Fréttir

Aðsend grein - Höfundur: Ingibjörg Dóra Bjarnadóttir

rittúlkunAðgengi fyrir alla

Rittúlkun nýtist stórum hópi fólks, öllum þeim sem eru heyrnarskertir, heyrnarlausir og einstaklingum sem eru að ná tökum á íslensku. Rittúlkun hjálpar einnig þeim sem lamaðir eru.

Margir spyrja sig, Hvað er rittúlkun? Rittúlkun fer þannig fram að rittúlkurinn situr við hlið notanda þess og ritar allt sem fram fer og er sagt. Notandinn les upplýsingar jafnóðum og er alltaf meðvitaður um það sem rætt er.
Skortur er á fjármagni frá hinu opinbera sem orsakar það að rittúlkun er ekki algeng. Einstaklingur sem notar rittúlk þarf að greiða sjálfur úr eigin vasa á meðan heyrnarlausir sem nota táknmál fá þjónustuna fría. Ég vil taka fram að það vantar einnig fjármagn í fleiri táknmálstúlka. Mikið mannréttindarbrot á ferð.
Heyrnarhjálp vill hefja rittúlkun til sömu virðingar og táknmálstúlkun nýtur. Einstaklingur sem er heyrnarskertur fær enga þjónustu en einstaklingur sem er heyrnarlaus fær mun betri þjónustu. Þetta er mikil mismunun. Rittúlkun bætir lifsgæði einstaklinga sem þurfa að styðja sig við rittúlkun.

Heyrnarskertir eiga að fá rittúlk sér að kostnaðarlausu. Erfitt er að heyra lítið eða ekkert af því sem fram fer í umhverfinu. Heyrnarskertur nemandi í skóla getur ekki fengið rittúlk nema borga úr eigin vasa á meðan táknmálstúlkun er að kostnaðarlausu. Heyrnarskertur einstaklingur þarf að leita sjálfur að rittúlki, en þeir sem eru með táknmál og nota táknmálstúlk er nóg að hafa samband við Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskerta (SHH) og fá þjónustuna gjaldfrjálsa. Ingibjorg Dora Bjarnadottir

Texta á allt sjónvarpsefni í íslensku sjónvarpi á öllum stöðvum. Lítið mál er að setja texta við sjónvarpsefni. Oft kemur fyrir að heyrnarskertir og heyrnarlausir hlakka til að sjá sjónvarpsþátt, en þegar sest er niður fyrir framan sjónvarpið kemur í ljós að sjónvarpsefnið er ekki textað. Sjónvarp án textunar,verður til þess að ákveðinn minnihlutahópur missir af sjónvarpsefninu. Oft hefur verið umræða á alþingi um að texta allt sjónvarpsefni.

Er ekki kominn tími til að klára þá vinnu og búa til aðgengi fyrir alla landsmenn?

 

Höfundurinn hefur verið heyrnarskert frá fæðingu og vill berjast fyrir bættu aðgengi heyrnarskertra.

blodleysi jarnskortur

 Ný rannsókn sýnir tengsl heyrnarskerðingar og járnskorts í blóði (iron deficiency anemia)

Fólk með blóðleysi (skort á járni í blóði) er meira en tvöfalt líklegra til að vera með skerta heyrn en þeir sem ekki þjást af járnskorti. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar sem framkvæmd var af Pennsylvania State University College of Medicine í Bandaríkjunum.

Þegar rannsakendur skoðuðu mismunandi tegundir heyrnarskerðingar kom í ljós að þeir sem hafa járnskort í blóði eru með 82% auknar líkur á s.k. skyntauga-heyrnartapi (sensorineural) miðað við fólk sem ekki er með járnskort í blóði. Þá jukust líkur á samsettri heyrnarskerðingu (skyntauga- og leiðnitapi) um 240% í samanburði við fólk án járnskorts í blóði.

 

 

Hvernig stendur á þessu ?

Höfundar ítreka að niðurstöður sýni einungis sterk tengsl á milli heyrnarskerðingar og þessa sjúkdóms. Rannsóknin sanni ekkert hvort að annað valdi hinu á einhvern hátt.

Dr Peter Steyger við heyrnarrannsóknarstofu Oregon Health & Science háskólans segir að nokkur atriði komi til greina varðandi tilgátur um orsakatengsl á milli þessara þátta.

„Járn er augljóslega mikilvægt fyrir eðlilega starfsemi heyrnarkerfis líkamans, líkt og fyrir mörg önnur líffæri. Of lítið járn veldur blóðleysi og skortur á blóðrauða (hemoglóbíni) hindrar flutning súrefnis til vefja líkamans. Of lítið járn getur þannig truflað starfsemi fruma og jafnvel leitt til frumudauða sem gæti valdið heyrnarleysi, ef um hárfrumur í innra eyra er að ræða.“, segir læknirinn.

Um rannsóknina

Rannsakendur skoðuðu tíðni heyrnartaps og heyrnarskerðingar hjá meira en 300.000 fullorðnu fólki á árunum 2011-2015. Þátttakendur voru á aldrinum 21-90 ára (meðalaldur 50 ár), 50,56% voru konur en 43,4% karlar.

Rannsóknarniðurstöður birtust í vísindagrein í tímaritinu JAMA Otolaryngology - Head & Neck Surgery.

Heimildir: jamanetwork.com og upi.com

DAUFBLINDA

Við upplifum og leggjum skilning í samfélag okkar í gegnum sjón og heyrn. Ef heyrn skerðist reynir meira á sjónina hjá okkur og öfugt. Ef bæði sjón og heyrn skerðist minnka möguleikar okkar til að túlka og fylgjast með umhverfi okkar.

Dagur daufblindra hvað er daufblinda?

Daufblinda kallast það þegar samþætt sjón- og heyrnarskerðing er til staðar í þeim mæli að hún gerir skertu skynfærunum erfitt fyrir að bæta upp fyrir hvort annað. Þess vegna er samþætt sjón- og heyrnarskerðing sértæk fötlun.

Mikilvægt er að greina samþætta sjón – og heyrnarskerðingu snemma til að takmarka neikvæð áhrif hennar á líf einstaklinga og stuðla að sjálfstæði og virkni í lífi. Daufblindu er skipt niður í snemm – og síðbúna sjón – og heyrnarskerðingu.
Snemmbúin daufblinda er þegar einstaklingur fæðist með bæði sjón – og heyrnarskerðingu.
Siðbúin daufblinda er þegar einstaklingar missa sjón og heyrn síðar á lífsleiðinni.

Um fjölda einstaklinga með samþætta sjón – og heyrnarskerðingu er ekki vitað nákvæmlega. Stærsti hópurinn hér á landi eru aldraðir einstaklingar en þeirra skerðing er oft á tíðum mjög vangreind. Þörf er á verulegu átaki til að greina betur aðstæður aldraðra með samþætta sjón-og heyrnarskerðingu.

Starfrækt er þverfaglegt teymi sem skipað er fulltrúum eftirfarandi stofnanna;

  • Þjónustu og þekkingarmiðstöð blindra, sjónskerta og daufblindra einstaklinga
  • Heyrnar – og talmeinastöð Íslands,
  • Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra
  • Greiningar – og ráðgjafastöð ríkisins.

Hlutverk teymisins er margþætt: Framkvæmd á starfrænu mati fyrir einstaklinga með samþætta sjón – og heyrnarskerðingu, eftirfylgd á þjónustu eftir starfrænt mat, halda utan um tölfræðilegar upplýsingar og sjá um fræðslu um samþætta sjón – og heyrnarskerðingu.

Til hliðsjónar á starfrænu mati er notast við Alþjóðlegt flokkunarkerfi um færni, fötlun og heilsu (ICF). Sviðum hins daglega lífs er skipt niður í 9 kafla og eru þau skoðuð með tilliti til virkni og þátttöku. Með starfrænni greiningu er metið hvað gengur vel og hvaða úrræði er hægt að nota til þess að einstaklingurinn nái sem mestri virkni í sínu félagslega umhverfi.

Boðið er upp á undirbúningsviðtal áður en greiningarferli hefst.

Markmið starfræns mats: Varpa ljósi á umhverfi einstaklingsins og því sem hann vill breyta í sínu daglega lífi.

MBL 28agust2017

 

Við vekjum athygli á grein sem birtist í Morgunblaðinu mánudaginn 28.ágúst þar sem blaðið fjallar um málefni heyrnarskertra.

Kveikjan að greininni er skipan heilbrigðisráðherra á vinnuhópi til að fara yfir málefni Heyrnar-og talmeinastöðvar Íslands og þá þjónustu sem heyrir undir málefnasvið stofnunarinnar.

Í greininni er m.a. rætt við Kristján Sverrisson, forstjóra HTÍ, sem kallar eftir auknum fjárveitingum og verulega auknu gæðaeftirliti með starfsemi HTÍ og annarra söluaðila heyrnartækja hér á landi.

Kristján nefnir einnig slæma stöðu aldraðra í hópi heyrnarskertra og hvernig fötlunin getur leitt til slæmra lífsgæða og einangrunar þeirra.

Þá er einnig rætt um óvandaða sölumennsku á ódýrum heyrnarmögnurum sem óprúttnir söluaðilar kalla heyrnartæki, þó að magnarar þessir eigi lítið skylt við vönduð nútímaheyrnartæki. Orsakir og einkenni heyrnarskerðingar eru einstaklingsbundnar og það skiptir öllu máli að sérfræðingar rannsaki og meti eðli heyrnarskerðingarinnar og stilli rétt tæki á réttan hátt !

painkillers1

Nýleg bandarísk rannsókn skoðaði langtíma-notkun 54.000 kvenna á þremur algengum tegundum verkjalyfja með tilliti til áhrifa á heyrn. Niðurstöður vekja athygli. Rúm 16% kvenna í rannsókninni voru með heyrnartap af völdum slíkra lyfja og langtímanotkun verkjalyfja eykur líkur á heyrnartapi.

Möguleg tengsl fundust milli notkunar kvenna á 2 af 3 verkjalyfjum sem skoðuð voru. Þau verkjalyf sem virðast valda heyrnartapi við langtímanotkun eru Ibuprofen og Acetaminophen, hvort tveggja mjög algeng verkjalyf. Hins vegar sáust engin áhrif á heyrn við langtímanotkun venjulegs aspiríns (acetylsalicilsýru).

Rannsakendur frá Brigham and Women´s Hospital rannsökuðu 54 þúsund konur á aldrinum 48-73 ára. Heyrnartap af völdum verkjalyfja kom skýrast fram hjá þeim konum sem notuðu verkjalyf reglulega í 6 ár eða lengur. Hjá konum sem notuðu slík lyf einungis 1-2svar í viku í allt að 12 mánuði sást hins vegar enginn marktækur munur á heyrn.

Gary Curham, einn höfunda skýrslunnar, telur að þó að niðurstöður sýni einungis takmörkuð neikvæð áhrif sé ástæða til að hafa þetta í huga, einkum þar sem þessi lyf eru mjög algeng og margir nota þau reglulega og til lengri tíma.

Ágúst 2017

Heimild: news.harvard.edu/gazette/story/2016/12/longer-use-of-pain-relievers-associated-with-hearing-loss-in-women/

ungabarn1

 Mikilvægt að tala við ungabörn frá fyrsta degi !

Heili ungbarna byrjar að þróast strax á fósturstigi, aðeins nokkrum vikum eftir frjóvgun. Við fæðingu hafa þegar myndast um 100 milljarðar heynarfruma (taugafruma). Heilafrumur þessar tengjast síðan hratt og örugglega og heilastarfsemi þróast á ótrúlegan máta.

Löngu fyrir fæðingu eru taugafrumur byrjaðar að senda og móttaka taugaboð og vinna úr þeim boðum skynjun á hreyfingu, tilfinningu og heyrn. Bragðskyn, lyktarskyn og skynjun ljóss þróast síðan í kjölfarið.

Nýfædd börn geta heyrt mörg mismunandi hljóð. Þau heyra og skynja hljómfallið í rödd móður sinnar fyrir fæðingu og smábörn eru mjög næm á mannsraddir frá fæðingu og áhugasöm um mannsraddir. Þau snúa höfði og líta í átt til þeirra sem tala.

Sjónin er minnst þróaða skynfæri nýfæddra barna. Þau skynja mun á ljósi og skugga og ná að fylgja hreyfingu á hlutum sem eru innan sjónsviðs þeirra eða u.þ.b. 22-30 cm frá augum þeirra. Fókusinn er ennþá mjög óskýr en um 3ja mánaða aldur fara ungabörn að sjá skýrar og sjónsvið þeirra víkkar töluvert.

Nýfædd börn heyra í raun fleiri talhljóð en fullorðnir. Því meira sem talað er við kornabörn, þeim mun betri og fljótari eru þau að byrja að greina talað mál, sitt móðurmál. Miklu skiptir að heyrn barnsins sé eðlileg og málörvun sé til staðar. Á aldrinum 6-12 mánaða taka börnin miklum framförum í að skilja hljóðfall móðurmálsins.

Vissir þú að um 90% af virkni heilans hefur þegar þróast fyrir 5 ára aldur ? Strax við 3ja ára aldurinn hafa milljarðar taugatenginga og taugabrauta í heila þróast fullkomlega! Þessi öra og mikla þróun mannsheilans á fyrstu þremur æviárunum er eitt stórkostlegasta kraftaverk lífsins.

Þegar barnið er 4 ára er heili þess tvöfalt virkari en heili fullorðinna að því tilskyldu að barnið fái næga örvun fyrir heilann. Tölum því við börnin, syngjum fyrir þau, lesum fyrir þau og ræðum við þau um allt milli himins og jarðar.
Alveg frá fæðingu.

 

Birt 20.júní 2017

Fólk með liðagigt er líklegra til að tapa heyrn en fólk sem ekki þjáist af liðagigt

 

liðagigt hendur

 

 

 

 

Nýleg rannsókn kannaði samhengið á milli heyrnartaps og liðagigtar. Niðurstöður benda til þess að fólki með liðagigt sé hættara við heyrnartapi vegna sjúkdóms síns en heilbrigðum einstaklingum.

Leiðnitap heyrnar var algengt meðal liðagigtarsjúklinga eða milli 25-72% algengi. Heyrnarmælingar (pure-tone) á liðagigtarsjúklingum leiddi í ljós verulegt heyrnartap á öllum tíðnissviðum.

Hvað er liðagigt (Rheumatoid Arthritis)?

Liðagigt er langvinnur bólgusjúkdómur sem veldur verkjum, stífleika, bólgum og hamlaðri hreyfigetu og virkni margra liða líkamans. Sjukdómurinn kemur oftast fram í liðum í höndum og fótum.
Lengi hefur verið vitað að sjúkdómurinn geti haft einhver áhrif á heyrn en tengslin á milli heyrnartaps og liðagigtar hafa ekki áður verið jafn skýrt mæld og skilgreind.

Meðferð heyrnartaps hjá liðagigtarsjúklingum

Liðagigtarsjúklingum með heyrnarskerðingu getur gagnast ýmis önnur heyrnarhjálpandi meðferð en öðrum með heyrnartap, bæði heyrnartæki og ígrædd tækni. Þá er talið að andoxunarefni s.s. E-vítamín geti leikið fyrirbyggjandi hlutverk til að viðhalda virkni innra eyrans hjá liðagigtarsjúklingum.

Höfundar rannsóknarskýrslunnar, sem birtist í The Open Rheumatology Journal, mæla með að fólk með liðagigt sé heyrnarmælt reglulega, bæði loft- og beinleiðnimælingar sem og s.k. Transiently Evoked Otoacoustic Emmisions (TEOAE) prófun.

Heimild: www.audiology-worldnews.com

Heyrnartækjahlutar1

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þróun heyrnartækja er hröð og tekur stórstígum framförum. Nútíma heyrnartæki eru örlitlar hátæknilegar tölvur. Stöðugt er unnið að þróun og rannsóknum til að gera heyrnartækin þannig úr garði að þau geti sem best endurskapað eða bætt upp tapaða náttúrulega heyrn.

Sífellt smærri örgjörvar gera vísindamönnum kleift að byggja fleiri og kröftugri vinnslumáta í tækin og bæta þannið hljómgæði, stefnuvirkni hljóðnema, úrvinnslu hljóðs og takmörkun umhverfishljóða sem trufla talgreiningu þess heyrnarskerta. Meðferð heyrnarskerta batnar því betur sem tekst að aðlaga heyrnartækin að persónulegum þörfum hvers notanda og hljóðumhverfi viðkomandi.

Fleiri hlustunarkerfi – meiri sjálfvirkni

Heyrnartæki í efstu gæðaflokkum vinna stöðugt úr geysimiklu magni hljóðmerkja sem þau nema. Aðstæður, tegund hljóðáreitis, umhverfi notanda og fleiri þættir ráða síðan hvernig tækin aðlaga hlóðin að heyrn viðkomandi. Tækin skipta sjálfvirkt og á sekúndubroti á milli mismunandi for-stilltra hlustunarkerfa sem hæfa aðstæðum hverju sinni.

Endursköpun hljóðsins miðar að því að tækin geti skilað hlustanda sem þægilegastri og bestri heyrn og bæti fyrir þann heyrnarskaða/-tap sem einstaklingurinn hefur orðið fyrir.

Hvernig virka heyrnartæki?

Öll heyrnartæki eru byggð upp af sömu grunnatriðum og hlutum. Fyrst ber að telja skelina en Inni í litlum plast-skeljum sem mynda ytri umgjörð tækjanna er að finna flókinn tækjabúnað:

Hljóðnemar:
Hljóðnemar heyrnartækja eru yfirleitt 1-2 og staðsettir á mismunandi stöðum á tækinu til að greina hljóð sem berast úr mörgum áttum að hlustanda. Hljóðnemarnir umbreyta hljóðum í rafræn boð.

Magnari
Fyrir heyrnarskerta er nauðsynlegt að heyrnartækin magni upp þau hljóð sem hljóðnemarnir nema og komi þeim í eyru þess heyrnarskerta. Í heyrnartækjunum er því magnarar sem eru mis-öflugir eftir því hversu mikla hljóðmögnun viðkomandi þarf á að halda

Hátalari
Afurð eða framleiðsla magnarans er síðan hljóðið og öll heyrnartæki hafa hátalara sem breyta rafboðum aftur í hljóð sem hlustandinn nemur. Hátalarar eru ýmist staðsettir í tækjunum og hljóðið leitt eftir slöngum til eyrans eða hátalarar eru staðsettir í eyrnagöngunum sjálfum.

Örsmáar tölvur
Auk ofangreindra hluta er síðan hjartað í heyrnartækinu, sjálf tölvan sem vinnur úr hljóðum frá hljóðnemum, umbreytir og sérsníður hljóðin sem hlustandinn þarfnast og dregur úr eða eyðir óþarfa hljóðum sem gætu truflað notendur. Reynt er að tryggja að sérhver notandi fái nákvæma stillingu sem passar heyrnartapi viðkomandi sem best. Því er hvert tæki einstakt og aðeins stillt fyrir ÞITT eyra.

Tölvutæknin gerir einnig kleift að bjóða ýmsa fylgihluti með nýjustu hátækni-heyrnartækjum, s.s. fjarstýringar og samskiptabúnað sem gerir kleift að tengja heyrnartækin við t.d. farsíma, sjónvörp o.fl.

Rafhlöður
Til að knýja þessar örtölvur þarf rafhlöður og með bættri tækni í gerð rafhlaða hefur tekist að minnka stöðugt tækin og ending rafhlaða batnar hægt og bítandi. Notaðar eru nokkar mismunandi tegundir rafhlaða í heyrnartæki, allt frá örsmáum rafhlöðum og upp í eilítið stærri og kraftmeiri rafhlöður sem þarf fyrir kraftmestu heyrnartækin.
Venjulegar rafhlöður endast í 5-10 daga (eftir tegund heyrnartækja og notkun). Nýjustu heyrnartækin er einnig hægt að fá með endurhlaðanlegum, innbyggðum rafhlöðum svo að sífelldar skiptingar á rafhlöðum heyra brátt sögunni til.

talmfr samn hi hti Jan2017
 
 
Heyrnar- og talmeinastöð Íslands og Háskóli Íslands hafa gert nýjan samstarfssamning sem miðar að því að efla samstarf stofnananna enn frekar í kennslu og rannsóknum.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Kristján Sverrisson, forstjóri Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands, undirrituðu samninginn á dögunum.
 
Samkvæmt hinum nýja samningi, sem tekur við af eldri samningi frá árinu 2011, er markmiðið að samnýta sem best sérþekkingu, kunnáttu, efnivið og aðstöðu beggja aðila meðal annars með það fyrir augum að styrkja nýliðun fagfólks á sviði heyrnar- og talmeinafræða. Einnig er ætlunin með að stuðla að auknum rannsóknum  í þeim faggreinum sem tengjast greiningu, ráðgjöf og úrræðum tengdum heyrnar- og talmeinum.
Samningurinn rammar framlag HTÍ varðandi kennsluframlag við Talmeinafræðiskor HÍ og starfsþjálfun nemenda, bæði á meðan á námi stendur sem og starfsþjálfun kanditat til starfsréttinda.
 
Sérþekkingu á þessu sviði er bæði að finna á Félagsvísinda-, Heilbrigðisvísinda- og Hugvísindasviði Háskóla Íslands en skólinn býður m.a. upp á nám í talmeinafræði og táknmálsfræði og táknmálstúlkun. Heyrnar- og talmeinastöðin sér hins vegar um heyrnarmælingar, greiningu og meðferð á heyrnar- og talmeinum og hefur jafnframt yfirsýn yfir fjölda þeir sem eru heyrnarskertir og heyrarlausir eða glíma við annars konar heyrnar- eða talmein.
 
Samkvæmt samningnum  geta einstakar deildir og kennarar við Háskólann leitað til starfsmanna Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar um að leiðbeina talmeinafræðinemendum í starfsnámi  og þá munu stofnanirnar vinna saman að því að skapa aðstöðu eftir föngum fyrir rannsóknatengt nám.  Enn fremur munu starfsmenn Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar geta sótt sér endurmenntun í námskeiðum innan deilda Háskóla Íslands.
 
Heyrnar- og talmeinastöð Íslands væntir mikils af samstarfinu í framtíðinni sem hingað til og við erum stolt af því að geta lagt lóð á vogarskálar þegar kemur að fjölgun talmeinafræðinga á Íslandi, en mikil þörf er fyrir hendi um land allt.

logo

 

BREYTTIR AFGREIÐSLUTÍMAR htí

OPINN TÍMI FELLUR NIÐUR 

frá 1.janúar 2017

AÐSTOÐARTÍMA  (f.stillingar tækja og aðstoð) verður hægt að bóka á vefsíðu www.hti.is eða á símatímum tímabókana (kl: 13-14 daglega)

MÓTTAKA TÆKJA og hlustartykkja til viðgerðar, hreinsunar og slönguskipta á verkstæði alla virka daga frá kl: 11-11:30