Fréttir

hearing dog1

Hundar eru til margra hluta nytsamlegir auk þess sem þeir eru með bestu félögum sem hægt er að hugsa sér.

Heyrnarskertir og heyrnarlausir einstaklingar geta auðveldlega nýtt sér slíka förunauta og víða erlendis eru hundar sérstaklega þjálfaðir til að aðstoða heyrnarlausa. Á Englandi eru nú tæplega 1000 slíkir hundar í notkun.

Á hlekknum hér:  http://www.hearingdogs.org.uk/helping-deaf-people/ má fræðast um nokkra slíka, sérþjálfaða hunda, sem létta eigendum sínum lífið.

Þeir læra að þekkja hljóð og aðstæður og bregðast þá við s.s. að vekja eigandann þegar vekjaraklukka hringir, láta vita ef dyrabjalla hringir eða þegar sýður í potti og svo mætti lengi telja.

Gaman væri að heyra sögur af íslenskum, heyrnarskertum hundaeigendum sem geta nýtt hundinn sem "heyrandi hund".

Í tilefni af Degi íslenskrar tungu, sem haldinn er hátíðlegur þann 16.nóvember ár hvert, ákváðu talmeinafræðingar HTÍ að stofna til lestrarátaks meðal foreldra barna sem sækja þjónustu til HTÍ. Nýtt lestrarhorn fyrir börn var vígt á biðstofu stöðvarinnar á Degi íslenskrar tungu og fyrsti viðskiptavinurinn var hún Klara sem sést á meðfylgjandi myndum. Þessi 3ja ára stelpa er þegar farin að þekkja stafina og áhugasöm um bækur og lestur.

Foreldrar hvattir til að lesa fyrir börn sín

Því miður sjáum við of marga foreldra niðursokkna í farsíma og spjaldtölvur sínar á meðan börnin leika sér eða bíða eftir að fanga athygli foreldranna. Hrafnhildur Halldórsdóttir, talmeinafræðingur hjá HTÍ, kynnti foreldrum nokkrar einfaldar leiðbeiningar um hvernig foreldrar geta lesið fyrir börn og með ungum börnum sínum.
klara1

Þær leiðbeiningar má sjá hér:

Greinarhöfundur á margar góðar minningar frá lestri fyrir börnin, sögur fyrir svefninn og síðar að láta börnin lesa fyrir pabba og mömmu. Lestur stuðlar að málþroska barna og lesfærni og góður lessskilningur er nauðsynlegur undirbúningur náms þegar börnin komast á skólaaldur.


Pabbar og mömmur, afar og ömmur, takið ykkur tíma með börnum og LESIÐ ! Þið fáið það margfalt til baka !

Hybrid kuðungs-ígræðslutæki gagnast fólki með alvarlegt hátíðnitap

Kuðungsígræðslutæki hafa um árabil verið grædd í fólk sem misst hefur heyrnina alveg. Nú er verið að prófa ný „Hybrid“ ígræðslutæki sem sameina virkni venjulegra heyrnartækja og ígræddra tækja. Þessi nýja tækni er hugsuð fyrir fólk með alvarlegt heyrnartap á hátíðnisviði en sem hafa enn heyrn á lægri tíðnissviðum. Nýleg rannsókn vísindamanna við New York University Langone Medical Center sýnir góðan árangur.

Hybrid Cochlear Implants

Nýju Hybrid ígræðslutækin eru aðeins notuð á annað eyrað og gera kleift að vernda þær heyrnarleyfar sem viðkomandi sjúklingur er með, einkum á lægri tíðnissviðum. Rafskautin sem þrædd eru í kuðung innra eyrans eru mun styttri en við venjulegar kuðungsígræðslur og ná styttra inn í kuðunginn. Rafskautin örva þannig aðeins hárfrumur á því svæði kuðungs sem ræður heyrn á hárri tíðni.
Síðan má einnig nota tækið sem venjulegt heyrnartæki sem sendir önnur hljóð um hlustina til eyrans. Eyrað nemur þá hljóð á lægra tíðnissviði á eðlilegan máta sem fyrr.

Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar sýna góðan árangur slíks búnaðar einkum hjá fólki með alvarlega skerðingu heyrnar á hátíðnisviði.

Rannsóknin, sem birtist í tímaritinu The Laryngoscope, rannsakaði 50 sjálfboðaliða á aldrinum 23-86 ára (meðalaldur: 64) sem komu frá 10 mismunandi heyrnarstöðvum í Bandaríkjunum. Þessi nýja tækni var grædd í annað eyra þátttakenda. Sjúklingarnir voru með alvarlega hátíðni-heyrnarskerðingu sem ekki er hægt að meðhöndla með venjulegum heyrnartækjum. Slík heyrnarskerðing gerir talgreiningu fólks afar erfiða. Sjúklingarnir höfðu hins vegar nægilega mikla heyrn á lægri tíðnissviðum svo að venjuleg kuðungsígræðsla var ekki álitinn raunhæfur kostur. Slík ígræðsla sviptir ígræðsluþega þeirri náttúrulegu heyrn sem þeir hafa. Því er þessi nýja tækni til komin.

Heyrn þátttakenda var mæld reglulega yfir nokkurra mánaða tímabil. 45 af 50 þátttakendum sýndu verulegar framfarir í heyrn og talskilningi. Enginn þátttakenda sýndi versnun í þessum mæliþáttum.

Hátíðnitap á heyrn er mjög algeng tegund heyrnartaps og veldur fólki oft verulegum vandræðum í að greina og skilja talað mál. Eins og gefur að skilja getur það hamlað fólki stórkostlega við leik og störf. Þessi nýja hybrid tækni gæti hjálpað í alvarlegri tilfellum.

Heimild: The ASHA Leader, November 2015, Vol. 20, 12. doi:10.1044/leader.RIB2.20112015.12

Okkur hefur borist nýr og góður liðsauki í afgreiðslu okkar í höfuðstöðvunum í Reykjavík.

Hallfríður Karlsdóttir hefur gengið til liðs við Kolbrúnu og tekur á móti skjólstæðingum okkar af stakri þjónustulund.

Við bjóðum Hallfríði velkomna til starfa og hún hlakkar til að hitta alla okkar reglulegu viðskiptavini sem og nýja !

hallfridur

Föst niðurgreiðsla hækkar í 50 þúsund krónur á hvert tæki!

Þann 29.október s.l. gekk í gildi ný reglugerð um greiðsluþáttöku ríkisins í kostnaði við heyrnartækjakaup. Föst niðurgreiðsla hafði staðið í stað allt frá árinu 2006 og nam 30.800,- krónum á hvert heyrnartæki. Hver notandi á rétt á að njóta niðurgreiðslu á 4 ára fresti.

Nú  hefur Kristján Þór Júlíusson brugðist við óskum HTÍ og samtaka aldraðra og heyrnarskertra og hækkað greiðsluþátttökuna verulega eða upp í 50 þúsund krónur á hvert eyra. Þetta eru mjög góðar fréttir fyrir heyrnarskerta á Íslandi og einkum eldri borgara sem hafa margir hverjir kvartað undan kostnaði við að eignast ný heyrnartæki.

 

Heyrnartæki á viðráðanlegu verði

Ný heyrnartæki eru á mjög mismunandi verði og ræðst verð af því hversu fullkomin og flókin tæknibúnaður þeirra er. Segja má að allir framleiðendur framleiði 3-4 gæðaflokka tækja og verð skiptast þá einnig í 3-4 verðflokka. Sumum duga einföld og ódýr tæki en aðrir þurfa oft flóknari og dýrari lausnir.

Mikilvægt er að skoða vel það úrval sem býðst á markaðnum og láta sérfræðinga kynna sér tæki vel og þá kosti sem þau bjóða, auk hjálparbúnaðar sem býðst.

Heyrnar-og talmeinastöð Íslands býður tæki frá 3 af fremstu heyrnartækjaframleiðendum heims: Widex, Phonak og Siemens. Hágæðatæki og ávallt í fremstu röð er kemur að nýjungum og gæðum.

Verð tækja hjá HTÍ eru á breiðu verðbili en eftir hækkun greiðsluþátttöku er hægt að segja að kostnaður kaupenda geti verið á bilinu 30-150 þúsund krónur fyrir hvert heyrnartæki.

 

Við bjóðum fólk velkomið að koma og fá upplýsingar um úrval tækja, kosti og verð.

 

Sjá nánar frétt Velferðarráðuneytis um nýja reglugerð um greiðsluþátttöku í heyrnartækjum: http://www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/nr/35299

Vegna áætlaðs verkfalls SFR má reikna með röskun á starfsemi HTÍ sem hér segir:

Opinn tími (08:15-09:00) fellur niður fimmtudaginn 15.október n.k.

Almenn afgreiðsla og símsvörun verður í lágmarki verkfallsdagana. Hægt er að koma skilaboðum til stofnunarinnar í gegnum tölvupóst This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Einhver röskun verður á annarri faglegri þjónustu. Viðskiptavinum er bent á að fylgjast með fréttum og hafa samband við HTÍ til að kanna hvort að tímar falli niður.

 

Daglegar fréttir af starfsemi okkar!

Nú hefur Heyrnar-og talmeinastöð Íslands opnað eigin Facebook-síðu þar sem við munum reyna að koma á framfæri ýmsum upplýsingum um starfsemi okkar og auglýsa uppákomur, fundi og námskeið. Við vonum að fólk "líki við" og deili síðunni sem víðast. Þá viljum við gjarnan heyra  frá heyrnarskertum og notendum heyrnartækja sem og þeim sem kljást við einhver tal-og raddmein. Ykkar hugmyndir og athugasemdir geta hjálpað okkur að bæta þjónustuna

facebooksidaHTI

 

 

Ferð um landið - Ferðatilhögun auglýs hér !

 

Í síðustu viku var kynnt nýja þjónustubifreið HTÍ og nú hefur hún lagt í ferðalag um landið. Bíllinn heimsótti Þorlákshöfn sem fyrsta viðkomustað föstudaginn 4.september og síðan þéttist dagskráin á næstu vikum.

Föstudaginn 18.september verður nýja heyrnarstöðin á HÚSAVÍK (staðsetning við Heilbrigðisstofnunina) frá kl 13-17

Mánudaginn 21.september: EGILSSTAÐIR frá kl 12-17
Þriðjudaginn 22.sept: Neskaupstaður 9-12
Reyðarfjörður kl 14-17

 

Næstu viðkomustaðir verða auglýstir innan fárra daga.

Heyrnarstöð á hjólum !

Þjónusta Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands (HTÍ) öðlaðist nýja vídd í dag

 

 þegar tekin var í notkun þjónustubifreið stofnunarinnar sem innréttuð er með klefa til heyrnarmælinga og tengdum búnaði. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra fékk fyrstur manna að prófa þessa þjónustu en markmiðið er að bæta þjónustu við fólk á landsbyggðinni.

Heyrnar- og talmeinastöðin er með starfsstöðvar í Reykjavík, á Akureyri og Sauðárkróki. Með þjónustubílnum verður hægt að aka hvert á land sem er og veita fólki þjónustu í heimabyggð. Starfsfólk HTÍ leggur land undir fót á næstunni og heimsækir fyrst þéttbýlisstaði á Suðurlandi en þegar meiri reynsla er komin á bílinn og þjónustuna verður farið víðar um landið. Þjónustubíllinn gefur aukna möguleika til skimunar á heyrn ungabarna og hefur því forvarnargildi. Eins er horft til þess að á dvalar- og hjúkrunarheimilum um allt land er fólk sem mun njóta góðs af þessari þjónustu, en það á einnig við um aðra sem telja ástæðu til að láta athuga hjá sér heyrnina.

Fólk með námsörðugleika er líklegra til að vera heyrnarskert heldur en almennt gerist – En það er sjaldgæft að heyrnarskerðingin sé greind tímanlega.

Allt að 40% Breta með námsörðugleika eiga við heyrnarskerðingu að stríða en aðeins fáir þeirra fá viðeigandi hjálp eða úrræði. Þetta sýnir nýleg rannsókn í British Journal of Healthcare Assistants.

Rannsóknin skoðaði einkum hvaða hindranir eru í vegi fólks með námsörðugleika og hvort unnið sé úr þeim. Einn af þeim þáttum sem þetta fólk gerir sér jafnvel ekki grein fyrir sjálft er heyrnarskerðing.

difficult problem

Aðrir þættir fá meiri athygli

Heyrnarskerðing er oft aðeins einn af mörgum þáttum sem spila inn í námsörðugleikana og þeir sem annast einstaklinginn horfa oft meira á aðra þætti og heyrnarskerðingin uppgötvast oft ekki sem mikilvægur samspilandi þáttur.

Rannsakendur segja að heilbrigðisstarfsfólk treysti um of á að starfsfólk skóla og frumheilsugæslu greini heyrnarskerðinguna en að því miður sé ekki nægileg þekking til staðar til að greina heyrnarskerðingu á þessum stigum.

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að með bættri greiningu heyrnarskerðingar og með viðeigandi meðferð með heyrnartækjum og hjálparbúnaði megi sjá marktækan mun á lífsgæðum og námsframmistöðu þessa hóps.

Heimild: www.news-medical.net           

ágúst 2015

Influence of consonant frequency on Icelandic-speaking children's speech acquisition

Nýlega var birt vísindagrein eftir Þóru Másdóttur, sviðsstjóra talmeinafræðideildar HTÍ í hinu virta tímariti International Journal of Speech-Language Pathology.

Í greininni birtist hluti niðurstaðna úr doktorsrannsókn Þóru um hljóðþróun íslenskra barna og málhljóðaröskun. Niðurstöðurnar greina m.a. frá því að í flestum tilfellum er hljóðþróun barna samhljóða, sama hvert tungumálið er. Samhljóðun er meiri eftir því sem hljóðkerfi tungumálanna eru líkari eða skyldari. Í íslensku má finna málhljóð og hljóðkerfisreglur sem eru mjög frábrugðnar öðrum málum. Í greininni er þessum hljóðum og reglum gerð nokkur skil. Þóra Másdóttir

Vinsamlega hafið samband við Þóru (This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. ) ef áhugi er á að fá eintak af greininni.

Netútgáfa fyrir áskrifendur tímaritsins aðgengileg 29. júlí 2015.

Höfundar: Þóra Másdóttir (Thóra Másdóttir), Heyrnar- og talmeinastöð Íslands og Stephanie F. Stokes, University of Canterbury, Nýja Sjálandi

abstractThoraMas

       

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

ágúst 2015