Fréttir

saudarkrokurHeilbrstofnun

Þann 16.janúar s.l. opnaði Heyrnar-og talmeinastöð Íslands nýja afgreiðslu á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Sauðárkróki.Afgreiðsla HTÍ á Sauðárkróki verður opin annan hvern föstudag fyrst um sinn, á meðan í ljós kemur hver viðbrögð íbúa á NV-landi verða. Mögulegt er að afgreiðsludögum verði fjölgað í framtíðinni ef þörf krefur.

Augljóst var að Skagfirðingar mátu opnunina mikils því að fyrsti viðskiptavinurinn var mættur á staðinn á mínútunni 12:00!

 

Sofia Dalman, heyrnarfræðingur, mun sinna móttökunni en hún er jafnframt starfsmaður HTÍ á Akureyri (en þar er opið 2 daga í viku hverri). Sofia veitir alhliða þjónustu fyrir heyrnarskerta s.s. heyrnarmælingum, ráðgjöf um heyrnartæki og hjálpartæki, minniháttar viðhald og viðgerðir, sölu og afgreiðslu heyrnartækja og ýmissa varahluta og rafhlaðna fyrir heyrnartæki. Þá mun Sofia annast skimun á heyrn nýbura á NV-landi.

sofia2
Sofia Dalman, heyrnarfræðingur HTÍ, var ánægð í nýrri afgreiðslu stöðvarinnar í heilsugæslunni á Sauðárkróki.

 

Fullkomin aðstaða

Á Sauðárkróki er góð aðstaða fyrir Heyrnar-og talmeinastöð Íslands. Tæknimaður HTÍ fór yfir og stillti heyrnarmæli og klefa sem er á staðnum, en að auki var bætt við aðstöðu og tækjabúnað Sofiu á staðnum. Vonumst við til að geta bætt við fleiri þjónustuþáttum með tíð og tíma.

Heyrnar-og talmeinastöð Íslands vonar að íbúar á NV-landi muni nýta sér bætt aðgengi að þjónustu stofnunarinnar.

Bókanir í tíma hjá HTÍ á Sauðárkróki eru mótteknar í síma 581 3855 alla daga vikunnar á milli kl 08:30-15:30. Vinsamlegast takið fram að um afgreiðslu á Sauðárkróki sé að ræða.

 

 

Hér að neðan má sjá myndir frá opnunardeginum. Þór Sigurðsson, tæknimaður HTÍ, mældi og stillti heyrnarmælingarklefa og -mæla. Og viðskiptavinur númer 3 var af yngstu kynslóðinni, nýlega fæddur drengur sem mætti til skimunar á heyrn.

sofiaNyburamaeling2

thorKlefi1

Í október s.l. auglýsti Velferðarráðuneytið eftir umsóknum um styrki til gæðaverkefna á sviði heilbrigðismála. Heyrnar-og talmeinastöð Íslands sendi inn umsókn um verkefni sem lýtur að fjarþjónustu talmeinasviðs við notendur og umönnunaraðila á landsbyggðinni.

Heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, hefur nú tilkynnt um þau verkefni sem hlutu náð fyrir augum dómnefndar og njóta styrkveitingar Gæðastyrkja velferðarráðuneytis 2014.

Verkefni HTÍ er eitt af sex verkefnum sem hljóta gæðastyrki að þessu sinni. Styrkirnir voru afhentir hamingjusömum styrkþegum við athöfn í ráðuneytinu fimmtudaginn 15.janúar. Kristján Sverrisson, forstjóri HTÍ, veitti styrknum viðtöku fyrir hönd stofnunarinnar. Þakkaði hann nafna sínum og ráðuneytinu kærlega fyrir stuðninginn og hafði uppi heitstrengingar um bætta þjónustu talmeinasviðs HTÍ við hinar dreifðari byggðir landsins.

frá afhendingu Gæðastyrkja

Kampakátir styrkþegar ásamt ráðherra.
Kristján Sverrisson, forstjóri HTÍ, er annar frá hægri (og koma eflaust fáir aðrir til greina á myndinni)

 

Verkefnið:

HTÍ vill kanna hvort að fjarþjónusta (telepractice) geti bætt þjónustu við skjólstæðinga sem búsettir eru utan höfuðborgarsvæðisins. Tilraunaverkefni þetta (pilot) felst í að setja upp færanlegan fjarfundabúnað sem notaður verður við upphafsþjálfun barna í forgangshópi varðandi talmein, að undangengnu staðbundnu mati á HTÍ, - allt að 8 vikna (16 skipti) meðferð talmeinafræðings í Reykjavík fyrir barn í heimahúsi eða skóla utan SV-horns.

Í forgangshópi HTÍ varðandi talmein eru t.d. börn með kuðungsígræðslutæki vegna heyrnarleysis, börn með skarð í góm/vör, o.fl.

 

Greining og meðferð í nærumhverfi barna getur verið gjörbylting í þjónustu við þennan skjólstæðingahóp. Sérmenntaðir talmeinafræðingar á áðurnefndu sviði eru fáir og nær enginn utan höfuðborgarsvæðisins. Ef vel tekst til mætti mæla með og fjölfalda verkefnið til leikskóla, skóla og sveitarfélaga sem gætu komið upp slíkum búnaði eða fengið lánaðan og gert samninga við talmeinafræðinga varðandi þjónustu í nærumhverfi barna (og fullorðinna). Mikill kostnaður foreldra og heilbrigðiskerfis gæti lækkað verulega þar sem tæknin verður sífellt ódýrari og fullkomnari.

 

Tilgangur og markmið verkefnis:

Að kanna gagnsemi, framkvæmanleika og hagkvæmni á nærþjónustu í talþjálfun veittri með fjarfundabúnaði. Þjónusta miðlægrar þjónustustofnunar í Reykjavík standi til boða notendum í dreifðari byggðum.

 

Vonast er til að ljúka verkefninu á haustdögum.

 

Heyrnar-og talmeinastöð Íslands þakkar ráðuneytinu kærlega fyrir stuðninginn.

Undanfarin tvö ár hafa nokkrar stofnanir sem sinna heyrnarskertum og heyrnarlausum tekið þátt í verkefninu Menntun og tengsl. Þessar stofnanir eru auk Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Leikskólinn Sólborg, Hlíðaskóli, Þjónustumiðstöð miðborgar og Hlíða og Heyrnarhjálp. Eitt af markmiðum verkefnisins var að styrkja samvinnu stofnananna.

Til þess að halda áfram því góða starfi sem hófst innan verkefnisins ætla þessar stofnanir, ásamt Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins og Félagi heyrnarlausra, að halda sjö sameiginlegar málstofur sem tengjast málefnum heyrnarlausra og heyrnarskertra barna.

            Haldin verður ein málstofa í mánuði. Í hverri málstofu er um 15 mínútna erindi og umræður í um 30 mínútur. Málstofurnar byrja alltaf kl. 14:30 og standa til kl. 15:30. Málstofurnar verða haldnar á Samskiptamiðstöð heyrnarlausra, Grensásvegi 9, 108 Reykjavík. Nánari dagsetning fyrir hverja málstofu og umræðuefni verður auglýst sérstaklega þegar nær dregur.

            Málstofurnar eru öllum opnar og verða ýmist fluttar á íslensku eða íslensku táknmáli. Túlkað verður á milli málanna og auk þess verður í einhverjum tilvikum boðið upp á rittúlkun að auki.

            Allir eru velkomnir og ekki þarf að greiða fyrir þátttöku.

Fyrsta málstofan verður haldin þann 27. janúar kl. 14:30 í umsjá Samskiptamiðstöðvar  heyrnarlausra.
Umræðuefni: Snemmtæk íhlutun fyrir heyrnarlaus og heyrnarskert börn.

Önnur  málstofan verður haldinn þann 17. febrúar kl 14:30 og hefur Heyrnarhjálp umsjón með henni.
Umræðuefni: Ýmsar orsakir heyrnarskerðingar, hvernig skerðingin lýsir sér og hvað er til ráða.

Við hvetjum alla þá sem áhuga hafa á málefnum heyrnarskertra og heyrnarlausra barna að líta við á málstofurnar.

hljóðasmiðjaLubba

HTÍ fagnar útgáfu kennsluefnis fyrir talmeinafræðinga - Hljóðasmiðju Lubba.

Um er að ræða fjórar öskjur af spennandi efni sem örvar m.a. málhljóðamyndun, hljóðavitund og snemmbúið læsi.

Efnið byggir á tveimur rannsóknum á málhljóðatileinkun íslenskra barna og hugmyndinni um ,,hljóðanám í þrívídd". Með öskjunum fylgir handbók með fjölmörgum hugmyndum um notkun efnisins. Kennsluefnið fer í almenna sölu eftir áramót. Hægt verður að nálgast efnið í gegnum nýja heimasíðu Lubba sem opnuð verður fljótlega.

Í millitíðinni má leita upplýsinga hjá höfundunum, Þóru Másdóttur (This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.) og Eyrúnu Ísfold Gísladóttur (This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.).

Heyrnar-og talmeinastöð Íslands studdi útgáfuna lítillega og við óskum höfundunum til hamingju með útgáfuna.

 

Desember 2014

Tilvísanir til talmeinafræðinga 2015

Hverjir geta sótt um athugun hjá talmeinafræðingi á HTÍ ? (gildir frá og með 1. janúar 2015)

          -heilsugæslur

          -læknar

          -Þroska- og hegðunarstöð

          -Barna- og unglingageðdeild Lsp

          -aðrir talmeinafræðingar

Þeir sem ekki geta sótt beint um eru foreldrar, sálfræðingar (m.a. þjónustumiðstöðva) og leikskólar.

Því miður hefur ásókn í þjónustu talmeinafræðinga aukist svo mikið að HTÍ verður að takmarka aðgang við þá forgangshópa sem stöðin sinnir á landsvísu. Á þennan hátt bregðumst við þeim mikla fjölda sem sækir hér í athugun og einnig talþjálfun.

Forgangshóparnir verða sem fyrr (auk fullorðinna einstaklinga með kuðungsígræðslu og raddveilur):

Athugun/mat:

  • Börn sem fæðast með skarð í gómi eða vör
  • Börn sem fá slaka útkomu á Brigance/Peds í 2 ½ árs eða 4 ára skoðun
  • Börn sem eru heyrnarskert (þ.m.t. börn með kuðungsígræðslu)
  • Börn utan að landi þar sem viðunandi úrræði eru ekki í heimabyggð.

Talþjálfun:

  • Börn sem eru heyrnarskert (þ.m.t. börn með kuðungsígræðslu)
  • Börn sem fæðast með skarð í gómi eða vör.

Hvert geta aðrir sótt þjónustu?

Foreldrum, leikskólakennurum og öðrum, sem ekki geta sótt beint til HTÍ, er bent á að leita til þjónustumiðstöðva/skólaskrifstofa í sínu sveitarfélagi auk sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga.

Viltu kynnast heyrnarskerðingu? Hvernig heyra heyrnarskertir?

 

Hér að neðan eru hlekkir á ýmsar hljóðskrár sem leyfa þeim sem hafa góða heyrn að kynnast því hvernig heyrnarskertir heyra tónlist, sem og fólk sem þjáist af eyrnasuði. Athyglisverðar upplýsingar sem að koma frá dönskum rannsóknaraðilum, Danish Information Center for Hearing Impairment and Deafness, Delta Akustik and Vibration:

 

Hljóðskrár:        Size:

Normal Hearing - Eðlileg heyrn  565 Kb
Heyrnarskerðing um 10 dB 566 Kb
Heyrnarskerðing um 20dB 565 Kb
Heyrnarskerðing um 30dB 565 Kb
Sensorineural heyrnarskerðing (væg) 571 Kb
Sensorineural heyrnarskerðing (meðalslæm) 580 Kb
Sensorineural heyrnarskerðing (veruleg) 580 Kb
Tinnitus (dæmi 1) 567 Kb
Tinnitus (dæmi 2) 566 Kb

 

Heyrnarskertum Svíum hefur fjölgað um 50% á síðustu 25 árum !

Á innan við 25 árum hefur heyrnarskertu fólki í Svíþjóð fjölgað verulega, segir ársskýrsla sænskra samtaka heyrnarskertra,  Hörselskadades Riksforbund, HRF (www.hrf.se). Í dag eru rúm 1,3 milljónir Svía á aldrinum 16 ára og eldri heyrnarskertir.

Skýrslan greinir frá því að á árunum 1984-1987 mældust 11.3% Svía með heyrnarskerðingu eða heyrnarvandamál. Á tímabilinu 2004-2007 hefur þetta hlutfall hækkað í 14.3% og á árabilinu 2008-2012 reis hlutfallið enn og nú mælast 17% Svía heyrnarskertir. Hlutfall fólks með einhverja heyrnarskerðingu virðist því hafa aukist um nær 50% á innan við 25 árum.sænsk

Meira en helmingur enn á vinnualdri

Ef heyrnarskerti hópurinn er skoðaður nánar kemur í ljós að 54% eru á aldrinum 16-64 ára. Það þýðir að meira en helmingur heyrnarskertra Síva eru enn á vinnualdri. Þar með er heyrnarskerðing en algengasta fötlun á vinnustöðum. Samkvæmt skýrslunni er það æ algengara að fólk á miðjum aldri upplifi heyrnartap og einn af hverjum fimm Svíum á aldrinum 45-64 ára eru heyrnarskertir.

Vandamál eldri borgara

Í hópi "yngri" eldri borgara (65-74 ára), reynast meira en einn af hverjum fjórum (28%) vera heyrnarskert. Í eldri hóp aldraðra, 75-84, eru nær 40% (39%) með heyrnarskerðingu og þegar komið er yfir 85 ára aldur er nær önnur hver manneskja (46%) með verulega heyrnarskerðingu.

Skýrsluhöfundar telja að þessa þróun megi rekja til þeirrar staðreyndar að umhverfi okkar verður sífellt háværara, hljóðvist versnar, áreiti vex en lítið tillit er tekið til heyrnarskerðingar fólks.

Fleiri karlar en konur eru heyrnarskertir

Skýrslan sýnir einnig að karlar eru líklegri til að vera heyrnarskertir en konur. Í Svíþjóð er þetta hlutfall 54 % karla á móti 46% kvenna. Helsta ástæða þessa er talin vera sú að karlar hafi yfirleitt sinnt háværari störfum og átt háværari tómstundaiðju (s.s. skotveiðar o.fl.)

Aukning heyrnarskertra í framtíðinni

Þar sem Svíar, líkt og Íslendingar, eru sífellt að eldast, bendir allt til þess að tíðni heyrnarskerðingar muni aukast frekarí nánustu framtíð. Því miður eru ekki til áreiðanlegar tíðnitölur um heyrnarskerðingu Íslendinga yfir sama tímabil en flest bendir til að þróunin hér á landi sé með líku sniði og hjá frændum okkar Svíum.

Heimildir: Myternas Marknad. Svensk hörselvård – från behov til business. Hörselskadades Riksforbund (HRF). Årsrapport 2014. www.hrf.se

 

Forðast má hættulegan hávaða með því að nota snjallsímann !

Tækninni fleygir fram og nú bjóðast alls konar tæknilausnir fyrir snjallsíma (apps) sem geta komið heyrnarskertum og þeim sem vilja vernda heyrnina að notum.
Fyrst til sögunnar nefnum við Apps eins og þessi:

https://itunes.apple.com/us/app/decibel-10th/id448155923?mt=8

Nú geta notendur mælt hávaðann í umhverfi sinu með snjallsímanum. Ef mælir sýnir að hávaði fer yfir hættumörk getur notandi gert viðeigandi ráðstafanir til að hlífa heyrninni eða reynt að draga úr hávaðanum. Bráðsnjallt tæki fyrir t.d. kennara og fólk á háværum vinnustöðum, tónleikagesti o.s.frv. Hér má sjá skjámynd af niðurstöðum mælinga:
NoiseLevelMeterApp

 

Heyrnarmæling með eigin síma?

Þá bjóðast einnig nokkur smáforrit (apps) fyrir snjallsíma sem gera fólki kleift að mæla eigin heyrn á einfaldan hátt. Mælingin er hvergi nærri eins nákvæm og mæling sem að heyrnarfræðingar HTÍ bjóða upp á en getur engu að síður gefið góða vísbendingu um hvort að viðkomandi er kominn með e-ja heyrnarskerðingu. Á meðfylgjandi hlekk er að finna ýmis dæmi um þessi heyrnarmæliforrit:

http://appcrawlr.com/app/related/1064837?device=android

 

Við höfum prófað t.d. forritin eHearing Test, sem hannað er af pólsku fyrirtæki, og heyrnarpróf frá Siemens. Bæði prófin komu ágætlega út sem einföld og þægileg og niðurstöður prófana voru sambærilegar á milli endurtekinna prófana á sama einstaklingnum. Þó ber að taka fram að hér er ekki um mjög nákvæm próf að ræða og fólk sem telur sig vera með einhverja heyrnarskerðingu er eindregið hvatt til að panta tíma í heyrnarmælingu hjá viðurkenndum heyrnarmælingastöðvum s.s. HTÍ. (Bókunarsími: 581 3855). Hér fyrir neðan eru skjámyndir úr þessum snjallsíma-forritum:

eHearingTest

 

Siemens Hearing Test

 

 

Vafasöm heyrnartæki?

Nýlega hefur borið á því að einstaklingar auglýsa stíft til aldraðra heyrnartæki til sölu. Auglýsingum hefur verið komið fyrir í sambýlum aldraðra, borið út í póstkassa á elliheimilum, dvalarheimilum og víðar.

Heyrnartækin sem bjóðast eru sögð ódýr og með 2ja ára ábyrgð. Þau eintök tækja sem Heyrnar-og talmeinastöð Íslands (HTÍ) hefur fengið að skoða eru kínversk framleiðsla og eru einfaldir hljóðmagnarar sem settir eru inn í hlustir viðkomandi. Tækin er ekki hægt að aðlaga sérstaklega að heyrnarskerðingu viðkomandi eintaklings.

Heyrnar-og Talmeinastöð Íslands varar heyrnarskerta eindregið við því að kaupa slík tæki án ráðgjafar frá fagaðilum!

Á Íslandi gilda lög og reglugerðir um sölu heyrnartækja og allir aðilar sem bjóða slík tæki þurfa skráningu Velferðarráðuneytis og lúta eftirliti Landlæknis.
HTÍ er ekki kunnugt um að þeir söluaðilar sem hér um ræðir hafi sótt um skráningu yfirvalda eða uppfylli lögbundnar kröfur um starfsemi aðila sem heimilt er að selja heyrnartæki.

Heyrnar-og talmeinastöð Íslands selur heyrnartæki frá helstu framleiðendum heyrnartækja í heiminum (s.s. Widex, Phonak, Siemens) og hefur á að skipa sérmenntuðu starfsfólki, háskólamenntuðum heyrnarfræðingum og sérfræðilæknum í heyrnarsjúkdómum.
Auk HTÍ starfa 3 viðurkenndar, einkareknar stöðvar sem hlotið hafa starfsleyfi yfirvalda til sölu heyrnartækja.

tækin umdeilduaxon2

tækin umdeildu

 

Athugasemd HTÍ: Ofangreind fréttatilkynning HTÍ hefur vakið mikla athygli (sbr t.d. frétt MBL.IS: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/10/01/god_lausn_eda_ologleg_starfssemi/ ) og í ljósi athugasemda frá þeim seljanda sem málið snýst um er rétt að taka fram að HTÍ selur ekki tæki sem eru tífalt dýrari. Verð á 1 heyrnartæki með niðurgreiðslu liggur á bilinu 33þús-145þús. Þá er um að ræða vönduð, stafræn heyrnartæki sem stillt eru sérstaklega fyrir hvern einstakling og mikil þjónusta fylgir.

 

Fimmtudagur 2.október: Enn bætist við umfjöllun um fréttatilkynningu HTÍ um vafasöm gæði heyrnartækja sem boðin eru til kaups. Sjá umfjöllun á vísir.is: http://www.visir.is/varar-heyrnarskerta-vid-odyrum-heyrnartaekjum/article/2014710029931
í athugasemdakerfi við fréttina gætir nokkurs misskilnings varðandi verð tækja. Sjá fyrri athugasemd hér að ofan. Ekki er rétt að bera saman verð á 20-30 ára gamalli tækni og nýjustu stafrænum heyrnartækjum. Þau tæki sem fréttin fjallar um bjóðast t.d. á vinsælli kínverskri netverslun á ca $8,00 (átta dollara eða tæpar 1000 krónur. Ath! útsöluverð til aldraðra á Íslandi tæpar 29000 krónur). Þau tæki eru sögð geta gefið hljóðstyrk í eyra >120dB sem er stórskaðlegur hávaði við viðvarandi notkun.
HTÍ ítrekar viðvörun sína um að heyrnarskertir leiti til fagaðila um fræðslu og umsögn áður en slík tæki eru keypt.

Samband íslenskra sveitarfélaga og Kennarasamband Íslands hafa tekið höndum saman um aðgerðir til að bæta hljóðvist og draga úr hávaða í skólum og vekja athygli á mikilvægi raddverndar og raddbeitingar.

Samböndin hafa nú gefið út fræðsluritið Kennsluumhverfið – hlúum að rödd og hlustun, í samstarfi við Valdísi Jónsdóttur, radd- og talmeinafræðing. Um er að ræða handbók fyrir kennara og stjórnendur í leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarskólum og rekstraraðila þessara stofnana.

Handbókinni er ætlað tvíþætt hlutverk:

  • Að uppfræða kennara, stjórnendur og aðra um rödd, hlustun og umhverfi.
  • Að aðstoða þá sem vilja gera úrbætur á kennsluumhverfinu hvað varðar hljóðvist, hávaða og raddvernd.

Handbok-Kennsluumhverfid

 

Dreifing handbókarinnar er hafin í alla leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarskóla landsins sem og til annarra hagsmunaaðila s.s. rekstraraðila skóla, ýmissa stofnana og samtaka.

Ýmislegt er hægt að gera til að draga úr hávaða með litlum tilkostnaði og hafa samstarfsaðilar tekið saman lista yfir hagnýt ráð sem eru til þess fallin að draga úr hávaða. Á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga er einnig að finna ýmsar hagnýtar upplýsingar um hljóðvist og raddvernd í skólum.

HTÍ fagnar útgáfu fræðsluritsins og hvetur alla til að kynna sér efni þess um leið og við óskum samböndunum til hamingju með nýja ritið.