebastian:  Við fyrstu kynni virka þeir dálítið svona týpískir Norðurlandabúar, innhverfir og þögulir. And sú ímynd fellur fljótt og innan fárra daga komst ég að raun um að Íslendingar eru:

  1. Afslöppuðustu manneskjur í heimi (það er varla tilviljun að frasinn „Þetta reddast“ er algengasta orðtækið í daglegu tali)
  2. Alltaf tilbúnir til að hjálpa öðrum, alveg sama hvaða aðstæður eru.

Sara: Bara einstaklega ljúft fólk og viðkunnalegt.

Hefur viðhorf þitt eitthvað breyst til Íslands eða Íslendinga síðan ?

Sebastian:  Nú þegar ég hef búið og lifað með ykkur um tíma þá hef ég aðeins styrkst í trú minni á A+B hér að ofan. Sara tekur undir þetta með honum.

 Og hvernig líkar þér að vinna sem heyrnarfræðingur á Íslandi?

Sebastian: Ég er mjög ánægður með starf mitt sem heyrnarfræðingur hér. Það getur vissulega verið erfitt á köflum því að eftirspurn eftir þjónustu okkar er mikil og vaxandi og HTÍ er verulega undirmönnuð hvað heyrnarfræðinga varðar. En annars er flest mjög gott. Hér fæ ég tækifæri til að spreyta mig á mjög breiðum hópi skjólstæðinga með allar mögulegar tegundir heyrnarskerðingar og engir tveir dagar eru eins. Starf heyrnarfræðinga í Svíþjóð getur verið einsleitara og tilbreytingarlausara, einkum á stærri stofnunum og fyrirtækjum. Mér líkar einnig hvað íslenskir kollegar mínir eru opnir fyrir nýjungum og að prófa nýjar leiðir svo fremi að vísindalegur grunnur sé traustur. Smæðin gerir HTÍ sveigjanlegri og alla ákvörðunartöku skjótari en hjá stórum og formföstum stofnunum erlendis. Þar getur stundum verið erfitt og tímafrekt að hrinda nyjum verkefnum og aðferðum í framkvæmd.

Sara: Mér líkar afskaplega vel að starfa hér. Á stofnuninni er góður hópur mjög hæfra starfsmanna og sérfræðinga og ég hef lært mikið.

  

Telur þú það eitthvað öðruvísi en í að vinna sem heyrnarfræðingur í Svíþjóð?

Sebastian: Já, tvímælalaust. Hér á landi kynntist ég t.d. fyrst farþjónustu en HTÍ rekur ferðastöð sem er sérbyggð heyrnarmælinga og -þjónustubifreið sem gefur heyrnarfræðingum kost á að ferðast um landið og hjálpa fólki um land allt. Ég held að slík þjónusta gæti hentað mjög vel í sumum héruðum Sviþjóðar og einnig t.d. í Ástralíu, þar sem ég vann um hríð.  

Sara:   Það er helst að hér er aðeins ólík stefna hvað varðar meðferð og endurhæfingu. Í Svíþjóð eru opinberar heyrnarstöðvar með samning við heyrnartækjaframleiðendur skv útboðum. Skjólstæðingar greiða þá aðeins fyrir tíma sérfræðings en fá fyrstu heyrnartækin ókeypis. En úrval heyrnartækja er mjög lítið þar. Vegna tímafreks ferlis við útboðin og kröfur um lægstu verð frá framleiðendum er ný tækni og ný tæki lengi að komast í notkun í Svíþjóð. Á Íslandi höfum við hins vegar aðgengi að nýjustu og bestu tækjum í miklu úrvali. Kostirnir við sænska kerfið eru kannski að þar fær fólk meiri stuðning í formi fræðslu og endurhæfingar sem og stuðnings við daglegt líf (skóla og atvinnu) en Ísland stendur framar hvað varðar gæði heyrnartækja og heyrnarbætandi aðgerða. Ég vildi sjá að við hefðum meiri tíma við endurhæfingu hér en á móti mun ég sakna verulega fjölbreytta úrvalsins af tækjum og búnaði sem stendur til boða á Íslandi

Hvernig telur þú að megi bæta þjónustu við heyrnarskerta hér á landi ?

Fyrst og fremst með því að fjölga vel menntuðum heyrnarfræðingum, segir Sebastian og Sara tekur undir með honum. Þannig mætti vinna á stórum biðlistum eftir þjónustunni. Snemmtæk íhlutun skiptir miklu máli varðandi árangur meðferðar og því er ekki gott ef það dregst um mánuði eða ár að greina skerðingu og hrinda meðferð í framkvæmd.

Forvarnir þyrftu líka að vera í miklu meira mæli en nú er. Góð heyrnarvernd og fyrirbyggjandi aðgerðir geta aukið heyrnarheilsu landsmanna. Stór hluti heyrnarskerðingar er vegna skaða af völdum umhverfisþátta og því mikilvægt að huga að góðri hljóðvist og heyrnarvernd.

,,Okkur sýnist að það þurfi að bæta verulega í varðandi aðstöðu HTÍ og yfirvöld þurfa að gera heyrnarfræði hærra undir höfði og styðja ungt fólk til að læra fagið. Annars munu biðlistar bara halda áfram að vaxa, þjónustan skerðast og afar erfitt að þróa heyrnarfræðina áfram hér á landi“, bæta þau við.

Hvað er spennandi framundan í heyrnarfræðinni og hvert stefnið þið í framtíðinni?

Þau eru bæði sammála um að það eru margir spennandi hlutir í gangi núna. Rannsóknir á því hvernig heilinn vinnur úr hljóðum og hvernig hann greinir tal og málhljóð er spennandi efni. Heyrnarfræði sem vísindagrein er síbreytileg með aukinni tækni og ég tel að rannsóknir næstu ára muni leiða til mikilla framfara í meðferð heyrnarskerðingar og heyrnarleysis.
Sebastian: Þegar ég er ekki hér á Íslandi að vinna þá legg ég stund á doktorsrannsókn mína við háskólann í Lundi í Svíþjóð. Ég stefni fyrst og fremst á að ljúka þeirri vinnu en mig langar að sameina slíka rannsóknarvinnu og klínískt starf í framtíðinni. Ég tel að það styðji hvort annað og auk þess fjölbreytilegra fyrir mig sem vísindamann.    

,,Og persónulega langar mig að safna meiri reynslu í sarpinn og sjá í hvaða farveg nýjustu rannsóknir beina starfi okkar“, segir Sara. ,,Kannski held ég áfram að bæta við mig í námi enn frekar. Það kemur bara í ljós,“ segir þessi geðþekka stúlka að lokum.

Við þökkum þeim skötuhjúum kærlega fyrir spjallið og óskum þeim alls hins besta í framtíðinni.

 

Birt: 13.febrúar 2018