Fréttir

Öll topp tækin í boði hjá Heyrnar-og talmeinastöð Íslands

 

Á hverju ári velur Richard W Andrew, heyrnarfræðingur sem rekur fjölda heyrnarstöðva í Bandaríkjunum, þau heyrnartæki sem honum finnst bera af á markaðnum. Á síðasta ári birtum við niðurstöður hans þar sem heyrnartæki frá Phonak, Widex og Siemens röðuðu sér oftast í efstu sæti allra verð- og gæðaflokka. En HTÍ býður einmitt tæki frá þessum fremstu heyrnartækjaframleiðendum heims.

 

Nú hefur Richard birt niðurstöður sínar fyrir yfirstandandi ár. Val hans birtist í töflunni á mynd hér að neðan:

bestuHeyrnartækin2015

 

Eins og sjá má þá koma tækin frá PHONAK mjög vel út þetta árið og á hæla þeirra fylgir WIDEX með sín tæki. Heyrnar- og talmeinastöð Íslands selur einmitt heyrnartæki frá þessum framleiðendum auk SIEMENS sem lendir einnig ofarlega og munu eflaust rjúka upp listann þar sem þeir hafa nýlega sett á markað nýja kynslóð hátækni-heyrnartækja sem þegar eru komin í sölu hjá okkur (BINAX línan).
Athygli vekur einnig að Unitron tæki lenda mjög ofarlega en það fyrirtæki er einmitt systurfyrirtæki PHONAK. Svisslendingarnir eru því greinilega vinsælir hjá Richard og félögum.
Að sjálfsögðu tökum við enga ábyrgð á þessum samanburði þessa bandaríska heyrnarfræðings en erum stolt af því að geta boðið það sem hann og heyrnarfræðingar hans telja bestu tækin á markaðnum hverju sinni!

Komið og skoðið úrvalið hjá Heyrnar-og talmeinastöðinni og fáið ráðgjöf hjá heyrnarfræðingum okkar.

 

júlí 2015

ID-100307566Langvinnt heyrnartap veldur rýrnun á heilastöðvum

Dr Frank Lin og rannsóknarteymi frá John Hopkins spítalanum og Bandarísku öldrunarstofnuninni (National Institute of Aging) hafa rannsakað samhengið á milli heyrnartaps aldraðra og andlegrar heilsu og heilastarfsemi þeirra. Niðurstöður hópsins benda til þess að heyrnartap flýti hrörnun heilans og geti verið orsakavaldur ýmissa sjúkdóma s.s. Alzheimers, geðsjúkdóma og elliglapa.

Hópurinn notaði gögn úr langtímarannsókn (Baltimore Longitudinal Study of Aging) til að skoða breytingar á heilastarfsemi aldraðra með eðlilega heyrn og samanburðarhóps aldraðra með skerta heyrn. Fyrri rannsóknir hafa áður sýnt fram á tengsl á milli heyrnarskerðingar og breyttrar heilastarfsemi. T.d. virðast svæði heilans sem vinna úr hljóði og heyrnarmerkjum vera minni hjá heyrnarskertum en hjá fullheyrandi einstaklingum. Ekki hafði þó verið sýnt fram á að breytingarnar kæmu til vegna heyrnarskerðingarinnar eða hefður verið til staðar áður en heyrnarskerðing kom til sögunnar.

Rannsóknin                                                     

126 aldraðir einstaklingar, ýmist heyrandi (75) eða heyrnarskertir (51) fóru í heilaskanna og nákvæma heyrnarmælingu árið 1994 og þeim síðan fylgt eftir árlega. Niðurstöður sýna að heyrnarskertu einstaklingarnir sýndu hraðari hörnun heilans (rýrnun heilavefjar) en jafnaldrar með eðlilega heyrn. Þessir einstaklingar sýndu einnig hlutfallslega meiri rýrnun í þeim heilastöðvum sem vinna úr hljóðum og tali.
Dr Lin segir þetta valda áhyggjum þar sem þessi heilasvæði sinni ekki eingöngu heyrn heldur séu einnig mikilvægar starfsstöðvar þegar kemur að minni og skynjun. Þessi svæði heilans komi þannig við sögu í elliglöpum og hjá Alzheimer sjúklingum.

Mikilvægt að meðhöndla heyrnarskerðingu

Rannsakendur leggja áherslu á mikilvægi þess að láta ekki heyrnarskerðingu ómeðhöndlaða. „Við viljum að gripið sé til meferðar á heyrnarskerðingu sem fyrst í ferlinu.“ segir dr Lin, „Ef heyrnarskerðing veldur þessum neikvæðu áhrifum, sem við sjáum á heilaskanna, þá viljum við meðhöndla heyrn einstaklinganna áður en þessar óafturkræfu breytingar á heilanum eiga sér stað.“

Meira en helmingur fólks 75 ára og eldra er með skerta heyrn og með auknu langlífi verður heyrnarskerðing og heyrnartap sífellt stærra vandamál. Afar mikilvægt er að auka lífsgæði þessa hóps með því að meðhöndla heyrnarskerðinguna um leið og hún greinist. Í ljósi rannsóknar dr Lin og félaga er enn brýnni nauðsyn á að tryggja að allir eldri borgarar geti fengið nauðsynlega meðhöndlun á heyrn sinni. Heyrnartæki verða og eiga að vera aðgengileg og innan kaupgetu eldri borgara.

Hvernig hjálpa heyrnartæki?

Næstu skref í rannsókn dr Lin er að kanna hvort að reglulega notkun heyrnartækja og snemmtæk íhlutun í heyrnarskerðingu fullorðinna geti breytt einhverju um þróun elliglapa. Aðspurður að gagnsemi heyrnartækja svarar dr Lin: „Við vitum því miður ekki enn hvort að kjörmeðferð við heyrnarskerðingu með góðum heyrnartækjum og reglulegu eftirliti geti afstýrt þessum breytingum sem við sáum. Það krefst mun stærri rannsóknar og yfir lengri tíma. Við vonumst þó til að næstu rannsóknir okkar geti svarað þessari spurningu.“
Heyrnartæki, ef rétt notuð og stillt eftir heyrn viðkomandi getur auðveldað fólki hljóðvinnslu og talgreiningu. Því er rökrétt að álykta að bætt heyrn með hjálp heyrnartækja gæti dregið úr líkum á þeim breytingum á heila sem rannsóknir dr Lin og félaga sýndu. Vonandi tekst að sýna fram á það í framtíðinni.

Heimildir:
www.asha.org
www.hopkinsmedicine.org

júlí 2015

 

Heyrnarskerðing byrjar oft að láta kræla á sér uppúr fertugsaldrinum þó að heyrnarmælingar sýni aðeins lítilsháttar eða engar breytingar. Hvernig lýsir það sér og hvað er til ráða?

Til okkar hjá Heyrnar-og talmeinastöð koma oft einstaklingar á besta aldri, fólk milli fertugs og fimmtugs, sem kvartar undan lakari heyrn við vissar kringumstæður, s.s. í fjölmenni, á veitingastöðum o.s.frv. Sumir segjast jafnvel vera farnir að forðast slíkar kringumstæður vegna þess hve illa gengur að heyra í viðmælendum.

Hljómar þetta kunnuglega? Það sérkennilega er þó að þegar við framkvæmum heyrnarfræðilegar mælingar á þessum einstaklingum sýna þau nánast eðlilega heyrn og fullkomna talgreiningu í kyrrlátu umhverfi. Hvernig stendur þá á því að talskilningur er þeim svo erfiður í skvaldri og umhverfishljóðum?mottaka hlustunarskilyrdi

Nýlegar rannsóknir gefa til kynna að vandinn liggi í úrvinnslu hljóðsins í heilanum sjálfum. Heyrnarstöðvar þær sem sjá um úrvinnslu hljóðs eru hreinlega byrjaðar að „gefa sig“ eilítið strax um fertugsaldurinn. Við heyrum í raun ekki eins um fimmtugt eins og við heyrðum um tvítugt. Breytingar í heilastofninum eru taldar valda þessari hægu veikingu á færni heilans til að túlka og greina hljóð. Þá hafa rannsóknir einnig sýnt fram á aldurstengdar breytingar í hugsanafærni (cognitive processing) hjá miðaldra einstaklingum.

Dæmigerð hrörnun

Hæfileikanum til að fylgja hröðum breytingum í tali, tónlist og öðrum hljóðum fer hrakandi með aldri. Þessi þróun hefst um fertugt og versnar síðan, oft mjög hratt, með hækkandi aldri. Þessi færni er meira að segja ekki endilega tengd heyrn einstaklingsins. Skerðing á þessari færni virðist jafnframt tengjast meira við tal-áreiti og úrvinnslu talhljóða heldur en einfaldari hljóða.
Við hættum smátt og smátt að greina tal-hrynjanda og áherslur. Með versnandi heyrn hverfa síðan einstök talhljóð (t.d. við hátíðni-heyrnartap hverfa s-hljóð ).

Versnandi færni til talgreiningar hefur tvímælalaust neikvæð áhrif á samtalsfærni okkar og tjáskipti, einkum við krefjandi aðstæður. Afleiðingin er síðan versnandi lífsgæði.

Truflandi hljóð

Til að geta tekið þátt í samræðum við einn eða fleiri viðmælendur, þurfum við að geta greint á milli hljóða sem berast til eyrna okkar og síðan einbeitt okkur að þeim hljóðum sem skipta máli. Það er þessi hæfileiki til aðgreiningar og einbeitingar (auditory stream segregation) sem fer versnandi, jafnvel þótt að heyrnin sé góð. Ekki er fullvitað hvað veldur þessu en þó talið að breytingar verði á heyrnarsviði, í heyrnarstöðvum heilans, færni heilans til greiningar og úrvinnslu, minnisbreytingar, athyglisfærni og minnkandi færni til að vinna úr hröðum upplýsingum s.s. hljóðum.

Bakgrunns-hljóð eru til mikilla vandræða þar sem þau trufla verkefni „vinnsluminnis“ heilans. Heilinn meðtekur orð, geymir þau og ber saman við orðin sem komu á undan og orð í minni. Skraf og talhljóð í næsta nágrenni virðist trufla þetta vinnsluferli í minnisstöðvum heilans þegar líður á ævina.

Hvað er til ráða?

Fyrir fólk með þokkalega eðlilega heyrn er mikilvægt að auðvelda aðstæður til hlustunar og samræðna. Reynið að færa ykkur frá mesta umhverfishávaða, standið andspænis viðmælanda og horfið á andlit hans til að hjálpa ykkur að einbeita ykkur að tali hans.
Fyrir þá sem þegar mælast með einhverja heyrnarskerðingu geta heyrnartæki verulega bætt hlustunarskilyrði og talgreiningu. Nýjustu tækin gera notendum kleift að „stefnumiða“ hlustunina í erfiðum hlustunarskilyrðum.
Leitið ráða hjá heyrnarfræðingum okkar ef þið teljið ykkur eiga við versnandi tjáskiptafærni vegna heyrnar eða talgreiningar við slæm hlustunarskilyrði.

júní 2015

 

12.júní s.l. var fólki bent á að fagna fjölbreytileika mannlífsins með ýmsu móti. Starfsfólk HTÍ lét ekki sitt eftir liggja og ákváðu að mæta í ósamstæðum sokkum og helst sem skrautlegustum. Eins og sést á meðfylgjandi myndum var útkoman hin líflegasta og vakti kátínu bæði samstarfsfólks og viðskiptavina.

sokkar2

 

Fjölbreytileikinn er fallegur ! Fögnum því hve ólik við erum og hræðumst það ekki!

Færsla Heyrnarhjálpar á Fésbókinni hefur vakið athygli og við viljum endilega deila þessu með landanum.
Við skorum á heyrnarskerta að leggja Heyrnarhjálp lið við söfnun upplýsinganna sem þau leita eftir.

Heyrnarhjalp Beidni

Rannsókn Stefáns mai2015

 

Stefan C Hardonk, nýdoktor við Háskóla Íslands, auglýsir eftir þátttakendum í nýrri rannsókn sem hann stendur fyrir. Hann vonast til að rannsóknin varpi ljósi á hvernig heyrnarskert og/eða heyrnarlaus börn og unglingar líta á félagslega þátttöku sína og hlutverk heyrnarskerðingarinnar í mótun sjálfsmyndar og félagsþátttöku.

 

Leitað er að einstaklingum fæddum á árabilinu 1997-2007 (bæði árin meðtalin) sem greinst hafa með heyrnarskerðingu >40dB á betra eyra.

Heyrnar-og talmeinastöð Íslands mun aðstoða Stefan og rannsóknarhópinn og senda boð til fjölskyldna þeirra barna sem eru á skrá stöðvarinnar og uppfylla skilyrði um þátttöku. Engum persónu-upplýsingum er þó komið á framfæri við rannsakendur og það er á valdi þeirra sem meðtaka boð um þátttöku að hafa sjálfir samband við aðstandendur rannsóknarinnar.

 

Við vonum að þeir sem móttaka boð um þátttöku kynni sér málið gaumgæfilega og taki upplýsta ákvörðun um samþykki eða höfnun á boðinu.

Þóra Másdóttir birtir niðurstöður rannsókna á CPLOL

cplolFlorenceMay15

 

Dagana 8. og 9.maí s.l. fór fram þing samtaka evrópskra talmeinafræðinga (CPLOL) í Flórens á Ítalíu.
Meðal þátttakenda var Þóra Másdóttir, sviðsstjóri talmeinafræðisviðs Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands. Þóra Másdóttir

Þóra var með veggspjald (poster) á þinginu, þar sem hún birti niðurstöður úr síðustu rannsóknum sínum. Posterinn má skoða hér.

 

CPLOL stendur fyrir: Comité Permanent de Liaison des Orthophonistes-Logopèdes de l’UE. Samtökin standa fyrir margvíslegu samstarfi á alþjóðavísu. Talmeinafræðingar HTÍ hafa verið duglegir að sækja sér þekkingu til samtakanna og margvísleg tengsl skapast sem leitt hafa til markverðra rannsókna og samstarfs á milli landa.
Við hvetjum Þóru til frekari dáða og þykjumst vita að nafn hennar verði áfram áberandi á þingum CPLOL.

 

Úthlutun rannsóknastyrkja úr Sjóði Odds Ólafssonar

 

Þann 30. apríl var úthlutað styrkjum úr Sjóði Odds Ólafssonar til rannsókna á sviði fötlunar og öndunarfærasjúkdóma. Sjóðurinn er nefndur eftir Oddi Ólafssyni frumkvöðli í baráttumálum sjúklinga og öryrkja, fyrsta yfirlæknis Reykjaludnar og fyrsta formanns Öryrkjabandalags Íslands.

Að þessu sinni hlutu fimm vísindamenn og hópar styrki úr sjóðnum:

Monique van Oosten lýðheilsufræðingur hlaut styrk vegna verkefnisins „Hvernig hefur öndun áhrif á einkenni og stjórnun astmasjúkdómsins?“ Björg Þórðardóttir iðjuþjálfi vegna verkefnisins „Heimilisaðstæður fatlaðra og tengsl breytinga á þeim við aukna þátttöku innan heimilis sem utan.“ Gunnar Guðmundsson læknir vegna verkefnisins „Millivefslungnabreytingar í þýði Hjartaverndar.“ Heyrnar- og talmeinastöð Íslands vegna verkefnisins „Staða og áhrif sjón- og heyrnarskerðingar fólks á öldrunarstofnunum á Íslandi – greining á færnimati samkvæmt RAI-gagnagrunni.“ Solveig Sigurðardóttir læknir hlaut styrk vegna verkefnisins „Tíðni og útbreiðsla heilalömunar (CP) meðal 5 ára barna á Íslandi.“

Rannsókn okkar, sem er samvinnuverkefni HTÍ, Fjólu og Heyrnarhjálpar, miðar að því að vinna upplýsingar úr gagnagrunni sem þegar liggur fyrir og nær yfir alla færniþætti aldraðra sem leggjast á stofnanir hérlendis. Skoðaðir verða 2 kaflar sem lúta að sjón og heyrn vistmanna á öldrunar- og hjúkrunarheimilum um land allt. Aðstandendur rannsóknarinnar reikna með að mikilvægar upplýsingar fáist um ástand sjónar og heyrnar þessa stóra hóps en fötlun af völdum sjón-og heyrnarskerðingar er oft stórlega vanmetin.

 

 

SjodurOddsOlafs
Guðríður Ólafs Ólafíudóttir stjórnarmaður í sjóði Odds Ólafssonar, Guðný Katrín Einarsdóttir fulltrúi Fjólu félags um samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, Ellen Calmon formaður ÖBÍ, Gunnar Guðmundsson lungnalæknir, Guðmundur Löve framkvæmdastjóri SÍBS formaður stjórnar Sjóðs Odds Ólafssonar, Kristján Sverrisson forstjóri HTÍ, Björg Kofoed-Hansen og Þórður Jónsson fulltrúar Bjargar Þórðardóttur, Vífill Oddsson stjórnarmaður í sjóði Odds Ólafssonar, Sigurður Jóhannesson fulltrúi Solveigar Sigurðardóttur og Monique van Oosten.

Málhljóðapróf ÞM


Höfundur: Þóra Másdóttir, Ph.D., talmeinafræðingur
Útgáfuár: 2014

 

Heyrnar- og talmeinastöð Íslands gefur út Málhljóðapróf ÞM. Prófinu er ætlað að kanna málhljóðamyndun og framburð barna á aldrinum 2 ½ - 8 ára. Að baki stöðluninni liggja gögn frá 437 börnum. Talmeinafræðingar einir geta lagt prófið fyrir.

Málhljóðapróf ÞM samanstendur af myndabók, skorblöðum, veflægri handbók og ýmsum fylgiskjölum, t.d. athugun á talfærum og skiljanleika tals í samhengi. Ennfremur skjöl sem auðvelda greiningu gagna á skorblaðinu, t.d. SHR greining („myndunarstaður, myndunarháttur og röddun“) og Ólínuleg hljóðkerfisgreining (þ.e. „Nonlinear Phonological Scan Analysis“; höfundar: B. May Bernhardt og Joseph P. Stemberger, 2014).

Í Málhljóðaprófi ÞM eru prófuð 47 stök hljóð, 46 samhljóðaklasar og 12 fjölatkvæða orð. Prófið hefur einnig að geyma svokallaða misræmisathugun en athugun á misræmi vísar til þess hvort börn myndi sama orðið eins ef það er lagt þrisvar sinnum fyrir. Sérhljóð voru ekki athuguð sérstaklega í prófinu, þ.e. orðin voru ekki valin með tilliti til þeirra. Hins vegar er öll sérhljóð íslenskunnar að finna í prófinu, bæði stutt og löng (nema stutt /ö/ og /au/).

Verð: kr. 37.546 (fullt verð) og kr. 31.914 (fyrir talmeinafræðikandídata og nemendur í talmeinafræði)

Nánari upplýsingar veitir Þóra Másdóttir (This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.) eða í síma 581 3855

Liljusjóðurinn

Rannsóknar- og styrktarsjóður Lilju Guðrúnar Hannesdóttur

auglýsir til umsóknar
styrki til rannsóknar vegna eyrnasuðs (tinnitus).

Tilgangur sjóðsins er að styrkja rannsóknir á eyrnasuði. Tilgangur rannsókna skal vera að afla vitneskju um ástæður eyrnasuðs (tinnitus) og meðferðar við því.

Umsóknarfrestur er til 26. apríl 2015.

Úthlutað verður úr sjóðnum 12. maí 2015 en Lilja hefði orðið 89 ára þann 24 maí.

 

Umsóknareyðublöð má nálgast á heimasíðu sjóðsins http://www.liljusjodurinn.is eða hjá undirrituðum.

 

Hannes Petersen prófessor, yfirlæknir háls-, nef- og eyrnadeildar Landspítala; This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Ingibjörg Hinriksdóttir, yfirlæknir Heyrnar- og talmeinastöð Íslands; This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

 

Um Liljusjóðinn:
Lilja Guðrún HannesdóttirLilja Guðrún Hannesdóttir var fædd 24. maí 1926 í Hnífsdal. Hún vann mest allan starfsaldur sinn, um fjörtíu ár, á Landsspítalanum við Hringbraut á ýmsum þjónustudeildum, lengst af sem vaktmaður. Hún lést 12. október 2007 á líknardeild Landsspítalans að Landakoti.

Lilja ánafnaði meiri hluta eigna sinna til stofnunar sjóðs til rannsókna á starfssemi eyrna með sérstöku tilliti til eyrnasuðs (tinnitus), en hún hafði lengi þjáðst af því einkenni. Það var von hennar að árangur á því sviði gæti orðið öðrum sjúklingum til góðs.