Fréttir

Íslensk rannsókn hefur sýnt að eldri menn með heyrnartap hafa hækkaða dánartíðni. Notendur heyrnartækja sýna hins vegar svipaða dánartíðni og aðrir.

Vísindamenn hafa rannsakað tengsl milli heyrnar- og sjónskerðingar og dánartíðni. Könnunin sýnir að eldri menn með heyrnarskerðingu, eða samsetta heyrnar- og sjónskerðingu, eru líklegri til að deyja innan fimm ára tímabils en aðrir.

Meiri áhætta

Samanborið við karla án heyrnar- eða sjónskerðingar mælast menn með bæði heyrnar- og sjón- skerðingu með aukna hættu á að deyja af ólíkum orsökum, en menn sem einungis höfðu heyrnartap voru með auknar líkur á að deyja úr hjarta- og æðasjúkdómum en aðrir hópar.Meðal fólks með heyrnarskerðingu eða samsetta heyrnar- og sjónskerðingu, voru notendur heyrnartækja að jafnaði eldri og með alvarlegra heyrnartap. Á hinn bóginn voru heyrnartækjanotendur almennt í verulega minni hættu á að deyja en þeir sem ekki nota heyrnartæki.

Konur

Í könnuninni var ekki hægt að finna tölfræðilega marktæk tengsl milli heyrnartaps eða sjónrænnar skerðingar og dánartíðni meðal kvenna.
Rannsóknin náði til 4.926 íslenskra einstaklinga á aldrinum 67 eða eldri. Meðal þátttakenda voru 25,4% með heyrnarskerðingu, 9.2 % höfðu sjónskerðingu og 7% höfðu bæði sjón- og heyrnarskerðingu.
Könnunin „Skerðing á heyrn og sjón og áhrif á dánartíðni hjá eldri fólki : AGES - Reykjavik Study" var birt í tímaritinu Age and Ageing, Oxford Journals, í ágúst 2013.

Heimildir: http://ageing.oxfordjournals.org og www.ncbi.nlm.nih.gov

Rannveig Magnúsdóttir skrifar athyglisverða grein í Fréttablaðið 6. desember síðast liðinn.

Þar segir hún meðal annars: 

„Fjöldi heyrnarskertra og þeirra sem þurfa á textavarpi að halda er talinn vera um 40 - 50.000 manns og fer ört vaxandi. Hvernig getur RÚV tekið sér það vald að velja og hafna fyrir heyrnarskerta? Hvernig getur það viðgengist hjá ríkisreknum fjölmiðli á borð við RÚV að beinlínis valda einangrun heyrnarskertra, rétt eins og um sakamenn sé að ræða?

Hægt er að skoða greinina með því að smella hér.

 

Of feitir unglingar eru líklegri til að verða fyrir heyrnartapi en jafnaldrar þeirra

Unglingar sem glíma við offitu eru næstum tvisvar sinnum líklegri til að þróa lágmarks - hátíðni heyrnarskerðingu, samkvæmt rannsókn frá Medical Center Columbia University.

Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að 15,16% af offitusjúklingum á unglingsaldri, (skilgreindir með líkamsþyngdarstuðul (BMI ) yfir 95 hundraðshlutamörk), þjáðust af samskonar „sensorineural heyrnarskerðingu." Til samanburðar voru aðeins 7.89% unglinga í meðalþyngd (samanburðarhópurinn) heyrnarskertir.

„Þetta er fyrsta rannsókn sem sýnir að offita tengist heyrnarskerðingu hjá unglingum," sagði aðalhöfundur rannsóknarinnar, Anil K. Lalwani, prófessor á skurðdeild háls- nef og eyrnadeildar Háskólasjúkrahússins í Columbia University í Bandaríkjunum.

Regluleg skimun heyrnar er nauðsynleg

Niðurstöðurnar sýna hversu fljótt skaði á innra eyra getur leitt til heyrnarmissis þegar of feitir unglingar halda áfram að vera of feitir þegar komið er á fullorðinsaldur. Lalwani mælir með reglulegri skimun heyrnar hjá offitusjúklingum á unglingsaldri.

„Fyrri rannsóknir hafa sýnt að 80% heyrnarskertra unglinga voru ómeðvitaðir um eigin heyrnarskerðingu. Því ættu unglingar sem glíma við offitu að fá reglulega heyrnarskimun svo hægt sé að meðhöndla þá á viðeigandi hátt til að forðast andleg vandamál og hegðunarvandamál" leggur Lalwani til.

Um rannsóknina

Lalwani og samstarfsmenn hans greindu gögn úr National Health & Nutrition Survey sem unnin var af National Center for Statistics Health of the Centers for Disease Control and Prevention á árunum 2005 og 2006. Rannsóknin náði til 1.500 unglinga, á aldrinum 12-19 ára, sem svöruðu spurningum um persónulega- og fjölskyldusjúkrasögu, hvaða lyf þeir tækju, reykingar, félagslega þætti og sögu um útsetningu fyrir hávaða.

Heimildir : www.medicaldaily.com og www.news-medical.net

Málhelti og málstol af völdum sjúkdóma er eitt af viðfangsefnum talmeinafræðinga. Fjölmargir Íslendingar glíma við þessa fötlun til skemmri eða lengri tíma. Við vekjum athygli á góðri grein séra Baldurs Kristjánssonar sem birtist í Fréttablaðinu laugardaginn 16.nóvember. Þar fjallar Baldur um þá fordóma sem hann hefur sjálfur orðið var við gegn málhöltum. En gefum Séra Baldri orðið:

Í dag hefst Kirkjuþing hinnar íslensku þjóðkirkju sem í sjálfu sér er ekki í frásögur færandi. Ég sem fulltrúi vígðra manna í Suðurprófastsdæmi hyggst sitja þingið. Það er þó ekkert sjálfsagt.

Ég fékk heilastíflu, slag eða heilablæðingu eða hvað við eigum að kalla það í febrúar sl. Ef ekki væri fyrir hárrétt viðbrögð dóttur minnar 9 ára, starfsfólks sjúkrabíls, starfsfólks og lækna á taugadeild og taugaskurðdeild Fossvogsspítala væri ég búinn að vera dauður lengi. Síðan tók við frábær umönnun Grensáss og síðar nærsamfélags.

Ég virðist ætla að ná bærilegri heilsu þó vafi leiki á einu, tali, og þá kem ég að þeirri framhleypni minni að ætla að mæta á vinnuþing og málþing kirkjunnar sem fulltrúi altalandi fólks.

Skylt er að taka það fram að það virðist vera hluti af meðferðinni að telja sjúklingum trú um að þeir geti mikið og geti meira fljótlega. Þannig hef ég alltaf staðið í þeirri trú að ég yrði altalandi fljótlega. Slík trú heldur í manni lífinu.

Á hverju ári fá 400 Íslendingar slag (samheiti), rúmlega einn á dag. Margir þeirra verða málstola um lengri eða skemmri tíma.

Fyrir utan þá sem veikjast eiga margir erfitt um mál. Eru með einhverjum hætti málhaltir. Þá eru ótaldar allar þær milljónir sem búa þar sem móðurmál þeirra er ekki viðurkennt. Á Íslandi einu tugþúsundir. Allt þetta fólk býr við þau ósköp að geta ekki tjáð sig nema þá hægt og "illskiljanlega".

Mínir eigin fordómar. Er það ekki svo, Baldur, að þú hugsar hægar og ógreinilegar og þess vegna talar þú svona hægt? spurði mig hreint út vel meinandi og vel gerður maður og þá runnu upp fyrir mér mínir eigin fordómar. Fólk setur nefnilega samasemmerki milli málhraða (tækni) og greindar eða færni. Sá sem ekki talar af færni er illa gefinn, hvort sem það er málstol af völdum heilaröskunar eða vegna skorts á móðurmáli.

Þetta fólk dregur sig því í hlé smám saman, stór hluti af því.
"Hefurðu látið einhvern úr fjölskyldunni sýna þér þetta, vinur?" er svarið sem ég fæ frá vel meinandi ráðgjafa hjá símafyrirtæki. Viðmót fólks snarbreytist þegar maður fer að tala og sæmdarheitið "vinur" verður áberandi. Fólk vill vera gott við mann. Það rann upp fyrir mér að ég hef haft svipaða afstöðu til fólks.

Lagt greind og málfærni að jöfnu.

Það er lágmark að fólk sé meðvitað um þetta. Útlendingar eru að jafnaði eins vel gefnir og innfæddir. Þeir sem verða fyrir heilaröskun missa ekki hæfileikann til rökréttrar hugsunar þó að hæfileikinn til tjáskipta skerðist oft tímabundið og þá oft vegna talfæra eða boða til þeirra. Hjá sjálfum mér hefur gerst það sama og hjá mörgum öðrum. Samfara æfingum hefur greindarvísitala mín hækkað. Óþarfi að liggja á því.
Ég mun því sitja kirkjuþing sem fulltrúi vígðra í Suðurkjördæmi en einnig sem fulltrúi allra þeirra sem ekki geta tjáð sig eins og áður. Fulltrúi þeirra málhöltu. Ég vona að sem flestir þeirra komi sem oftast og sem mest fram í dagsljósið. Ég er laus við fordóma í garð þeirra sem tala hægt eða ógreinilega. Það er frekar að ég hafi komið mér upp fordómum í garð þeirra sem tala of hratt. En það er efni í aðra grein.

7% ungra Norðmanna sem ganga í herinn þjást af heyrnarskerðingu

Skýrsla gefin út á vegum norska hersins bendir til þess að fjöldi nýliða í hernum með heyrnarskerðingu hafi hækkað úr 1% árið 2008 í 7% árið 2012.

Orsakir eru óljósar

Ástæðan fyrir þessum skyndilega vexti í fjölda tilvika er enn óljós að sögn lækna sem framkvæmdu rannsóknina á árunum 2008 til 2012.

„Á meðan á rannsókn stóð gátum við séð að blóðþrýstingur og líkamsþyngdarstuðull (BMI) nýliða lækkuðu sem gefur til kynna að þeir séu í betra formi en þeir voru áður. Hins vegar höfum við tekið eftir ótrúlegum breytingum á heyrn hermanna," útskýrði Einar Kristian Borud, ráðgjafi heilbrigðisdeildar hersins (FSAN).

Háværir tónlistarspilarar gætu verið hluti af skýringunni

Notkun MP3 spilara og farsíma gæti verið meðal ástæðna fyrir auknum fjölda tilvika heyrnarskerðingar, samkvæmt Anders Hegre, forstjóra samtaka heyrnarskertra í Noregi (HLF).
„Í dag sjáum við hversu margir það eru sem ganga stöðugt um með tónlist í eyrunum, annað hvort frá farsíma eða MP3 tækjum. Þetta getur skaðað heyrn ef ekki er farið varlega," heldur Hegre áfram.
600.000 Norðmenn þjást af heyrnarskerðingu. 25.000 af þeim eru á aldrinum 20 til 34 ára.

Sjá meira : http://www.hlf.no

Í greinargerð um „Heilsufar og heilbrigðisþjónustu aldraðra á Íslandi, nú og í framtíð," sem unnin var fyrir stýrihóp heilbrigðisráðuneytisins 2001 um stefnu í málefnum aldraðra næstu 15 árin var eftirfarandi texta að finna um vandamálið heyrnarskerðingu:

„Heyrnarskerðing hefur áhrif á 30% fólks á aldrinum 65-70 ára og yfir 40% þeirra sem eru 75 ára og eldri. Heyrnartap skerðir mjög samskiptafærni og þar með lífsgæði.“

Svo mörg voru þau orð. Nákvæmlega svo mörg orð. Og þetta var greinargerð upp á 17 blaðsíður!
Þarna kemur vissulega fram að Heyrnarskerðing aldraðra er stórt vandamál en hitt er sláandi, að varla sé hægt að finna alvöru stefnumörkun um hvernig íslensk heilbrigðisyfirvöld ætla sér að taka á þessum vanda sem vex stöðugt með síhækkandi aldri Íslendinga og hækkuðu hlutfalli eldri borgara.
Heyrnar- og talmeinastöð mun reyna að vekja athygli á þessum málaflokki á næstu misserum og auglýsir eftir öllum þeim sem leggja vilja okkur lið.

Tengsl eru á milli ómeðhöndlaðrar heyrnarskerðingar og lakari líkamlegrar og andlegrar heilsu hjá öldruðum, sýnir nýleg rannsókn.

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem gerð var á Johns Hopkins sjúkrahúsinu í Bandaríkjunum eru aldraðir, með ómeðhöndlaða heyrnarskerðingu, líklegri til að krefjast innlagnar á sjúkrahús og þjást oft af óvirkni og þunglyndi. Rannsóknin sýndi fram á tengsl milli heyrnartaps og verri líkamlegrar og andlegrar heilsu hjá öldruðum.

Félagsleg einangrun

Í rannsókninni kom í ljós að aldraðir með ómeðhöndlaða heyrnarskerðingu eru 32% líklegri til að hafa verið lagðir inn á sjúkrahús, 36% líklegri til að kljást við önnur veikindi eða meiðsl og 57% líklegri til að þjást af mikilli streitu, þunglyndi og öðrum skapbrestum, samanborið við jafnaldra þeirra með eðlilega heyrn.
Sérfræðingar, meðal annars við Johns Hopkins sjúkrahúsið, hafa á undanförnum árum lagt fram tilgátu um að tengsl séu á milli þess hvernig líkamlegri og andlegri heilsu hraki hjá öldruðum með heyrnartap og félagslegrar einangrunar sem oft komi í ljós eftir því hversu lengi heyrnartap fái að versna ómeðhöndlað. Áhrif félagslegrar einangrunar geti síðan leitt til tíðari sjúkdóma og að lokum innlagnar á sjúkrahús.

 „Heyrnartap getur haft djúpstæð og slæm áhrif á líkamlega og andlega líðan aldraðra og jafnvel íþyngt heilbrigðiskerfinu verulega," sagði Frank Lin, MD., Ph.D., einn forvígismanna rannsóknarinnar og sérfræðingur í heyrnarfræði og sóttvörnum hjá Johns Hopkins sjúkrahúsinu.  „Niðurstöður okkar ættu að undirstrika hvers vegna heyrnarskerðing á ekki að teljast ómerkilegur hluti öldrunar heldur afar mikilvægt málefni fyrir lýðheilsu."

„Þeir sem ákvarða stefnu stjórnvalda í heilbrigðismálum þurfa virkilega að íhuga heyrnarskerðingu og heilsutengd áhrif hennar á breiðari grundvelli þegar ákvarðanir eru teknar, sérstaklega fyrir eldra fólk," sagði Dane Genther, MD, sem leiddi rannsóknarteymið.

Notkun heyrnartækja gæti hjálpað

Vísindamenn við Johns Hopkins eru nú að skoða hvort meðhöndlun heyrnartaps með heyrnartækjum eða öðrum hjálpartækjum geti í raun dregið úr hættu, t.d. á vitglöpum.

Heimild : www.union-bulletin.com og http://www.stlamerican.com

Starfsfólk Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar klæddist að sjálfsögðu bleiku á Bleika deginum 11. október í þeim tilgangi að vekja athygli á baráttunni gegn krabbameini hjá konum.

Ekki áttu allir starfsmenn eitthvað bleikt til að fara í en með því að beita öllum tiltækum ráðum og gefa hugmyndafluginu lausan tauminn vakti útkoman mikla kátínu, bæði meðal starfsmanna og þeirra sem heimsóttu okkur þann daginn.

 

bleiki2013

 


EH heimsókn þjónustustofnanir sept 2013-minni

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur falið verkefnisstjórn að meta mögulegan ávinning af sameiningu þriggja stofnana sem sinna sérhæfðri þjónustu við fatlað fólk. Þetta eru Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga og Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

 

Lesa frétt hjá Velferðaráðuneytinu.

Heyrnar-og talmeinastöð gefur út nýtt efni.

Talmeinafræðingarnir Þóra Másdóttir og Hrafnhildur Halldórsdóttir hafa tekið saman orðalista sem inniheldur orð sem raðað er eftir málhljóðum. Um er að ræða 130 blaðsíðna hefti sem gagnast til dæmis í vinnu með börnum í leik- og grunnskóla hvort heldur sem unnið er með framburð, málþroska og/eða orðaforða. Orðalistarnir nýtast einnig í vinnu með fullorðnum einstaklingum sem þurfa að æfa framburð hljóða og orða.

Hljóðabelgur skiptist í sjö kafla; Stök málhljóð í framstöðu, innstöðu og bakstöðu. Samhljóðaklasa, bæði framstöðu-og innstöðuklasa. Lágmarkspör, sérhljóð, orð röðuð eftir orðalengd og að lokum nokkrar hljóðaþrautir.

Heimilt er að ljósrita listana.

Verðið er 4.500 krónur og hægt er að nálgast eintak á HTÍ