Fréttir

Forðast má hættulegan hávaða með því að nota snjallsímann !

Tækninni fleygir fram og nú bjóðast alls konar tæknilausnir fyrir snjallsíma (apps) sem geta komið heyrnarskertum og þeim sem vilja vernda heyrnina að notum.
Fyrst til sögunnar nefnum við Apps eins og þessi:

https://itunes.apple.com/us/app/decibel-10th/id448155923?mt=8

Nú geta notendur mælt hávaðann í umhverfi sinu með snjallsímanum. Ef mælir sýnir að hávaði fer yfir hættumörk getur notandi gert viðeigandi ráðstafanir til að hlífa heyrninni eða reynt að draga úr hávaðanum. Bráðsnjallt tæki fyrir t.d. kennara og fólk á háværum vinnustöðum, tónleikagesti o.s.frv. Hér má sjá skjámynd af niðurstöðum mælinga:
NoiseLevelMeterApp

 

Heyrnarmæling með eigin síma?

Þá bjóðast einnig nokkur smáforrit (apps) fyrir snjallsíma sem gera fólki kleift að mæla eigin heyrn á einfaldan hátt. Mælingin er hvergi nærri eins nákvæm og mæling sem að heyrnarfræðingar HTÍ bjóða upp á en getur engu að síður gefið góða vísbendingu um hvort að viðkomandi er kominn með e-ja heyrnarskerðingu. Á meðfylgjandi hlekk er að finna ýmis dæmi um þessi heyrnarmæliforrit:

http://appcrawlr.com/app/related/1064837?device=android

 

Við höfum prófað t.d. forritin eHearing Test, sem hannað er af pólsku fyrirtæki, og heyrnarpróf frá Siemens. Bæði prófin komu ágætlega út sem einföld og þægileg og niðurstöður prófana voru sambærilegar á milli endurtekinna prófana á sama einstaklingnum. Þó ber að taka fram að hér er ekki um mjög nákvæm próf að ræða og fólk sem telur sig vera með einhverja heyrnarskerðingu er eindregið hvatt til að panta tíma í heyrnarmælingu hjá viðurkenndum heyrnarmælingastöðvum s.s. HTÍ. (Bókunarsími: 581 3855). Hér fyrir neðan eru skjámyndir úr þessum snjallsíma-forritum:

eHearingTest

 

Siemens Hearing Test

 

 

Vafasöm heyrnartæki?

Nýlega hefur borið á því að einstaklingar auglýsa stíft til aldraðra heyrnartæki til sölu. Auglýsingum hefur verið komið fyrir í sambýlum aldraðra, borið út í póstkassa á elliheimilum, dvalarheimilum og víðar.

Heyrnartækin sem bjóðast eru sögð ódýr og með 2ja ára ábyrgð. Þau eintök tækja sem Heyrnar-og talmeinastöð Íslands (HTÍ) hefur fengið að skoða eru kínversk framleiðsla og eru einfaldir hljóðmagnarar sem settir eru inn í hlustir viðkomandi. Tækin er ekki hægt að aðlaga sérstaklega að heyrnarskerðingu viðkomandi eintaklings.

Heyrnar-og Talmeinastöð Íslands varar heyrnarskerta eindregið við því að kaupa slík tæki án ráðgjafar frá fagaðilum!

Á Íslandi gilda lög og reglugerðir um sölu heyrnartækja og allir aðilar sem bjóða slík tæki þurfa skráningu Velferðarráðuneytis og lúta eftirliti Landlæknis.
HTÍ er ekki kunnugt um að þeir söluaðilar sem hér um ræðir hafi sótt um skráningu yfirvalda eða uppfylli lögbundnar kröfur um starfsemi aðila sem heimilt er að selja heyrnartæki.

Heyrnar-og talmeinastöð Íslands selur heyrnartæki frá helstu framleiðendum heyrnartækja í heiminum (s.s. Widex, Phonak, Siemens) og hefur á að skipa sérmenntuðu starfsfólki, háskólamenntuðum heyrnarfræðingum og sérfræðilæknum í heyrnarsjúkdómum.
Auk HTÍ starfa 3 viðurkenndar, einkareknar stöðvar sem hlotið hafa starfsleyfi yfirvalda til sölu heyrnartækja.

tækin umdeilduaxon2

tækin umdeildu

 

Athugasemd HTÍ: Ofangreind fréttatilkynning HTÍ hefur vakið mikla athygli (sbr t.d. frétt MBL.IS: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/10/01/god_lausn_eda_ologleg_starfssemi/ ) og í ljósi athugasemda frá þeim seljanda sem málið snýst um er rétt að taka fram að HTÍ selur ekki tæki sem eru tífalt dýrari. Verð á 1 heyrnartæki með niðurgreiðslu liggur á bilinu 33þús-145þús. Þá er um að ræða vönduð, stafræn heyrnartæki sem stillt eru sérstaklega fyrir hvern einstakling og mikil þjónusta fylgir.

 

Fimmtudagur 2.október: Enn bætist við umfjöllun um fréttatilkynningu HTÍ um vafasöm gæði heyrnartækja sem boðin eru til kaups. Sjá umfjöllun á vísir.is: http://www.visir.is/varar-heyrnarskerta-vid-odyrum-heyrnartaekjum/article/2014710029931
í athugasemdakerfi við fréttina gætir nokkurs misskilnings varðandi verð tækja. Sjá fyrri athugasemd hér að ofan. Ekki er rétt að bera saman verð á 20-30 ára gamalli tækni og nýjustu stafrænum heyrnartækjum. Þau tæki sem fréttin fjallar um bjóðast t.d. á vinsælli kínverskri netverslun á ca $8,00 (átta dollara eða tæpar 1000 krónur. Ath! útsöluverð til aldraðra á Íslandi tæpar 29000 krónur). Þau tæki eru sögð geta gefið hljóðstyrk í eyra >120dB sem er stórskaðlegur hávaði við viðvarandi notkun.
HTÍ ítrekar viðvörun sína um að heyrnarskertir leiti til fagaðila um fræðslu og umsögn áður en slík tæki eru keypt.

Samband íslenskra sveitarfélaga og Kennarasamband Íslands hafa tekið höndum saman um aðgerðir til að bæta hljóðvist og draga úr hávaða í skólum og vekja athygli á mikilvægi raddverndar og raddbeitingar.

Samböndin hafa nú gefið út fræðsluritið Kennsluumhverfið – hlúum að rödd og hlustun, í samstarfi við Valdísi Jónsdóttur, radd- og talmeinafræðing. Um er að ræða handbók fyrir kennara og stjórnendur í leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarskólum og rekstraraðila þessara stofnana.

Handbókinni er ætlað tvíþætt hlutverk:

  • Að uppfræða kennara, stjórnendur og aðra um rödd, hlustun og umhverfi.
  • Að aðstoða þá sem vilja gera úrbætur á kennsluumhverfinu hvað varðar hljóðvist, hávaða og raddvernd.

Handbok-Kennsluumhverfid

 

Dreifing handbókarinnar er hafin í alla leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarskóla landsins sem og til annarra hagsmunaaðila s.s. rekstraraðila skóla, ýmissa stofnana og samtaka.

Ýmislegt er hægt að gera til að draga úr hávaða með litlum tilkostnaði og hafa samstarfsaðilar tekið saman lista yfir hagnýt ráð sem eru til þess fallin að draga úr hávaða. Á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga er einnig að finna ýmsar hagnýtar upplýsingar um hljóðvist og raddvernd í skólum.

HTÍ fagnar útgáfu fræðsluritsins og hvetur alla til að kynna sér efni þess um leið og við óskum samböndunum til hamingju með nýja ritið.

Fimmtungur eldri borgara eiga erfitt með að skilja leiðbeiningar heilbrigðisstarfsmanna

2014-08-15
Góður skilningur sjúklinga á fyrirmælum og leiðbeiningum lækna og hjúkrunarfólks er afar mikilvægur fyrir vellíðan sjúklingsins. Nýleg, áströlsk rannsókn sýnir að margir heyrnarskertra eldri borgara rangtúlka skilaboð og leiðbeiningar læknis vegna heyrnarskerðingarinnar. Annað samskiptaform milli sjúklinga og lækna gæti verið lausn.

Heyrnarskertir upplifa skömm og vanmátt

Rannsókn á meira en 1.300 Áströlum, eldri en 50 ára, gefur til kynna að 21% þátttakenda eiga í vandræðum þegar þau heimsækja heimilislækni vegna heyrnarvandamála. Einnig sögðust 14% þeirra skammast sín fyrir að biðja heimilslækninn að endurtaka setningar og 10% fannst erfitt að fylgja leiðbeiningum um notkun lyfja. Samkvæmt vísindamönnunum undirstrika niðurstöður rannsóknarinnar þörfina fyrir mismunandi samskiptamáta þegar gefa þarf læknisfræðilegar leiðbeiningar til heyrnarskertra.

Fresta notkun heyrnartækja

Ekki nóg með að heyrnarskertir eigi í vandræðum með að fylgja leiðbeiningum; Rannsóknin leiddi einnig í ljós að tæplega helmingur eldra fólks sem greindist með heyrnartap bíða meira en fjögur ár áður en þau grípa til aðgerða s.s. að fá sér heyrnartæki. Þessi skortur á faglegri heyrnarumönnun meðal ástralska eldri borgara er talin vera afleiðing af tregðu þeirra til að viðurkenna að þeir hafi eins mikið heyrnartap og þeir hafa í raun. Eldra fólk trúir ekki að heyrn þeirra aé svo slæm eða þau sætta sig einfaldlega við vandamálið, vegna þess að þau sjá það ekki sem forgangsverkefni.

Regluleg heyrnarskimun mikilvæg

Rannsakendur leggja áherslu á mikilvægi þess að grípa snemma inn í með aðgerðum varðandi heyrnarvandamál. Þeir ráðleggja fólki að hafa heyrnarmælingu sem hluta af reglulegri heilsufars-skoðun. Hér gegna heimilislæknar mikilvægu hlutverki. Með einfaldri heyrnarskimun geta læknar aukið lífsgæði sjúklinga sinna verulega.

Hægt er að bóka heyrnarmælingu hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands (s:581 3855) og fá þar ráðgjöf um heyrnartæki og önnur hjálpartæki og úrræði fyrir heyrnarskerta. Læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn geta einnig vísað fólki til stöðvarinnar.

Rannsóknin var gerð og gefin út af Australian Hearing samtökunum.
Heimild: www.bellingencourier.com.au

Framkvæmdastjóri Heyrnarhjálpar segir greiðsluþátttöku ríkisins í heyrnartækjum allt of lága og til skammar. Heyrnarskert kona segist ekki hafa efni á að endurnýja gömul tæki vegna kostnaðar.

Við ráðleggjum notandanum að koma til okkar hjá HTÍ til ráðgjafar. Hér fást jafn góð en miklu ódýrari tæki.  Lesið alla greinina hér:

http://m.visir.is/forsida/Frett?ArticleID=2014708099961

2014-08-12-Hætta á að heyrnaskertir einangrist   Frétt   m.visir.is

Holl fæða = Heilbrigðari heyrn ?

Fækkun hitaeininga í fæðu getur gagnast heyrn, samkvæmt sænskri rannsókn.

Holl fæða = Heilbrigð heyrn ?

Fjölmargar fæðu- og næringarleiðbeiningar eru algildar. Ráðgjöf og tillögur um hvað á að borða, hvað á ekki að borða og jákvæð áhrif megrunarkúra, allt getur þetta jafnvel leitt til bættrar heyrnar.

Sænsk rannsókn bendir til þess að takmörkun hitaeininga, auk þess að hafa áhrif til að hægja á öldrun, getur einnig verið hagstæð og dýrmæt í tengslum við aldurstengda heyrnarskerðingu.

Í rannsókn voru þrjátíu mánaða gamlar rottur settar á mataræði sem takmarkaði hitaeiningar um 70% og var sá hópur borinn saman við rottur sem voru fóðraðar að vild. Niðurstöður voru margvíslegar. Auk þess að lengja lífslíkur karlkyns-rotta um nær 20 %, sýndu niðurstöður einnig að hitaeininga-snauðara fæði leiddi til betri heyrnarheilsu hjá kvenrottum.

Niðurstöðurnar sýna því að mataræði (fækkun hitaeininga) seinkar aldurstengdu niðurbroti heyrnartaugarkerfisins. Rannsakendur vonast til að rannsaka orsakir aldurstengda heyrnarskerðingu enn frekar og kanna leiðir til að tefja eða jafnvel koma í veg fyrir þessa fötlun í framtíðinni.holl fæða

Hljóðfræðileg viðbrögð

Rottumar sem voru prófaðar með hitaeiningasnauðu fæði sýndu nokkuð hagstæðari áhrif miðað við samanburðarhóp rotta sem fengu fæði að vild. Ekki síst sú niðurstaða að hljóð-viðbrögð voru varðveitt óskert hjá 73% af rottum á megrunarfæðinu. Ennfremur kom í ljós að rýrnun á vefjum í kuðungi innra eyrans (stria vascularis) í þessum rottum, var einnig mjög takmörkuð miðað við samanburðarhópinn.

Um rannsóknina

Rannsóknin var framkvæmd af Paulu Mannström og liði vísindamanna hjá taugavísindadeild Karolinska Institutet í Stokkhólmi, Svíþjóð. Rannsóknin var birt í vísindatímaritinu " Experimental Gerontology".

Eldri rannsóknir hafa sýnt að ákveðnar fæðutegundir og næring geti verndað gegn heyrnarskerðingu, s.s. fólínsýra (B-vítamín), omega – 3 fitusýrur og A-vítamín.

Nú þurfa bara íslenskir vísindamenn að rannsaka hvort að gamla góða lýsið getur ekki viðhaldið góðri heyrn fram á elliárin!

Heimild : Audiology Info, nr. 22 , september 2013 og www.publications.ki.se

 

Þunglyndi meðal fullorðinna eykst í réttu hlutfalli við versnandi heyrn

 

Heyrnartap er eitt algengasta, langvinna heilsufarsvandamál Bandaríkjanna, og ný rannsókn leiðir í ljós að jafnvel minniháttar heyrnatap getur haft neikvæð áhrif á andlega heilsu.

  • Vísindamenn komust að því að konur með heyrnarskerðingu voru líklegri til að tilkynna um þunglyndi en karlar með heyrnartap.
  • Rannsóknin sýndi sterk tengsl á milli heyrnarskerðingar og þunglyndis nema meðal þeirra sem greindir eru alveg heyrnarlausir.
  • Þessi rannsókn sýnir jafnframt fram á að notkun heyrnartækja var tengt við lægra hlutfall þunglyndis meðal heyrnarskertra þátttakenda.

"Ræddu við lækninn þinn um áhyggjur af heyrninni. "

Þessa rannsókn leiddi Chuan -Ming Li , MD , PhD, National Institute on Deafness and Other Communication Disorders í Bethesda , Maryland.

Rannsakendur skoðuðu gögn um fullorðna yfir 18 ára aldri er höfðu tekið þátt í National Health and Nutrition Examination Survey ( NHANES ) . Þátttakendur sjálf-greindu þunglyndi og heyrnarskerðingu, nema þátttakendur eldri en 70 ára, sem fengu heyrnarmælingar .

Læknarnir komust að því að hlutfall fólks sem greinist með þunglyndi hækkar með aukinni heyrnarskerðingu þess, nema meðal þátttakenda sem eru alveg heyrnarlausir.

Gögnin sýndu að alvarlegt þunglyndi var tilkynnt af 4,9 prósent þátttakenda með framúrskarandi heyrn , 7.1 prósent fólks með góða heyrn og 11,4 prósent af þeim sem greinast með óverulega eða verulega heyrnarskerðingu.

Rannsakendur benda á að það voru engin tengsl milli þunglyndis og sjálf-greindrar heyrnarskerðingar meðal karlkyns þátttakenda eldri en 70 ára. Hins vegar fundu þeir marktæk tengsl á milli miðlungs heyrnarskerðingar (á 35 til 50 desíbel) - og þunglyndis hjá eldri konum .

Heyrnarskertar konur þunglyndari en karlar ?

Rannsóknin leiddi í ljós að 14,7 prósent kvenna með heyrnarskerðingu greindust með þunglyndi, samanborið við 9 prósent heyrnarskertra karla.

Heyrnarlausir þátttakendur í þessari rannsókn greindust með lægsta stig þunglyndis af öllum hópnum, með aðeins 0,06 prósent skráð tilfelli þunglyndis.

Höfundar rannsóknarinnar telja að heilbrigðisstarfsfólk geti veitt betri umönnun með því að viðurkenna að sterk tengsl geta verið á milli nýrnastarfsemi, heyrnar og þunglyndis meðal fullorðinna á öllum aldri og ekki síst meðal kvenna.

Heyrnartæki hjálpa !

Gögnin sýndu einnig að hlutfall þunglyndis var lægra meðal þeirra sem nota heyrnartæki en meðal þeirra sem ekki nota heyrnartæki . Alls 9.1 prósent af notendum heyrnartækja voru þunglyndir, samanborið við 11,7 prósent þeirra sem ekki nota heyrnartæki. Heyrnartækin (bætt heyrn) virðast því vinna gegn þunglyndis-einkennum.

Höfundarnir vekja þó athygli á því að þeir telja rannsóknina takmarkast af skorti á heyrnarmælingum hjá þátttakendum yngri en 70 ára, en hjá þeim var stuðst við sjálf-greint heyrnartap þeirra. Slík aðferðarfræði getur haft áhrif á niðurstöður.

Rannsókn þessi birtist 6 mars s.l. í JAMA Otolaryngology.

Smellið á eftirfarandi hlekk eða myndina neðst í greininni til að sjá danska fréttaþáttinn sem greinin fjallar um:

 

http://www.tv2fyn.dk/arkiv/2012/10/17?video_id=55483&autoplay=1

 

Nýlega birti TV2 sjónvarpsstöðin í Danmörku þátt um ígrædd heyrnartæki og árangur aðgerðarinnar. Ígræðsluþeginn var 46 ára gömul kona á Fjóni, Gunne Berge, en hún hafði misst heyrnina í kjölfar heilahimnubólgu á unga aldri og verið algjörlega heyrnarlaus síðustu árin. Gunne hafði lært varalestur og gat því að hluta til fylgst með einum viðmælanda og tjáð sig með raddmáli en taldi lífsgæði sín mundu batna verulega ef hún næði aftur heyrn. Hún vildi ná heyrn sem gerði henni kleift að fylgjast með umræðum, geta talað í síma, tekið þátt í félagslífi og stundað atvinnu, en Gunne hafði átt erfitt með að fá atvinnu við hæfi þar sem danskir atvinnurekendur töldu mikla annmarka á því að ráða heyrnarlausan einstakling til vinnu.

En sjón er sögu ríkari. Fylgst er með undirbúningi fyrir aðgerð, aðgerðinni sjálfri og loks er viðtal við Gunne um árangur aðgerðarinnar 3 mánuðum síðar.

 

Því miður er fréttaþáttur þessi á dönsku og einungis er danskur texti við mál Gunne sjálfrar. Við vinnum í því að setja íslenskan texta við allt myndbandið.

GunneBergeVideoer om CI

Ingibjörg Hinriksdóttir, yfirlæknir Heyrnar-, og talmeinastöðvar Íslands, segir að þróun heyrnaskerðinga hérlendis sé svipuð og á öðrum Norðurlöndunum. Nú séu mun fleiri sem nota heyrnartæki en á árum áður og stafar það meðal annars af notendavænni tækjum sem eru í boði.Ingibjörg-Hinriksdóttir-300x200

 

Ingibjörg er menntaður háls-, nef-, og eyrnalæknir og sérfræðingur í heyrnarfræðum. Hún útskrifaðist úr læknadeild Háskóla Íslands árið 1988 og hefur unnið við fagið síðan þá og gegnt stöðu yfirlæknis Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar frá árinu 2002.

 

„Þegar ég var í námi fannst mér sá hluti þess sem snerti heyrn ákaflega áhugaverður og ákvað að sérhæfa mig á því sviði, ég kom síðan heim úr námi frá Svíþjóð 1997. Þá lágu í loftinu miklar breytingar í faginu og það var margt nýtt að gerast á þeim tíma. Miklar tækniframfarir varðandi heyrnartæki og búnað þeim tengdum, eyrnaaðgerðum og kuðungsígræðslum. Við horfum mikið til Norðurlandanna en þar voru að verða algengari kuðungsígræðslur fyrir mikið heyrnarskerta einstaklinga sem olli sannkallaðri byltingu fyrir þá sem voru nánast heyrnarlausir. Þessi tæki hafa reynst vel fyrir börn og fullorðna og er áhugavert að fylgjast með þróun á tækjum, tækni og aðgerðum í tengslum við ígræðslurnar," útskýrir Ingibjörg og segir jafnframt;

„Fyrstu aðgerðirnar af þessu tagi í heiminum voru framkvæmdar á almenningi upp úr 1980 en fram að því höfðu aðgerðirnar verið gerðar í þróunar- og rannsóknarskyni í nokkur ár. Hér á landi hefur það aukist jafnt og þétt að einstaklingar nýti sér þennan möguleika. Fyrstu árin sendum við sjúklinga héðan til Noregs í kuðungsígræðsluaðgerðir en frá árinu 2000 hafa aðgerðirnar verið gerðar í samstarfi við Karolínska háskólasjúkrahúsið í Huddinge í Svíþjóð. Nú er einn íslenskur eyrnaskurðlæknir hér á landi að sérhæfa sig í slíkum aðgerðum og mun hann taka þær að sér hér heima þegar hann lýkur þjálfun. Hérlendis hafa 72 einstaklingar farið í slíka aðgerð, eða um 4-5 einstaklingar á ári sem er svipuð prósenta og á hinum Norðurlöndunum."

 

Um 10 þúsund manns með heyrnartæki

Á Íslandi eru ekki til góðar rannsóknir um heyrnarheilsu og þróun hennar hér á landi.

„Notkun heyrnartækja hefur aukist hérlendis en það má áætla að um tíu þúsund notendur séu hér á landi sem er undir þörfinni. Það er eðlilegra að um 15-17 þúsund manns væru með heyrnartæki en það eru þó áætlaðar tölur.

Heyrnartæki eru alltaf að verða betri og betri og hljóðið í þeim betra. Þau eru orðin þægilegri í notkun en áður. En engin tæki gefa þó fulla heyrn, hvorki hefðbundin tæki né ígrædd tæki eins og til dæmis kuðungsígræðslutæki. Öll tæki breyta utanaðkomandi hljóðum í rafrænt form þannig að fólk heyrir ekki eins og með náttúrlegri heyrn. Þó er sífellt betri hljóðvinnsla í tækjunum," segir Ingibjörg.


Heyrn og málþroski helst í hendur

Árið 2007 hófst skimun á heyrn hjá nýburum hérlendis en eitt til tvö börn af hverjum þúsund fæðast með heyrnarskerðingu sem getur hindrað eða tafið málþroska. Á Íslandi eru nú um 150 börn á aldrinum 0-18 ára með heyrnartæki.

„Vegna þessa samstarfsverkefnis okkar og Landspítala, Sjúkrahússins á Akureyri og fleiri heilbrigðisstofnana þá höfum við mjög góðar upplýsingar um heyrn barna sem hafa fæðst frá þessum tíma. Þannig greinast þau börn sem fæðast með heyrnarskerðingu mun fyrr og það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir barnið, ekki hvað síst fyrir málþroskann, að hægt sé að hefja viðeigandi rannsókir í kjölfar skimunar við fimm daga skoðun," segir Ingibjörg og bætir við:

„Ef eitthvað er að heyrn barnsins þá kemur það í frekari greiningu hingað til okkar á Heyrnar- og talmeinastöðina í umfangsmeiri mælingar. Sum börn eru allt niður í þriggja mánaða þegar þau fá fyrstu heyrnartækin sín. Hjá okkur fá foreldrar einnig ráðleggingar um samskipti við barnið og hvernig þau geta gert börnin sín meðvituð um hljóð með því að hlusta eftir þeim. Hlustun er undirstaða máltöku og því er þessi þáttur mjög mikilvægur. Mikið heyrnarskertum börnum og fjölskyldum þeirra vísum við til Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra sem sér um kennslu í íslensku táknmáli. Það er mikilvægt fyrir allan þroska barnsins að hafa mál sem það getur notað til samskipta við aðra."


Mikilvægt að skýla sér fyrir hávaða

Heyrnarskerðing á sér oftast stað á löngu tímabili og er ekki í öllum tilfellum aldurs- eða erfðatengd. Þannig er fólk sem er á einhverjum tímapunkti í miklum hávaða, þó ekki sé nema í stuttan tíma, frekar útsett fyrir því að fá heyrnarskerðingu á lífsleiðinni.

„Við þurfum að veita meiri fyrirbyggjandi fræðslu almennt varðandi heyrnina og efla forvarnir í þessum málaflokki. Fólk þarf að vera meðvitað hvernig það getur skýlt heyrninni eins og til dæmis á tónleikum. Margir tónlistarmenn nota ákveðna gerð heyrnarhlífa, sumir þeirra koma hingað til okkar og fá sérstaka tappa smíðaða sem passa í hlust þeirra, tapparnir lækka umhverfishljóð um ákveðin desibel til að vernda heyrnina. Það er mjög mikilvægt að forða börnum frá hávaða eins og til dæmis í heyrnartólum og spilurum sem þau ganga með dagsdaglega en í flestum þeirra er hægt að stilla tækin svo að hljóðið verði ekki of hátt og að þau fari ekki yfir ákveðinn styrk," útskýrir Ingibjörg og segir jafnframt:

„Síðan eru margir sem starfa mikið í hávaða eins og til dæmis iðnaðarmenn og því er mikilvægt fyrir þennan hóp að vera duglegan að verja sig með hlífum. Það eru margir sem halda að þó að þeir hafi verið stutt í hávaða að þá hafi það ekki áhrif á heyrnina en það safnast upp í gegnum lífið skemmd sem verður á hárfrumum í kuðungi innra eyrans sem veldur síðan heyrnartapi. Þannig geta til dæmis skotveiðimenn sem fara nokkrum sinnum á ári í veiði og skýla ekki eyrunum verið komnir með suð og skerðingu á heyrn eftir örfá ár og það er mjög sorglegt."


Eyrnasuð og úrræði

Samkvæmt erlendum rannsóknum eru um 15-20 prósent einstaklinga með eða fá eyrnasuð einhvern tíma á lífsleiðinni og má því áætla að um 50 þúsund landsmanna hrjáist af eyrnasuði af einhverju tagi.

„Þetta er mismikið hjá fólki og misjafnt hversu mikið það truflar fólk. Eyrnasuð getur komið til af mörgum toga, til dæmis út af heyrnarskerðingu, átt upptök í vöðvabólgu í kringum kjálkaliði, getur verið afleiðing lyfjatöku, vegna hás blóðþrýstings og vegna hávaðaheyrnartaps. Það getur einnig verið ættgengt og algengt er að fólk sem þjáist af kvíða og þunglyndi séu með þennan kvilla. Stundum gengur að hjálpa fólki en í öðrum tilfellum er það erfitt og sumir læra að halda því frá sér þannig að það hefur lítil áhrif á líf þeirra. Þar hefur hugræn atferlismeðferð reynst fólki vel. Það er þó ekki á færi eins aðila að höndla meðferð við eyrnasuði þar sem þetta er flókið fyrirbæri og margir þættir sem spila inn í, teymisvinna margra mismunandi sérfræðinga er skilvirkasta meðferðin og gefur bestan árangur."

Það er margt sem heyrnarskerðing hefur í för með sér fyrir fólk en í dag eru til ýmsar leiðir til að bæta lífsgæði fólks sem búa við hana.

„Það er margt sem hægt er að gera til að auðvelda fólki að lifa með heyrnarskerðingu. Þannig er til dæmis hægt að gera ráðstafanir til að draga úr hávaða til dæmis að setja filter undir stóla til að minnka skarkala þegar þeir eru færðir til, setja gardínur úr þykku efni fyrir glugga til þess að það glymji minna í rýmum og til er ýmis hjálparbúnaður sem hægt er að tengja við heyrnartæki svo sitthvað sé nefnt. Það hafa því verið gríðarlegar framfarir á þessu sviði undanfarna áratugi en þó er alltaf gott að hafa í huga að það er ekkert sem kemur í stað eðlilegrar náttúrlegrar heyrnar," segir Ingibjörg.

 

Greinin birtist í tímaritinu Ský og er birt með leyfi höfundar.

Texti: Erla Gunnarsdóttir Mynd: Geir Ólafsson

Heyrnarskerðing getur haft áhrif á persónuleika eldra fólks

Nýleg sænsk rannsókn sýnir að heyrnarskerðing getur haft djúpstæð áhrif á persónuleika og félagslíf aldraðra.

Það er alkunna að fólk verður heimakærara með aldrinum og fer minna út á meðal fólks. Þessi breyting á persónuleika er þó sýnu algengari meðal fólks með heyrnartap. Lausnin er að viðurkenna vandann og meðhöndla heyrnarskerðingu aldraðra, segja vísindamenn.

einmana

Heyrnarskerðing hefur áhrif persónuleika

Í rannsókn sem gerð var af sænskum vísindamönnum voru rannsakaðir 400 einstaklingar á aldrinum 80-98 ára yfir sex ára tímabil. Á tveggja ára fresti voru aldraðir metnir með tilliti til líkamlegrar og andlegrar líðanar sem og persónuleika-einkenna s.s. félagslyndis og tilfinningalegs stöðugleika.
Á því sex ára tímabili, sem vísindamennirnir skoðuðu, sáu þeir að jafnvel þótt tilfinningalegur stöðugleiki þátttakenda haldist óbreyttur, þá dró mjög úr félagslegri þátttöku fólks í hópnum. Vísindamönnunum þótti tíðindum sæta að þeir gátu ekki tengt breytingu á persónuleika til líkamlegrar hrörnunar eða vitglapa eða þá erfiðleika við að finna félagsstarf við hæfi eldra fólks.

Eini þátturinn sem rannsakendur gátu tengt við minni félagsfærni þeirra sem rannsakaðir voru var heyrnarskerðing. Samkvæmt vísindamönnunum sýna niðurstöðurnar ljóslega að heyrnarskerðing hefur bein áhrif á lífsgæði aldraðra hvað varðar félagslega þátttöku. Ennfremur varpar rannsóknin ljósi á þróun persónuleika á efri árum.

Heyrnartæki auka vellíðan og velferð

Niðurstöður rannsóknarinnar undirstrika mikilvægi þess að viðurkenna og meðhöndla tapaða heyrn meðal eldri t.d. með heyrnartækjum.
Fyrri rannsóknir hafa sýnt að félagslyndir einstaklingar eru ánægðari með líf sitt. Þó að vísindamenn geti ekki sannað orsakasamhengi, telja þeir samt afar líklegt að tengslin á milli heyrnarskerðingar og félagslegrar hlédrægni ógni velferð eldra fólks.

Um rannsóknina

Rannsóknin var gerð af vísindamönnum við sálfræðideild háskólans í Gautaborg, Svíþjóð og birtist í Journal of Personality.
Heimild: www.eurekalert.org