Fréttir

Starfsfólk Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar klæddist að sjálfsögðu bleiku á Bleika deginum 11. október í þeim tilgangi að vekja athygli á baráttunni gegn krabbameini hjá konum.

Ekki áttu allir starfsmenn eitthvað bleikt til að fara í en með því að beita öllum tiltækum ráðum og gefa hugmyndafluginu lausan tauminn vakti útkoman mikla kátínu, bæði meðal starfsmanna og þeirra sem heimsóttu okkur þann daginn.

 

bleiki2013

 


EH heimsókn þjónustustofnanir sept 2013-minni

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur falið verkefnisstjórn að meta mögulegan ávinning af sameiningu þriggja stofnana sem sinna sérhæfðri þjónustu við fatlað fólk. Þetta eru Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga og Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

 

Lesa frétt hjá Velferðaráðuneytinu.

Heyrnar-og talmeinastöð gefur út nýtt efni.

Talmeinafræðingarnir Þóra Másdóttir og Hrafnhildur Halldórsdóttir hafa tekið saman orðalista sem inniheldur orð sem raðað er eftir málhljóðum. Um er að ræða 130 blaðsíðna hefti sem gagnast til dæmis í vinnu með börnum í leik- og grunnskóla hvort heldur sem unnið er með framburð, málþroska og/eða orðaforða. Orðalistarnir nýtast einnig í vinnu með fullorðnum einstaklingum sem þurfa að æfa framburð hljóða og orða.

Hljóðabelgur skiptist í sjö kafla; Stök málhljóð í framstöðu, innstöðu og bakstöðu. Samhljóðaklasa, bæði framstöðu-og innstöðuklasa. Lágmarkspör, sérhljóð, orð röðuð eftir orðalengd og að lokum nokkrar hljóðaþrautir.

Heimilt er að ljósrita listana.

Verðið er 4.500 krónur og hægt er að nálgast eintak á HTÍ

LubbiFinnurMalbein-175x249Föstudaginn 29. apríl fékk Lubbi finnur málbein viðurkenningu Upplýsingar, félags bókasafns- og upplýsingafræða, sem 'Besta íslenska fræðibókin fyrir börn árið 2010' en bókin um Lubba er hugsuð til málörvunar og hljóðanáms fyrir börn á aldrinum tveggja til sjö ára.
Höfundar bókarinnar, Þóra Másdóttir og Eyrún Ísfold Gísladóttir, eru báðar talmeinafræðingar sem hafa áralanga reynslu af talþjálfun barna en Þóra starfar einmitt um þessar mundir hér hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands.
Bókin kom út hjá Máli og menningu/Forlaginu haustið 2009.
 
 

Fræðslufundir um hvernig hægt er að sætta sig við og lifa góðu lífi þrátt fyrir heyrnarskerðingu


Kristbjörg Gunnarsdóttir, heyrnarfræðingur á Heyrnar- og talmeinastöð Íslands býður til fræðslufunda og spjalls um heyrn, heyrnarskerðingu, heyrnartæki og önnur hjálpartæki fyrir heyrnarskerta.

Á hverjum fundi er reynt að svara eftirfarandi spurningum:

  • Hvernig heyrum við?
  • Hvað gerist þegar við missum heyrnina?
  • Hvaða áhrif hefur heyrnartapið á daglegt líf?
  • Hvað geta ættingjar og vinir gert?
  • Hvernig geta heyrnartæki hjálpað?

Fræðslan er ætluð þeim sem:

  • eru heyrnarskertir og langar að fræðast meir
  • eru farnir að tapa heyrn og byrjaðir að huga að heyrnar- og/eða hjálpartækjum
  • eiga aðstandanda eða vin sem er heyrnarskertur

Fræðslufundirnir eru haldnir annan hvern þriðjudag kl. 13.30 á þriðju hæð í Valhöll, Háaleitisbraut 1, og lýkur um kl. 15:00.


Athugið! Fræðslufundirnir eru ókeypis


Þú getur skráð þig í afgreiðslu Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar, í síma 581 3855 eða á netfanginuThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

 

Kristján Sverrisson nýr forstjóri Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra skipaði þann 5. júlí s.l. Kristján Sverrisson forstjóra Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands að undangengnu mati hæfnisnefndar. 


Kristján stundaði nám í viðskiptafræði og síðar íslensku við Háskóla Íslands, einnig stundaði hann nám í rússnesku og kennslu og uppeldisfræðum. Kristján hefur starfað í lyfjaiðnaðinum, bæði hérlendis og erlendis, meðal annars sem framkvæmdastjóri Glaxo Wellcome ehf. á Íslandi 1997-1999, í Finnlandi 1999-2001, markaðsstjóri hjá GlaxoSmithKline í Svíþjóð 2001-2002 og forstjóri Balkanpharma í Búlgaríu 2002-2004. Á árunum 2003 – 2005 var Kristján yfirmaður sölu og markaðsmála hjá Actavis og sá m.a. um þróun og innleiðingu alþjóðlegrar markaðsstefnu fyrirtækisins. Frá 2006-2012 rak Kristján eigið fyrirtæki (Aspirata OOD), við öryggisþjónustu og ráðgjafastörf og sem framkvæmdastjóri B.G. Global Services Ltd. sem sinnir alhliða Internetþjónustu við lyfjabúðir.


Kristján er kvæntur Ernu Svölu Ragnarsdóttur og eiga þau 3 börn en að auki á Kristján eina dóttur af fyrra sambandi. Kristján er Vesturbæingur og KR-ingur í húð og hár, hvort sem fólk telur það nú kost eða löst.


En gefum Kristjáni orðið:

„Ég er mjög ánægður með að vera kominn til starfa hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Hér fer fram geysi umfangsmikið og merkilegt starf sem þjónar þúsundum Íslendinga. Heyrnarskerðing, heyrnarleysi og talmein eru stærra vandamál en margan grunar. Sívaxandi fjöldi Íslendinga þarf á heyrnartækjum að halda til að geta tekið fullan þátt í daglegu lífi og störfum. Aldurssamsetning þjóðarinnar á aðeins eftir að auka þessa þörf hröðum skrefum. Kuðungsígræðslur seinni ára eru hrein bylting og kraftaverki líkastar að mínu mati.

Ég tel enn mikið starf óunnið í sambandi við fræðslu og meðferð og ég er spenntur fyrir því að fá að leggja mitt lóð á vogarskálarnar hvað það varðar. Hér á Heyrnar- og talmeinastöðinni starfar einstaklega kraftmikið og jákvætt fólk sem hefur mikinn metnað til að bæta þjónustu við viðskiptavini. Samstarf við Landspítala og Háskóla Íslands er með miklum ágætum og vonandi getum við aukið enn við rannsóknir, fræðslu og þjónustu. Þá geri ég mér vonir um nánara samstarf við öll þau félagasamtök og einstaklinga sem vinna að málefnum þeim sem HTÍ sinnir“, segir Kristján að lokum. 

Við bjóðum hann velkominn til starfa.

 

Vekjum athygli á áhugaverðri grein eftir Teit Guðmundsson lækni um heyrnartap. Greinin birtist í Fréttablaðinu þann 27.ágúst síðastliðinn.

Hlekkur á greinina Heyrnartap 

Hér fyrir neðan er hlekkur (link) á umræðu Teits og útvarpsmanna á Bylgjunni um efni greinarinnar:

Umræða á Bylgunni

 

Öryrkjabandalag Íslands, Rannsóknarsetur í fötlunarfræðum og Félag um fötlunarransóknir ætla að standa fyrir fjórum málþingum um mannréttindi í daglegu lífi fatlaðs fólks á Grand hóteli veturinn 2013-2014.

Málþingin verða haldin dagana: 

27. september 2013 - Aðgengi og algild hönnun
29. nóvember 2013 - Fjölskyldulíf og fötlun
7. febrúar 2014 - Sveitarfélög og fatlaðir íbúar
28. mars 2014 - Fötlun og menning


Sjá nánari upplýsingar á vef Öryrkjabandalags Íslands:

Miðvikudaginn 13. mars klukkan 19:00 verða sjónvarpsfréttir RÚV sendar út með texta. Í fréttum segir að stefnt sé að því að allt efni á vegum fréttastofunnar verði textað, líka beinar útsendingar. Á vefsíðu RÚV verður hægt að hlusta á talgervlana Dóru og Karl lesa þann texta sem þar er birtur. Í byrjun verður textunin bundin við aðalfréttatímann en síðar tekin upp í tíufréttum og öðrum fréttatengdum þáttum. Óðinn Jónsson, fréttastjóri RÚV, segir í sömu frétt að lengi hafi verið stefnt að því að bæta þessari þjónustu við fréttamiðlun RÚV og til dæmis verði umræðuþættir í aðdraganda kosninganna í vor textaðir.

heyrnin-fyrsta-skilningarvitid