Fréttir

Þóra Másdóttir birtir niðurstöður rannsókna á CPLOL

cplolFlorenceMay15

 

Dagana 8. og 9.maí s.l. fór fram þing samtaka evrópskra talmeinafræðinga (CPLOL) í Flórens á Ítalíu.
Meðal þátttakenda var Þóra Másdóttir, sviðsstjóri talmeinafræðisviðs Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands. Þóra Másdóttir

Þóra var með veggspjald (poster) á þinginu, þar sem hún birti niðurstöður úr síðustu rannsóknum sínum. Posterinn má skoða hér.

 

CPLOL stendur fyrir: Comité Permanent de Liaison des Orthophonistes-Logopèdes de l’UE. Samtökin standa fyrir margvíslegu samstarfi á alþjóðavísu. Talmeinafræðingar HTÍ hafa verið duglegir að sækja sér þekkingu til samtakanna og margvísleg tengsl skapast sem leitt hafa til markverðra rannsókna og samstarfs á milli landa.
Við hvetjum Þóru til frekari dáða og þykjumst vita að nafn hennar verði áfram áberandi á þingum CPLOL.

 

Úthlutun rannsóknastyrkja úr Sjóði Odds Ólafssonar

 

Þann 30. apríl var úthlutað styrkjum úr Sjóði Odds Ólafssonar til rannsókna á sviði fötlunar og öndunarfærasjúkdóma. Sjóðurinn er nefndur eftir Oddi Ólafssyni frumkvöðli í baráttumálum sjúklinga og öryrkja, fyrsta yfirlæknis Reykjaludnar og fyrsta formanns Öryrkjabandalags Íslands.

Að þessu sinni hlutu fimm vísindamenn og hópar styrki úr sjóðnum:

Monique van Oosten lýðheilsufræðingur hlaut styrk vegna verkefnisins „Hvernig hefur öndun áhrif á einkenni og stjórnun astmasjúkdómsins?“ Björg Þórðardóttir iðjuþjálfi vegna verkefnisins „Heimilisaðstæður fatlaðra og tengsl breytinga á þeim við aukna þátttöku innan heimilis sem utan.“ Gunnar Guðmundsson læknir vegna verkefnisins „Millivefslungnabreytingar í þýði Hjartaverndar.“ Heyrnar- og talmeinastöð Íslands vegna verkefnisins „Staða og áhrif sjón- og heyrnarskerðingar fólks á öldrunarstofnunum á Íslandi – greining á færnimati samkvæmt RAI-gagnagrunni.“ Solveig Sigurðardóttir læknir hlaut styrk vegna verkefnisins „Tíðni og útbreiðsla heilalömunar (CP) meðal 5 ára barna á Íslandi.“

Rannsókn okkar, sem er samvinnuverkefni HTÍ, Fjólu og Heyrnarhjálpar, miðar að því að vinna upplýsingar úr gagnagrunni sem þegar liggur fyrir og nær yfir alla færniþætti aldraðra sem leggjast á stofnanir hérlendis. Skoðaðir verða 2 kaflar sem lúta að sjón og heyrn vistmanna á öldrunar- og hjúkrunarheimilum um land allt. Aðstandendur rannsóknarinnar reikna með að mikilvægar upplýsingar fáist um ástand sjónar og heyrnar þessa stóra hóps en fötlun af völdum sjón-og heyrnarskerðingar er oft stórlega vanmetin.

 

 

SjodurOddsOlafs
Guðríður Ólafs Ólafíudóttir stjórnarmaður í sjóði Odds Ólafssonar, Guðný Katrín Einarsdóttir fulltrúi Fjólu félags um samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, Ellen Calmon formaður ÖBÍ, Gunnar Guðmundsson lungnalæknir, Guðmundur Löve framkvæmdastjóri SÍBS formaður stjórnar Sjóðs Odds Ólafssonar, Kristján Sverrisson forstjóri HTÍ, Björg Kofoed-Hansen og Þórður Jónsson fulltrúar Bjargar Þórðardóttur, Vífill Oddsson stjórnarmaður í sjóði Odds Ólafssonar, Sigurður Jóhannesson fulltrúi Solveigar Sigurðardóttur og Monique van Oosten.

Málhljóðapróf ÞM


Höfundur: Þóra Másdóttir, Ph.D., talmeinafræðingur
Útgáfuár: 2014

 

Heyrnar- og talmeinastöð Íslands gefur út Málhljóðapróf ÞM. Prófinu er ætlað að kanna málhljóðamyndun og framburð barna á aldrinum 2 ½ - 8 ára. Að baki stöðluninni liggja gögn frá 437 börnum. Talmeinafræðingar einir geta lagt prófið fyrir.

Málhljóðapróf ÞM samanstendur af myndabók, skorblöðum, veflægri handbók og ýmsum fylgiskjölum, t.d. athugun á talfærum og skiljanleika tals í samhengi. Ennfremur skjöl sem auðvelda greiningu gagna á skorblaðinu, t.d. SHR greining („myndunarstaður, myndunarháttur og röddun“) og Ólínuleg hljóðkerfisgreining (þ.e. „Nonlinear Phonological Scan Analysis“; höfundar: B. May Bernhardt og Joseph P. Stemberger, 2014).

Í Málhljóðaprófi ÞM eru prófuð 47 stök hljóð, 46 samhljóðaklasar og 12 fjölatkvæða orð. Prófið hefur einnig að geyma svokallaða misræmisathugun en athugun á misræmi vísar til þess hvort börn myndi sama orðið eins ef það er lagt þrisvar sinnum fyrir. Sérhljóð voru ekki athuguð sérstaklega í prófinu, þ.e. orðin voru ekki valin með tilliti til þeirra. Hins vegar er öll sérhljóð íslenskunnar að finna í prófinu, bæði stutt og löng (nema stutt /ö/ og /au/).

Verð: kr. 37.546 (fullt verð) og kr. 31.914 (fyrir talmeinafræðikandídata og nemendur í talmeinafræði)

Nánari upplýsingar veitir Þóra Másdóttir (This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.) eða í síma 581 3855

Liljusjóðurinn

Rannsóknar- og styrktarsjóður Lilju Guðrúnar Hannesdóttur

auglýsir til umsóknar
styrki til rannsóknar vegna eyrnasuðs (tinnitus).

Tilgangur sjóðsins er að styrkja rannsóknir á eyrnasuði. Tilgangur rannsókna skal vera að afla vitneskju um ástæður eyrnasuðs (tinnitus) og meðferðar við því.

Umsóknarfrestur er til 26. apríl 2015.

Úthlutað verður úr sjóðnum 12. maí 2015 en Lilja hefði orðið 89 ára þann 24 maí.

 

Umsóknareyðublöð má nálgast á heimasíðu sjóðsins http://www.liljusjodurinn.is eða hjá undirrituðum.

 

Hannes Petersen prófessor, yfirlæknir háls-, nef- og eyrnadeildar Landspítala; This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Ingibjörg Hinriksdóttir, yfirlæknir Heyrnar- og talmeinastöð Íslands; This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

 

Um Liljusjóðinn:
Lilja Guðrún HannesdóttirLilja Guðrún Hannesdóttir var fædd 24. maí 1926 í Hnífsdal. Hún vann mest allan starfsaldur sinn, um fjörtíu ár, á Landsspítalanum við Hringbraut á ýmsum þjónustudeildum, lengst af sem vaktmaður. Hún lést 12. október 2007 á líknardeild Landsspítalans að Landakoti.

Lilja ánafnaði meiri hluta eigna sinna til stofnunar sjóðs til rannsókna á starfssemi eyrna með sérstöku tilliti til eyrnasuðs (tinnitus), en hún hafði lengi þjáðst af því einkenni. Það var von hennar að árangur á því sviði gæti orðið öðrum sjúklingum til góðs.

 

Heyrnarskerðing er stórlega vanmetin og hunsuð segir ný skýrsla þarlendra heilbrigðisyfirvalda.

Eftir rúm 15 ár eða árið 2031 er talið að um fimmtungur bresku þjóðarinnar hafi greinst með heyrnarskerðingu. Í dag er talið að um 10 milljónir manna í Bretlandi séu með skerta heyrn eða sem svarar til 1 af hverjum 6.
bigbenYfirvöld reikna með að sú tala eigi eftir að rísa og árið 2031 verði hún komin í 14.1 milljón eða 1 af hverjum 5 íbúum landsins.

Þessar sláandi tölur koma úr skýrslu nefndar “The Commission on Hearing Loss” sem vann verkið að beiðni The International Longevity Centre-UK (Alþjóðlegu Langlífismiðstöðvarinnar í Bretlandi).

Skýrslan staðhæfir einnig að þó að 10 milljón Breta séu nú með skerta heyrn þá séu einungis 2 milljónir af þeim 6 milljónum sem gætu haft verulegt gagn af heyrnartækjum með slík tæki og einungis 30% þeirra noti þau reglulega.

Heyrnarskerðing og heyrnarleysi loks í sviðsljósinu

Nefndin telur að heyrnarskerðing hafi allt of lengi verið hunsuð sem heilbrigðisvandamál þó svo að milljónir manna búið við verulega skert lífsgæði vegna fötlunarinnar.
Skýrsla nefndarinnar segir yfirvöld þurfa að leggja mun meiri áherslu á að bregðast við vandanum. Þannig verði yfirvöld að tryggja bæði fyrirbyggjandi aðgerðir og vönduð úrræði til aðstoðar þeim sem greinast með heyrnarskerðingu.

Skýrslu nefndarinnar má nálgast hér: hér

Heimild: www.ilcuk.org.uk

Heyrnarskerðing algengari hjá kennurum en öðrum starfsstéttum.
Fáir þeirra leita þó meðferðar við vandanum.


Starfsumhverfi kennara getur verið mjög hávært og hlustunarskilyrði erfið. Kennarar eru líklegri til að fá skerta heyrn en aðrar starfsstéttir, sýnir ný amerísk rannsókn.
Rannsóknin var framkvæmd af Wakefield Research og sýnir að 15% kennara í Bandaríkjunum eru greindir með heyrnarskerðingu, borið saman við 12% af meðaltali annarra starfsstétta.
kennari

Vandinn er ennþá greinilegri þegar yngri kennarar eru skoðaðir. Hjá kennurum á aldrinum 18-44 ára var tíðni heyrnarskerðingar 26% , en einungis 17% hjá jafnöldrum í öðrum starfsstéttum.


Of fáir kennarar leita sér meðferðar


U.þ.b. helmingur þeirra sem sögðust gruna að þeir væru með skerta heyrn, viðurkenndu að þurfa að biðja viðmælendur um að endurtaka það sem sagt er. Í þriðjungi tilfella segjast þeir misskilja viðmælendur sína. Einn af hverjum fjórum segjast finna fyrir streitu eftir skamma stund þegar þeir þurfa að hlusta eða tala.
Rannsóknin sýnir að 27% kennara sem telja sig heyrnarskerta höfðu ekki leitað sér neinnar hjálpar við vandanum.
60% þátttakenda höfðu áhyggjur af heyrnarskerðingu sinni. Rannsóknin var framkvæmd af Wakefield Research fyrir EPIC Hearing Healthcare.

Gaman væri að sjá hvort að íslenskir kennarar eigi við sama vanda að glíma. Reikna má með að svo sé þó að vitundarvakning hafi orðið á síðustu árum um að draga úr hávaða og hljóðmengun í skólaumhverfinu.


Heimild: www.virtualpressoffice.com

Ekki verður kvartað undan því að starfsfólk Heyrnar-og talmeinastöðvar sé ekki trygglynt og staðfast. Þann 5.febrúar s.l. átti t.d. Herdís Guðbjartsdóttir 30 ára starfsafmæli hjá stöðinni. herdis

Herdís er þúsundþjalasmiður hjá okkur, hún stundar heyrnarmælingar af gríð og erg, tekur mót og smíðar hlustarstykki, sinnir vinnustaðamælingum og alls konar smáviðgerðum og þjónustu. Fáir eru liprari eða þolinmóðari við að mæla iðandi og ódæl börn og lunkin er hún við óþolinmóð gamalmenni. Rólegheitamanneskja sem siglir þó staðfastlega áfram til hagsbóta fyrir stöðina og skjólstæðinga hennar.


Við óskum Herdísi hjartanlega til hamingju með áfangann og þökkum fyrir hennar mikla starf og framlag í öll þessi ár. Jafnframt væntum við áframhaldandi framlags næstu 30 árin !

saudarkrokurHeilbrstofnun

Þann 16.janúar s.l. opnaði Heyrnar-og talmeinastöð Íslands nýja afgreiðslu á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Sauðárkróki.Afgreiðsla HTÍ á Sauðárkróki verður opin annan hvern föstudag fyrst um sinn, á meðan í ljós kemur hver viðbrögð íbúa á NV-landi verða. Mögulegt er að afgreiðsludögum verði fjölgað í framtíðinni ef þörf krefur.

Augljóst var að Skagfirðingar mátu opnunina mikils því að fyrsti viðskiptavinurinn var mættur á staðinn á mínútunni 12:00!

 

Sofia Dalman, heyrnarfræðingur, mun sinna móttökunni en hún er jafnframt starfsmaður HTÍ á Akureyri (en þar er opið 2 daga í viku hverri). Sofia veitir alhliða þjónustu fyrir heyrnarskerta s.s. heyrnarmælingum, ráðgjöf um heyrnartæki og hjálpartæki, minniháttar viðhald og viðgerðir, sölu og afgreiðslu heyrnartækja og ýmissa varahluta og rafhlaðna fyrir heyrnartæki. Þá mun Sofia annast skimun á heyrn nýbura á NV-landi.

sofia2
Sofia Dalman, heyrnarfræðingur HTÍ, var ánægð í nýrri afgreiðslu stöðvarinnar í heilsugæslunni á Sauðárkróki.

 

Fullkomin aðstaða

Á Sauðárkróki er góð aðstaða fyrir Heyrnar-og talmeinastöð Íslands. Tæknimaður HTÍ fór yfir og stillti heyrnarmæli og klefa sem er á staðnum, en að auki var bætt við aðstöðu og tækjabúnað Sofiu á staðnum. Vonumst við til að geta bætt við fleiri þjónustuþáttum með tíð og tíma.

Heyrnar-og talmeinastöð Íslands vonar að íbúar á NV-landi muni nýta sér bætt aðgengi að þjónustu stofnunarinnar.

Bókanir í tíma hjá HTÍ á Sauðárkróki eru mótteknar í síma 581 3855 alla daga vikunnar á milli kl 08:30-15:30. Vinsamlegast takið fram að um afgreiðslu á Sauðárkróki sé að ræða.

 

 

Hér að neðan má sjá myndir frá opnunardeginum. Þór Sigurðsson, tæknimaður HTÍ, mældi og stillti heyrnarmælingarklefa og -mæla. Og viðskiptavinur númer 3 var af yngstu kynslóðinni, nýlega fæddur drengur sem mætti til skimunar á heyrn.

sofiaNyburamaeling2

thorKlefi1

Í október s.l. auglýsti Velferðarráðuneytið eftir umsóknum um styrki til gæðaverkefna á sviði heilbrigðismála. Heyrnar-og talmeinastöð Íslands sendi inn umsókn um verkefni sem lýtur að fjarþjónustu talmeinasviðs við notendur og umönnunaraðila á landsbyggðinni.

Heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, hefur nú tilkynnt um þau verkefni sem hlutu náð fyrir augum dómnefndar og njóta styrkveitingar Gæðastyrkja velferðarráðuneytis 2014.

Verkefni HTÍ er eitt af sex verkefnum sem hljóta gæðastyrki að þessu sinni. Styrkirnir voru afhentir hamingjusömum styrkþegum við athöfn í ráðuneytinu fimmtudaginn 15.janúar. Kristján Sverrisson, forstjóri HTÍ, veitti styrknum viðtöku fyrir hönd stofnunarinnar. Þakkaði hann nafna sínum og ráðuneytinu kærlega fyrir stuðninginn og hafði uppi heitstrengingar um bætta þjónustu talmeinasviðs HTÍ við hinar dreifðari byggðir landsins.

frá afhendingu Gæðastyrkja

Kampakátir styrkþegar ásamt ráðherra.
Kristján Sverrisson, forstjóri HTÍ, er annar frá hægri (og koma eflaust fáir aðrir til greina á myndinni)

 

Verkefnið:

HTÍ vill kanna hvort að fjarþjónusta (telepractice) geti bætt þjónustu við skjólstæðinga sem búsettir eru utan höfuðborgarsvæðisins. Tilraunaverkefni þetta (pilot) felst í að setja upp færanlegan fjarfundabúnað sem notaður verður við upphafsþjálfun barna í forgangshópi varðandi talmein, að undangengnu staðbundnu mati á HTÍ, - allt að 8 vikna (16 skipti) meðferð talmeinafræðings í Reykjavík fyrir barn í heimahúsi eða skóla utan SV-horns.

Í forgangshópi HTÍ varðandi talmein eru t.d. börn með kuðungsígræðslutæki vegna heyrnarleysis, börn með skarð í góm/vör, o.fl.

 

Greining og meðferð í nærumhverfi barna getur verið gjörbylting í þjónustu við þennan skjólstæðingahóp. Sérmenntaðir talmeinafræðingar á áðurnefndu sviði eru fáir og nær enginn utan höfuðborgarsvæðisins. Ef vel tekst til mætti mæla með og fjölfalda verkefnið til leikskóla, skóla og sveitarfélaga sem gætu komið upp slíkum búnaði eða fengið lánaðan og gert samninga við talmeinafræðinga varðandi þjónustu í nærumhverfi barna (og fullorðinna). Mikill kostnaður foreldra og heilbrigðiskerfis gæti lækkað verulega þar sem tæknin verður sífellt ódýrari og fullkomnari.

 

Tilgangur og markmið verkefnis:

Að kanna gagnsemi, framkvæmanleika og hagkvæmni á nærþjónustu í talþjálfun veittri með fjarfundabúnaði. Þjónusta miðlægrar þjónustustofnunar í Reykjavík standi til boða notendum í dreifðari byggðum.

 

Vonast er til að ljúka verkefninu á haustdögum.

 

Heyrnar-og talmeinastöð Íslands þakkar ráðuneytinu kærlega fyrir stuðninginn.

Undanfarin tvö ár hafa nokkrar stofnanir sem sinna heyrnarskertum og heyrnarlausum tekið þátt í verkefninu Menntun og tengsl. Þessar stofnanir eru auk Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Leikskólinn Sólborg, Hlíðaskóli, Þjónustumiðstöð miðborgar og Hlíða og Heyrnarhjálp. Eitt af markmiðum verkefnisins var að styrkja samvinnu stofnananna.

Til þess að halda áfram því góða starfi sem hófst innan verkefnisins ætla þessar stofnanir, ásamt Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins og Félagi heyrnarlausra, að halda sjö sameiginlegar málstofur sem tengjast málefnum heyrnarlausra og heyrnarskertra barna.

            Haldin verður ein málstofa í mánuði. Í hverri málstofu er um 15 mínútna erindi og umræður í um 30 mínútur. Málstofurnar byrja alltaf kl. 14:30 og standa til kl. 15:30. Málstofurnar verða haldnar á Samskiptamiðstöð heyrnarlausra, Grensásvegi 9, 108 Reykjavík. Nánari dagsetning fyrir hverja málstofu og umræðuefni verður auglýst sérstaklega þegar nær dregur.

            Málstofurnar eru öllum opnar og verða ýmist fluttar á íslensku eða íslensku táknmáli. Túlkað verður á milli málanna og auk þess verður í einhverjum tilvikum boðið upp á rittúlkun að auki.

            Allir eru velkomnir og ekki þarf að greiða fyrir þátttöku.

Fyrsta málstofan verður haldin þann 27. janúar kl. 14:30 í umsjá Samskiptamiðstöðvar  heyrnarlausra.
Umræðuefni: Snemmtæk íhlutun fyrir heyrnarlaus og heyrnarskert börn.

Önnur  málstofan verður haldinn þann 17. febrúar kl 14:30 og hefur Heyrnarhjálp umsjón með henni.
Umræðuefni: Ýmsar orsakir heyrnarskerðingar, hvernig skerðingin lýsir sér og hvað er til ráða.

Við hvetjum alla þá sem áhuga hafa á málefnum heyrnarskertra og heyrnarlausra barna að líta við á málstofurnar.