Fréttir

world hearing Day 2018 Hear the future

 

Á ári hverju, þann 3.mars nánar tiltekið, vekur Alþjóða heilbrigðismálastofnunin, WHO, athygli á heyrnarskerðingu og heyrnarleysi um heim allan. Umfang vandans og úrræði og hvernig ríkisstjórnir og almenningur getur aðstoðað við forvarnir, greiningu, meðferð og endurhæfingu.

Í ár, á World Hearing Day 2018, vill WHO vekja athygli á ógnvekjandi vexti fólks með heyrnarvandamál um heim allan undir slagorðinu “Hear the future”.

Helstu áherslur WHO þetta árið eru:

Mikil fyrirsjáanleg aukning í tíðni heyrnartaps á veraldarvísu á næstu árum (byggt á tölfræðilegum rannsóknum)

Átaks er þörf til að stemma stigu við þessari þróun með auknum og öflugum forvörnum

Brýnt er að tryggja aðgengi fólks að heyrnarbætandi aðgerðum, heyrnartækjum, hjálparbúnaði og endurhæfingu við hæfi.

WHO leggur einnig til hollráð til almennings og yfirvalda. Eftirfarandi tafla sýnir hvað almenningur þarf að hafa í huga hvað heyrn og heyrnarvernd gildir:

WHO forvarnir og urræði

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Og þegar að stjórnvöldum kemur þá er krafa Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar einnig skýr.

Stofnunin telur ekki nóg að gert hvað forvarnir, heyrnarvernd og velferðarþjónustu fyrir þann stóra hóp sem er að kljást við heyrnartap og heyrnarleysi:

WHO hvað geta yfirvöld gert

Felag talmfr feb18

 

Félag talmeinafræðinga á Íslandi verður með kynningu á störfum talmeinafræðinga á Snapchat næstu vikur. Talmeinafræðingar á HTÍ ríða á vaðið og kynna störf sín næstu daga. Þeir sem vilja fylgjast með þessum frábæru starfsmönnum okkar geta skannað inn meðfylgjandi mynd á snappið sitt eða slegið inn notendanafnið ialp2016

 

Eftirfarandi grein er birt með leyfi höfundar. Greinin birtist áður í Fréttablaðinu 21.febrúar s.l.

BjarteyÍ starfi mínu sem talmeinafræðingur verð ég vör við að orðaforði barna sem eiga íslensku sem móðurmál er að verða sífellt enskuskotnari. Mörg börn á leikskólaaldri eru jafnvel með sterkari orðaforða á ensku en íslensku. Við greiningu á málþroskavanda barna hitti ég stundum foreldra sem segja með nokkru stolti að orðaforði barnsins sé talsvert betri á ensku en íslensku og er ég þar að tala um foreldra sem eiga íslensku sem móðurmál. Leikskólakennarar tjá mér að það sé æ sjaldgæfara að inn í leikskólann komi tveggja ára börn með góðan orðaforða og aldurssvarandi tök á setningamyndun. Þeir geta einnig sagt sögur af börnum sem þrátta um það við kennarana sína hvaða nöfn ýmis fyrirbæri beri ,að þessi litur heiti black en ekki svartur og að dýrið heiti hippo en ekki flóðhestur.

En er þetta ekki bara í góðu lagi? Er ekki jákvætt að börnin nái snemma tökum á ensku og verði ,,tvítyngd”? Ef þetta væri ekki á kostnað móðurmálsins, þá væri svarið já. Það sem við sjáum hins vegar er að íslenskum orðaforða barnanna fer mikið aftur. Það er raunveruleg hætta á því að við séum að ala upp kynslóð barna sem talar tvö tungumál þar sem hvorugt málið er vel þróað. Varðandi börn sem eiga annað móðurmál en íslensku er staðan jafnvel enn verri þar sem ensk áhrif trufla máltöku þeirra á íslensku.

Íslenska skólakerfið er ekki búið að hafna íslenskunni, kennslan fer fram á íslensku og megnið af því lesefni sem nemendum er ætlað að lesa er á íslensku. Meðan svo er þurfa nemendur að vera með góðan aldurssvarandi íslenskan orðaforða. Bandarísk rannsókn (Hart og Risley, 1995) sýndi gífurlegan mun á orðaforða barna við þriggja ára aldur eftir því hversu mikið var talað við barnið og hvernig mál var haft fyrir barninu. Þessi mikli munur á orðaforða hafði forspárgildi um tungumálafærni barnanna við níu ára aldur. Í nýlegri doktorsrannsókn Sigríðar Ólafsdóttur (2015) kom fram að sterk fylgni er milli orðaforða og lesskilnings nemenda í 4. – 8. bekk. Það felur í sér að því öflugri sem orðaforði barnsins er við níu ára aldur því betri er lesskilningur þess. Rannsóknin sýndi einnig fram á að þessi fylgni helst  þar til barnið kemst á unglingsaldur. Barn með slakan orðaforða á íslensku á því mjög líklega eftir að lenda í miklum lesskilningsvanda, því góður orðaforði og málskilningur er undirstaða lesskilnings. Ef svo heldur áfram sem horfir gætum við átt von á enn frekara falli lesskilnings íslenskra nemenda í alþjóðlegum samanburðarrannsóknum með tilheyrandi námserfiðleikum og brottfalli úr skóla.

En hvað er þá til ráða? Þessari spurningu mætti svara með langri grein, en einfalda svarið er hins vegar: Ein árangurríkasta leiðin til að efla orðaforða barna, og þar með málskilning, er aukinn bóklestur. Talið við börnin ykkar og lesið fyrir þau daglega á íslensku. Forðist rafrænt afþreyingarefni þar sem allt fer fram á ensku en veljið í staðinn íslenskt efni.

Foreldrar, ykkar er valið. Hvort viljið þið heldur að barnið ykkar tali “krúttlega” ensku á yngri árum eða nái góðum tökum á móðurmálinu og verði í kjölfarið með góðan lesskilning og þar með góðar forsendur til frekara náms?

Höfundur er talmeinafræðingur og verkefnisstjóri læsisverkefnis hjá Fræðslu- og frístundaþjónustu Hafnarfjarðar.

Skráð 22.febrúar 2018

Heyrnar- og talmeinastöð Íslands skortir menntaða heyrnarfræðinga til starfa því eftirspurn eftir þjónustu stofnunarinnar eykst með ári hverju. Þar sem heyrnarfræði er ekki kennd á háskólastigi á Íslandi hefur HTÍ þurft að reiða sig á að íslenskir námsmenn nemi fræðin við erlenda háskóla og skili sér síðan aftur upp á klakann til starfa. Því miður hafa sárafáir Íslendingar numið heyrnarfræði síðustu árin og því þurfti stofnunin að bregðast við með einhverjum hætti þegar ljóst var að endurnýjun og fjölgun sérmenntaðra heyrnarfræðinga væri í hættu.

HTÍ auglýsti því eftir heyrnarfræðingum á Norðurlöndunum og á árinu 2015 fékk stöðin fyrstu erlendu heyrnarfræðingana til starfasebastian waechter heyrnarfræðingur

Sebastian Waechter
heitir ungur Svíi (en þýzkur í aðra ættina) sem réði sig til sumarstarfa hjá okkur því hann hafði mikinn áhuga á að skoða Ísland nánar. Óhætt er að segja að það hafi verið mikill happadráttur fyrir HTÍ því að Sebastian hefur komið reglulega til starfa hjá okkur síðan og mun starfa af og til á þessu ári. Sebastian vann hug og hjörtu bæði starfsmanna og viðskiptavina, lærði íslensku á örfáum vikum og er bæði vandvirkur sérfræðingur og verið öflugur talsmaður HTÍ á erlendri grund. Þannig hefur hann kynnt HTÍ sem starfsvettvang fyrir heyrnarfræðinema í háskólum í Svíþjóð og beinlínis stuðlað að komu nokkurra slíkra til skemmri dvalar hjá HTÍ síðustu árin. Sebastian er að ljúka doktorsnámi við háskólann í Lundi.

Sara Hjelm er heyrnarfræðingur sem útskrifaðist frá háskólanum í Örebro 2016. Hún kynntist HTÍ í gegnum vinkonu sína sem vann hjá okkur um tíma. Sara heimsótti hana til Íslands sumarið 2016 og hafði síðar samband og spurðist fyrir um mögulega stöðu hér á landi. Sara kom snemma árs 2017 og hefur síðan framlengt dvöl sína. Hún hefur náð góðum tökum á íslensku og skjólstæðingar bera henni gott orð fyrir þjónustulund og hlýtt viðmót auk vandaðrar vinnu sem heyrnarsérfræðingur.

Sara Hjelm

Við tókum þessa geðþekku Svía tali og spurðum þau nokkurra spurninga varðandi heyrnarfræðina og dvöl þeirra á Íslandi.

Hvað varð til þess að þið ákváðuð að koma til Íslands til að vinna ?

Sebastian: Fyrsta skiptið sem ég kom til starfa á Íslandi gerðist fyrir röð tilviljana. Ég var ekki nógu ánægður í starfi mínu í Svíþjóð og hafði sótt um styrki til ýmissa aðila vegna rannsóknarverkefna sem ég hugðist vinna að. Góður vinur minn benti mér á að það væri skortur á menntuðum heyrnarfræðingum á Íslandi og spurði mig hvort að það væri ekki góð hugmynd að prófa að vinna þar um tíma á meðan ég biði eftir svörum við umsóknum mínum. Ég ákvað að prófa þetta og síðan gengu hlutirnir ótrúlega hratt fyrir sig og 2 mánuðum seinna var ég mættur hingað og byrjaður að vinna hjá HTÍ.
Seinna fékk ég styrki og stunda nú rannsóknir til doktorsprófs við háskólann í Lundi en mér þótti svo gaman að kynnast Íslandi að ég hef reynt að fá vinnu hér alltaf þegar hlé skapast í starfi mínu í Svíþjóð.

Sara: Mig langaði að vinna heyrnarstöð sem gæfi mér kost á sem fjölbreyttustu viðfangsefnum. Vinkona mín var að vinna hjá HTÍ á undan mér svo ég prófaði að senda tölvupóst með fyrirspurn um starf. Fáum vikum síðar var ég svo bara lent hér og byrjuð að starfa.

Hafðir þú komið áður til Íslands?

Sebastian: ég hafði bara komið einu sinni áður, eina frábæra helgi í nóvember 2013. Við vorum ótrúlega heppin með veður alla þá helgi, sólskin og heiður himinn og varla bærðist hár á höfði. Svo að segja má að hugmyndir mínar um íslenska veðráttu hafi verið eilítið á skjön við veruleikann þegar ég ákvað að flytja hingað en ég hef síðan lært að meta hina mislyndu veðráttu Íslands.

Sara: ,,Ég hafði heimsótt vinkonu mína sumarið 2016 þegar hún vann hérna og ferðast um í nokkra daga í sól og sumaryl. Það gaf nú ekki alveg rétta mynd af loftslaginu“, segir hún hlæjandi.

Hver voru fyrstu viðbrögð þín eftir að þú hafðir dvalist hér fyrstu dagana?

Sara: Fyrsta viðkynning var bara mjög jákvæð og starfsfólk HTÍ tók mér mjög vel.

Sebastian: Ég kem frá Skáni í Svíþjóð þar sem allt er marflatt svo að íslensku fjöllin heilluðu mig algjörlega frá byrjun. (skrásetjari getur staðfest þetta, í fyrsta bíltúr austur fyrir fjall tók Sebastian myndir í gríð og erg af hverjum hól, hæð og fjalli). Jú, auðvitað finnast fjöll í Svíþjóð en ég hefði alltaf þurft að aka í allt að 30 klukkustundir til þess að komast í tæri við þau.  Hér get ég hoppað upp í strætó upp að Esju eftir vinnu á daginn, gengið upp á topp og samt verið kominn heim aftur í kvöldmat. Frábært og hreinn munaður að mínum dómi.   

Hvernig munduð þið lýsa Íslendingum?

Sebastian:  Við fyrstu kynni virka þeir dálítið svona týpískir Norðurlandabúar, innhverfir og þögulir. And sú ímynd fellur fljótt og innan fárra daga komst ég að raun um að Íslendingar eru:

  1. Afslöppuðustu manneskjur í heimi (það er varla tilviljun að frasinn „Þetta reddast“ er algengasta orðtækið í daglegu tali)
  2. Alltaf tilbúnir til að hjálpa öðrum, alveg sama hvaða aðstæður eru.

Sara: Bara einstaklega ljúft fólk og viðkunnalegt.

Hefur viðhorf þitt eitthvað breyst til Íslands eða Íslendinga síðan ?

Sebastian:  Nú þegar ég hef búið og lifað með ykkur um tíma þá hef ég aðeins styrkst í trú minni á A+B hér að ofan. Sara tekur undir þetta með honum.

 Og hvernig líkar þér að vinna sem heyrnarfræðingur á Íslandi?

Sebastian: Ég er mjög ánægður með starf mitt sem heyrnarfræðingur hér. Það getur vissulega verið erfitt á köflum því að eftirspurn eftir þjónustu okkar er mikil og vaxandi og HTÍ er verulega undirmönnuð hvað heyrnarfræðinga varðar. En annars er flest mjög gott. Hér fæ ég tækifæri til að spreyta mig á mjög breiðum hópi skjólstæðinga með allar mögulegar tegundir heyrnarskerðingar og engir tveir dagar eru eins. Starf heyrnarfræðinga í Svíþjóð getur verið einsleitara og tilbreytingarlausara, einkum á stærri stofnunum og fyrirtækjum. Mér líkar einnig hvað íslenskir kollegar mínir eru opnir fyrir nýjungum og að prófa nýjar leiðir svo fremi að vísindalegur grunnur sé traustur. Smæðin gerir HTÍ sveigjanlegri og alla ákvörðunartöku skjótari en hjá stórum og formföstum stofnunum erlendis. Þar getur stundum verið erfitt og tímafrekt að hrinda nyjum verkefnum og aðferðum í framkvæmd.

Sara: Mér líkar afskaplega vel að starfa hér. Á stofnuninni er góður hópur mjög hæfra starfsmanna og sérfræðinga og ég hef lært mikið.

  

Telur þú það eitthvað öðruvísi en í að vinna sem heyrnarfræðingur í Svíþjóð?

Sebastian: Já, tvímælalaust. Hér á landi kynntist ég t.d. fyrst farþjónustu en HTÍ rekur ferðastöð sem er sérbyggð heyrnarmælinga og -þjónustubifreið sem gefur heyrnarfræðingum kost á að ferðast um landið og hjálpa fólki um land allt. Ég held að slík þjónusta gæti hentað mjög vel í sumum héruðum Sviþjóðar og einnig t.d. í Ástralíu, þar sem ég vann um hríð.  

Sara:   Það er helst að hér er aðeins ólík stefna hvað varðar meðferð og endurhæfingu. Í Svíþjóð eru opinberar heyrnarstöðvar með samning við heyrnartækjaframleiðendur skv útboðum. Skjólstæðingar greiða þá aðeins fyrir tíma sérfræðings en fá fyrstu heyrnartækin ókeypis. En úrval heyrnartækja er mjög lítið þar. Vegna tímafreks ferlis við útboðin og kröfur um lægstu verð frá framleiðendum er ný tækni og ný tæki lengi að komast í notkun í Svíþjóð. Á Íslandi höfum við hins vegar aðgengi að nýjustu og bestu tækjum í miklu úrvali. Kostirnir við sænska kerfið eru kannski að þar fær fólk meiri stuðning í formi fræðslu og endurhæfingar sem og stuðnings við daglegt líf (skóla og atvinnu) en Ísland stendur framar hvað varðar gæði heyrnartækja og heyrnarbætandi aðgerða. Ég vildi sjá að við hefðum meiri tíma við endurhæfingu hér en á móti mun ég sakna verulega fjölbreytta úrvalsins af tækjum og búnaði sem stendur til boða á Íslandi

Hvernig telur þú að megi bæta þjónustu við heyrnarskerta hér á landi ?

Fyrst og fremst með því að fjölga vel menntuðum heyrnarfræðingum, segir Sebastian og Sara tekur undir með honum. Þannig mætti vinna á stórum biðlistum eftir þjónustunni. Snemmtæk íhlutun skiptir miklu máli varðandi árangur meðferðar og því er ekki gott ef það dregst um mánuði eða ár að greina skerðingu og hrinda meðferð í framkvæmd.

Forvarnir þyrftu líka að vera í miklu meira mæli en nú er. Góð heyrnarvernd og fyrirbyggjandi aðgerðir geta aukið heyrnarheilsu landsmanna. Stór hluti heyrnarskerðingar er vegna skaða af völdum umhverfisþátta og því mikilvægt að huga að góðri hljóðvist og heyrnarvernd.

,,Okkur sýnist að það þurfi að bæta verulega í varðandi aðstöðu HTÍ og yfirvöld þurfa að gera heyrnarfræði hærra undir höfði og styðja ungt fólk til að læra fagið. Annars munu biðlistar bara halda áfram að vaxa, þjónustan skerðast og afar erfitt að þróa heyrnarfræðina áfram hér á landi“, bæta þau við.

Hvað er spennandi framundan í heyrnarfræðinni og hvert stefnið þið í framtíðinni?

Þau eru bæði sammála um að það eru margir spennandi hlutir í gangi núna. Rannsóknir á því hvernig heilinn vinnur úr hljóðum og hvernig hann greinir tal og málhljóð er spennandi efni. Heyrnarfræði sem vísindagrein er síbreytileg með aukinni tækni og ég tel að rannsóknir næstu ára muni leiða til mikilla framfara í meðferð heyrnarskerðingar og heyrnarleysis.
Sebastian: Þegar ég er ekki hér á Íslandi að vinna þá legg ég stund á doktorsrannsókn mína við háskólann í Lundi í Svíþjóð. Ég stefni fyrst og fremst á að ljúka þeirri vinnu en mig langar að sameina slíka rannsóknarvinnu og klínískt starf í framtíðinni. Ég tel að það styðji hvort annað og auk þess fjölbreytilegra fyrir mig sem vísindamann.    

,,Og persónulega langar mig að safna meiri reynslu í sarpinn og sjá í hvaða farveg nýjustu rannsóknir beina starfi okkar“, segir Sara. ,,Kannski held ég áfram að bæta við mig í námi enn frekar. Það kemur bara í ljós,“ segir þessi geðþekka stúlka að lokum.

Við þökkum þeim skötuhjúum kærlega fyrir spjallið og óskum þeim alls hins besta í framtíðinni.

 

Birt: 13.febrúar 2018

Gudmundina 100 CI

 

 

Þann 12.janúar s.l. fór fram kuðungsígræðsla á Landspítalanum. Guðmundína Hallgrímsdóttir (í miðið á myndinni) varð þar með 100. Íslendingurinn til að þiggja slíkan ígræddan heyrnarbúnað. Við óskum Guðmundínu hjartanlega til hamingju! Með henni á myndinni eru Ingibjörg Hinriksdóttir, yfirlæknir (t.v.) og Bryndís Guðmundsdóttir, heyrnarfræðingur (t.h.)

Framleiðandi búnaðarins færði henni heillaóskakveðjur og HTÍ færði Guðmundínu litla gjöf í tilefni áfangans.

Guðmundína tapaði heyrn fyrir mörgum árum en var því miðiur ekki vísað til HTÍ fyrr en á síðasta ári. Henni var strax bent á möguleikann á að endurheimta heyrn sína með kuðungsígræðslu og ákvað að taka það skref.

Heyrnarbúnaðurinn var ræstur 24.janúar 2018 og fyrstu viðbrögð lofa góðu, að sögn Bryndísar heyrnarfræðings.

Guðmundína er hundraðasti Íslendingurinn sem fær að njóta þessarar tækni sem hefur þróast hratt síðustu 3 áratugina. Flestir íslenskra ígræðsluþega hafa farið í aðgerðir frá aldamótum og árangurinn er í langflestum tilfellum mjög góður.

Kuðungsígræðslur bjóðast nú fólki sem missir heyrn eða börnum sem fæðast heyrnarlaus. Hárfínn þráður  með rafskautum er þá þræddur í kuðung innra eyrans og hljóðmerkjum breytt í rafboð sem örva mismunandi svæði kuðungsins sem heyrnartaug og heili skynja síðan sem hljóð.

Nú eru um 60 ár síðan vísindamenn kváðust fyrst geta mælt heyrnarsvörun þegar kuðungur innra eyrans var örvaður með rafstraumi. Fyrstu kuðungsígræðslurnar voru mun einfaldari en nú er og allur búnaður hefur tekið stórkostlegum framförum. Í dag er ígræddi þráðurinn t.d. með 24 elektróðum en fyrstu aðgerðir voru gerðar með einungis 2-6 skautum á þræðinum. Þessir 100 heyrnarlausu Íslendingar geta í dag lifað eðlilegu lífi og stundað nám, leik og störf með heyrandi jafningjum sínum án hindrana. Kuðungsígræðslur eru í raun fyrsta skynfærið sem manninum tekst að endurskapa.

24.janúar 2018

vefsidaSHH

Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra hefur kynnt til sögunnar nýja vefsíðu stofnunarinnar. Þar kennir margra grasa og ýmsan fróðleik að finna um SHH, íslenskt táknmál o.fl. VIð óskum SHH innilega til hamingju með nýju vefsíðuna og hvetjum alla til að skoða hana nánar.

Aðsend grein - Höfundur: Ingibjörg Dóra Bjarnadóttir

rittúlkunAðgengi fyrir alla

Rittúlkun nýtist stórum hópi fólks, öllum þeim sem eru heyrnarskertir, heyrnarlausir og einstaklingum sem eru að ná tökum á íslensku. Rittúlkun hjálpar einnig þeim sem lamaðir eru.

Margir spyrja sig, Hvað er rittúlkun? Rittúlkun fer þannig fram að rittúlkurinn situr við hlið notanda þess og ritar allt sem fram fer og er sagt. Notandinn les upplýsingar jafnóðum og er alltaf meðvitaður um það sem rætt er.
Skortur er á fjármagni frá hinu opinbera sem orsakar það að rittúlkun er ekki algeng. Einstaklingur sem notar rittúlk þarf að greiða sjálfur úr eigin vasa á meðan heyrnarlausir sem nota táknmál fá þjónustuna fría. Ég vil taka fram að það vantar einnig fjármagn í fleiri táknmálstúlka. Mikið mannréttindarbrot á ferð.
Heyrnarhjálp vill hefja rittúlkun til sömu virðingar og táknmálstúlkun nýtur. Einstaklingur sem er heyrnarskertur fær enga þjónustu en einstaklingur sem er heyrnarlaus fær mun betri þjónustu. Þetta er mikil mismunun. Rittúlkun bætir lifsgæði einstaklinga sem þurfa að styðja sig við rittúlkun.

Heyrnarskertir eiga að fá rittúlk sér að kostnaðarlausu. Erfitt er að heyra lítið eða ekkert af því sem fram fer í umhverfinu. Heyrnarskertur nemandi í skóla getur ekki fengið rittúlk nema borga úr eigin vasa á meðan táknmálstúlkun er að kostnaðarlausu. Heyrnarskertur einstaklingur þarf að leita sjálfur að rittúlki, en þeir sem eru með táknmál og nota táknmálstúlk er nóg að hafa samband við Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskerta (SHH) og fá þjónustuna gjaldfrjálsa. Ingibjorg Dora Bjarnadottir

Texta á allt sjónvarpsefni í íslensku sjónvarpi á öllum stöðvum. Lítið mál er að setja texta við sjónvarpsefni. Oft kemur fyrir að heyrnarskertir og heyrnarlausir hlakka til að sjá sjónvarpsþátt, en þegar sest er niður fyrir framan sjónvarpið kemur í ljós að sjónvarpsefnið er ekki textað. Sjónvarp án textunar,verður til þess að ákveðinn minnihlutahópur missir af sjónvarpsefninu. Oft hefur verið umræða á alþingi um að texta allt sjónvarpsefni.

Er ekki kominn tími til að klára þá vinnu og búa til aðgengi fyrir alla landsmenn?

 

Höfundurinn hefur verið heyrnarskert frá fæðingu og vill berjast fyrir bættu aðgengi heyrnarskertra.

blodleysi jarnskortur

 Ný rannsókn sýnir tengsl heyrnarskerðingar og járnskorts í blóði (iron deficiency anemia)

Fólk með blóðleysi (skort á járni í blóði) er meira en tvöfalt líklegra til að vera með skerta heyrn en þeir sem ekki þjást af járnskorti. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar sem framkvæmd var af Pennsylvania State University College of Medicine í Bandaríkjunum.

Þegar rannsakendur skoðuðu mismunandi tegundir heyrnarskerðingar kom í ljós að þeir sem hafa járnskort í blóði eru með 82% auknar líkur á s.k. skyntauga-heyrnartapi (sensorineural) miðað við fólk sem ekki er með járnskort í blóði. Þá jukust líkur á samsettri heyrnarskerðingu (skyntauga- og leiðnitapi) um 240% í samanburði við fólk án járnskorts í blóði.

 

 

Hvernig stendur á þessu ?

Höfundar ítreka að niðurstöður sýni einungis sterk tengsl á milli heyrnarskerðingar og þessa sjúkdóms. Rannsóknin sanni ekkert hvort að annað valdi hinu á einhvern hátt.

Dr Peter Steyger við heyrnarrannsóknarstofu Oregon Health & Science háskólans segir að nokkur atriði komi til greina varðandi tilgátur um orsakatengsl á milli þessara þátta.

„Járn er augljóslega mikilvægt fyrir eðlilega starfsemi heyrnarkerfis líkamans, líkt og fyrir mörg önnur líffæri. Of lítið járn veldur blóðleysi og skortur á blóðrauða (hemoglóbíni) hindrar flutning súrefnis til vefja líkamans. Of lítið járn getur þannig truflað starfsemi fruma og jafnvel leitt til frumudauða sem gæti valdið heyrnarleysi, ef um hárfrumur í innra eyra er að ræða.“, segir læknirinn.

Um rannsóknina

Rannsakendur skoðuðu tíðni heyrnartaps og heyrnarskerðingar hjá meira en 300.000 fullorðnu fólki á árunum 2011-2015. Þátttakendur voru á aldrinum 21-90 ára (meðalaldur 50 ár), 50,56% voru konur en 43,4% karlar.

Rannsóknarniðurstöður birtust í vísindagrein í tímaritinu JAMA Otolaryngology - Head & Neck Surgery.

Heimildir: jamanetwork.com og upi.com

DAUFBLINDA

Við upplifum og leggjum skilning í samfélag okkar í gegnum sjón og heyrn. Ef heyrn skerðist reynir meira á sjónina hjá okkur og öfugt. Ef bæði sjón og heyrn skerðist minnka möguleikar okkar til að túlka og fylgjast með umhverfi okkar.

Dagur daufblindra hvað er daufblinda?

Daufblinda kallast það þegar samþætt sjón- og heyrnarskerðing er til staðar í þeim mæli að hún gerir skertu skynfærunum erfitt fyrir að bæta upp fyrir hvort annað. Þess vegna er samþætt sjón- og heyrnarskerðing sértæk fötlun.

Mikilvægt er að greina samþætta sjón – og heyrnarskerðingu snemma til að takmarka neikvæð áhrif hennar á líf einstaklinga og stuðla að sjálfstæði og virkni í lífi. Daufblindu er skipt niður í snemm – og síðbúna sjón – og heyrnarskerðingu.
Snemmbúin daufblinda er þegar einstaklingur fæðist með bæði sjón – og heyrnarskerðingu.
Siðbúin daufblinda er þegar einstaklingar missa sjón og heyrn síðar á lífsleiðinni.

Um fjölda einstaklinga með samþætta sjón – og heyrnarskerðingu er ekki vitað nákvæmlega. Stærsti hópurinn hér á landi eru aldraðir einstaklingar en þeirra skerðing er oft á tíðum mjög vangreind. Þörf er á verulegu átaki til að greina betur aðstæður aldraðra með samþætta sjón-og heyrnarskerðingu.

Starfrækt er þverfaglegt teymi sem skipað er fulltrúum eftirfarandi stofnanna;

  • Þjónustu og þekkingarmiðstöð blindra, sjónskerta og daufblindra einstaklinga
  • Heyrnar – og talmeinastöð Íslands,
  • Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra
  • Greiningar – og ráðgjafastöð ríkisins.

Hlutverk teymisins er margþætt: Framkvæmd á starfrænu mati fyrir einstaklinga með samþætta sjón – og heyrnarskerðingu, eftirfylgd á þjónustu eftir starfrænt mat, halda utan um tölfræðilegar upplýsingar og sjá um fræðslu um samþætta sjón – og heyrnarskerðingu.

Til hliðsjónar á starfrænu mati er notast við Alþjóðlegt flokkunarkerfi um færni, fötlun og heilsu (ICF). Sviðum hins daglega lífs er skipt niður í 9 kafla og eru þau skoðuð með tilliti til virkni og þátttöku. Með starfrænni greiningu er metið hvað gengur vel og hvaða úrræði er hægt að nota til þess að einstaklingurinn nái sem mestri virkni í sínu félagslega umhverfi.

Boðið er upp á undirbúningsviðtal áður en greiningarferli hefst.

Markmið starfræns mats: Varpa ljósi á umhverfi einstaklingsins og því sem hann vill breyta í sínu daglega lífi.

MBL 28agust2017

 

Við vekjum athygli á grein sem birtist í Morgunblaðinu mánudaginn 28.ágúst þar sem blaðið fjallar um málefni heyrnarskertra.

Kveikjan að greininni er skipan heilbrigðisráðherra á vinnuhópi til að fara yfir málefni Heyrnar-og talmeinastöðvar Íslands og þá þjónustu sem heyrir undir málefnasvið stofnunarinnar.

Í greininni er m.a. rætt við Kristján Sverrisson, forstjóra HTÍ, sem kallar eftir auknum fjárveitingum og verulega auknu gæðaeftirliti með starfsemi HTÍ og annarra söluaðila heyrnartækja hér á landi.

Kristján nefnir einnig slæma stöðu aldraðra í hópi heyrnarskertra og hvernig fötlunin getur leitt til slæmra lífsgæða og einangrunar þeirra.

Þá er einnig rætt um óvandaða sölumennsku á ódýrum heyrnarmögnurum sem óprúttnir söluaðilar kalla heyrnartæki, þó að magnarar þessir eigi lítið skylt við vönduð nútímaheyrnartæki. Orsakir og einkenni heyrnarskerðingar eru einstaklingsbundnar og það skiptir öllu máli að sérfræðingar rannsaki og meti eðli heyrnarskerðingarinnar og stilli rétt tæki á réttan hátt !