Fréttir

noise induced hearing loss utihatið

Nú er að bresta á tími tónlistarhátíða utanhúss víða um landið. Á slíkum hátíðum er hljóðstyrkur hljómkerfa oft keyrðu úr hófi og því ágætt að minna hátíðargesti á að gera nauðsynlegar varúðarráðstafanir.

Verndum eyrun og heyrnina !

Flestir kannast við að hafa hellur fyrir eyrum og jafnvel viðvarandi són í eyrum í einhvern tíma eftir að komið er út af tónleikum háværra hljómsveita og plötusnúða. Sýnt hefur verið fram á bein tengsl hávaða við skemmdir í innra eyra og meðfylgjandi heyrnartap.

Á mörgum tónleikum fer hávaði upp í 80-90 dB í lengri tíma og rannsóknir sýna að einungis stuttan tíma þarf í slíkum hávaða til að hljóta viðvarandi heyrnarskaða.

Í öllum lyfjaverslunum og víðar má kaupa þægilega eyrnatappa sem sjálfsagt er að stinga í eyrun á slíkum tónleikum ef að þér þykir hávaðinn óþægilegur. Verndum heyrnina og njótum tónlistarinnar alla ævi!

 

 

15.júní 2018

hearing impaired theater audienceÍ nýlegri erlendri rannsókn voru heyrnarskertir einstaklingar spurðir um upplifun sína af því að sækja leiksýningar og tónleika. Niðurstöður voru sláandi: 94% heyrnarskertra sögðu fötlun sína leiða til slæmrar eða mjög slæmrar upplifunar af slíkri dægradvöl. Margir heyrnarskertra hætta að sækja viðburði og skemmtanir sem eykur félagslega einangrun þeirra.

Nær allir heyrnarskertra leikhúsgesta eru óánægðir

Rannsóknin, sem framkvæmd var í Englandi, náði til 143 heyrnarskertra einstaklinga með mismunandi slæma heyrnarskerðingu, allt frá vægu til verulegs heyrnartaps. Og niðurstöður sýna að rúmlega 9 af hverjum 10 telja heyrnarskerðingu sína koma í veg fyrir að þau geti notið sýninga og tónleika sem skyldi.  Að auki sögðu 83% þeirra að ekki hefði verið til staðar neinn hjálparbúnaður til að gera heyrnarskertum kleift að heyra betur hvað fram fór.

Bætt aðgengi

Aðspurðir lögðu heyrnarskertir fram ýmsar hugmyndir um hvernig hægt væri að bæta upplifun þeirra af leiksýningum og tónleikum og það án verulegrar fyrirhafnar eða kostnaðar fyrir þá sem standa fyrir slíkum viðburðum.  Þannig töldu 73% að með því að draga úr bakgrunnstónlist þegar talað er eða bæta hljóðvist mætti bæta upplifun þeirra.

Tveir af hverjum þremur (66%) nefndu hjálparbúnað s.s. tónmöskva og FM búnað sem hægt er að fá lánaðan á sumum stöðum. Af þeim völdu 2/3, eða 77% þeirra sem nefndu hjálparbúnað, tónmöskva sem kjör-búnað þar sem hægt er að stilla flest heyrnartæki inn á slíkan búnað og fá öllu hljóði streymt í heyrnartækin. Tónmöskvar ná yfir afmarkað svæði og skapa segulsvið og innan þess útvarpast hljóð frá hljóðkerfum. Heyrnartækjanotendur þurfa þá aðeins að bóka sig á slík svæði eða finna þau svæði sem merkt eru, kveikja á T-spólu heyrnartækjanna og njóta síðan alls þess sem fram fer.

Á Íslandi eru nokkrar kirkjur með slíkan búnað og Þjóðleikhúsið, Borgarleikhúsið og Harpa bjóða upp á lausnir fyrir heyrnarskerta en mættu bæði auglýsa þjónustuna betur og bæta má búnað sumra þessara staða. Heyrnar- og talmeinastöð Íslands veitir ráðgjöf um margs konar hjálparbúnað fyrir heyrnarskerta og útvegar búnað frá erlendum framleiðendum. telecoil merki

Einfaldar breytingar geta skipt miklu máli

Rannsóknarfólkið spurði sérstaklega um reynslu heyrnarskertra af miðasölum, veitingasvæðum leikhúsa/tónleikahalla, samskipti við starfsfólk o.s.frv. Heyrnarskertir sögðu að auðvelt væri að kenna afgreiðslufólki hvernig best er að tala til heyrnarskertra, tala skýrt og greinilega og horfa í andlit þess heyrnarskerta um leið. Þetta einfalda ráð mundi létta heyrnarskertu fólki lífið mikið.

Þá lögðu heyrnarskertir til að veitingasvæði, matsölur og miðasölur drægju úr bakgrunnshávaða, s.s. tónlist og að bjóða upp á róleg og kyrrlát svæði þar sem hægt væri að halda uppi samræðum við vini og aðra gesti mundi einnig bæta upplifun heyrnarskertra gesta verulega.

Heimild: www.ideasforears.org.uk

 

Skráð: Júní 2018

 

Hvernig má greina byrjun heyrnarskerðingar hjá fullorðnum ?  Haaaaa

Hver eru helstu einkenni þess að heyrn er farið að hraka sökum aldurs?
Það eru vissulega ýmis merki sem vert er að gefa gaum.

Einkenni aldurstengds heyrnartaps

Aldurstengd heyrnarskerðing (presbycusis) þróast hægt og yfirleitt án stórra stökka og því gerum við okkur oft ekki grein fyrir því að heyrninni fer hrakandi eða hversu mikið henni hefur hrakað.

Hefðbundin einkenni:
Í flestum tilfellum leiðir aldurstengt heyrnartap til þess að við töpum færninni til að nema hljóð á hárri tíðni. Því eiga aldraðir oft erfitt með að greina viss hátíðnihljóð og vissar tegundir hljóða t.d. skærar kvenraddir, barnaraddir og viss málhljóð s.s  samhljóðana  s, t, k, p, b og f.

Annað dæmigert einkenni aldurstengdrar heyrnarskerðingar er að greina og skilja tal við erfið hlustunarskilyrði s.s. við mikinn bakgrunns-hávaða líkt og oft er í veislum, á fundum og ráðstefnum og á veitingahúsum, svo dæmi séu nefnd.

Venjuleg hljóð geta horfið

Heyrnarskertir hafa margir glatað mörgum algengum hljóðum úr umhverfi sínu.

Spyrjið ykkur sjálf: Hvenær heyrði ég síðast tíst í vorfuglunum? Heyri ég suð í ísskápnum, pípið í örbylgjuofninum eða vatnsnið úr krana?

Ef þessi hljóð eru dauf eða horfin er mögulegt að þú sért með einkenni aldurstengdrar heyrnarskerðingar.

Önnur einkenni og merki heyrnartaps:

  • Þú hækkar oft í útvarpi og sjónvarpi
  • Þú biður fólk ítrekað um að endurtaka það sem það segir
  • Þú heyrir illa í fólki sem er á bak við þig
  • Þú átt erfitt með að greina tal í síma
  • Þú heyrir ekki í dyrabjöllu eða símhringingar
  • Þér finnst sum hljóð mjög óþægileg
  • Eyrnasuð (tinnitus)

Heyrnarmæling ráðlögð

Ef þú telur að einhver ofangreindra einkenna geti átt við ástand þitt er ráðlegt að láta mæla heyrnina. Hægt er að bóka tíma í heyrnarmælingu hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands (sjá TÍMABÓKANIR á forsíðu vefsíðunnar eða í síma 581 3855) og þá bjóða margar heilsugæslustöðvar upp á einfaldari heyrnarmælingar, sem og söluaðilar heyrnartækja.

 

maí 2018

Heyrnarfræðingi HTÍ á Norðurlandi, Sofiu Dalman, er margt til lista lagt en hún er einnig sauðfjárbóndi í Skagafirði. Það er því nóg að gera á þessum árstíma og fyrstu lömbin litu dagsins ljós hjá Sofiu í byrjun maí, ljómandi fallegar gimbrar. Þær systurnar eru á myndinni með Sofiu (Sofia aftast til vinstri).

Sofia i saudburdi vor 2018

 

Við óskum Sofiu velfarnaðar í önnum sauðburðar.

 

 

 

 

 

 

 

maí 2018

proHear myndband

proHear myndband með íslenskum texta

Nýlega kynntum við samevrópska verkefnið ProHear sem mun kanna stöðu heyrnarskertra og heyrnarlausra á evrópskum vinnumarkaði og leitast við að þróa tillögur og verkfæri sem gætu bætt núverandi ástand.

Pólski samstarfsaðilinn framleiddi myndband á alþjóðlegu táknmáli og með enskri hljóðrás þar sem sagt er frá tilgangi og markmiðum proHear.

Nú hefur verið settur íslenskur texti við myndbandið svo að nú ættu flestir að geta kynnt sér þetta ágæta myndband og boðskap þess. Njótið!

 

Birt 16.apríl 2018

Signia Nx 1

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Heyrnartækjaframleiðandinn SIVANTOS (Siemens-heyrnartæki) fékk nýlega ítalskan myndlistamann, Guido Daniele, til að myndskreyta auglýsingar og markaðsefni fyrir nýjustu vörulínu heyrnartækja frá Siemens, SIGNIA Nx heyrnartæki.

Óhætt er að segja að útkoman sé stórfengleg. Heyrnartækin þykja endurskapa hjljóm á afar náttúrlegum hátt fyrir heyrnarskerta notendur og því leitaði listamaðurinn til náttúrunnar eftir fyrirmyndum. Hann kaus að velja litrík dýr úr náttúrunni og endurskapaði þau með því að mála dýrin á hendur fólks og hendurnar halda síðan á heyrnartækjunum.

Náttúra - hendur - handverk - heyrnartæki - handmálun - list

Sjón er sögu ríkari. Á meðfylgjandi myndbandi (klikkið á myndina hér að neðan) má sjá listamanninn að störfum við sköpun myndanna: 

Guido

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

og þá fylgja nokkrar myndir einnig með. Við fyrstu sýn heldur maður að dýrin séu raunveruleg en þegar betur er gáð sést að um mannshendur er að ræða. Snilldarvel gert !

Signia Nx 3Signia Nx 4

Signia Nx 2

eldri kona m heyrnartæki

Í þekktu tímariti um öldrunarfræði, Journal of Gerontology, birtist í janúar s.l. afar athyglisverð vísindagrein sem ber heitið:

Death, Depression, Disability, and Dementia Associated With Self-reported Hearing Problems: A 25-Year Study

Höfundar könnuðu, yfir langt tímabil, samband heyrnartaps og heyrnarleysis hjá fullorðnum og öldruðum með tilliti til ýmissa þátta og reyndu að komast að því hvort og hvernig heyrnartap hefði áhrif á líf og lífsgæði fólksins.

NIðurstöður eru afar merkilegar. Höfundar segja m.a. í niðurstöðum sínum:

"An increased risk of disability and dementia was found for participants reporting hearing problems. An increased risk of depression was found in men reporting hearing problems. In additional exploratory analyses, such associations were not found in those participants using hearing aids."

Heyrnartap hefur neikvæð áhrif á færni fólks, þunglyndi og elliglöp. Á hinn bóginn virtust þeir sem fengu meðferð við heyrnartapi sínu og nota heyrnartæki reglulega ekki verða fyrir sömu neikvæðu áhrifum. Þetta sýnir mikilvægi greiningar og endurhæfingar hjá heyrnarskertum á gamals aldri.

world hearing Day 2018 Hear the future

 

Á ári hverju, þann 3.mars nánar tiltekið, vekur Alþjóða heilbrigðismálastofnunin, WHO, athygli á heyrnarskerðingu og heyrnarleysi um heim allan. Umfang vandans og úrræði og hvernig ríkisstjórnir og almenningur getur aðstoðað við forvarnir, greiningu, meðferð og endurhæfingu.

Í ár, á World Hearing Day 2018, vill WHO vekja athygli á ógnvekjandi vexti fólks með heyrnarvandamál um heim allan undir slagorðinu “Hear the future”.

Helstu áherslur WHO þetta árið eru:

Mikil fyrirsjáanleg aukning í tíðni heyrnartaps á veraldarvísu á næstu árum (byggt á tölfræðilegum rannsóknum)

Átaks er þörf til að stemma stigu við þessari þróun með auknum og öflugum forvörnum

Brýnt er að tryggja aðgengi fólks að heyrnarbætandi aðgerðum, heyrnartækjum, hjálparbúnaði og endurhæfingu við hæfi.

WHO leggur einnig til hollráð til almennings og yfirvalda. Eftirfarandi tafla sýnir hvað almenningur þarf að hafa í huga hvað heyrn og heyrnarvernd gildir:

WHO forvarnir og urræði

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Og þegar að stjórnvöldum kemur þá er krafa Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar einnig skýr.

Stofnunin telur ekki nóg að gert hvað forvarnir, heyrnarvernd og velferðarþjónustu fyrir þann stóra hóp sem er að kljást við heyrnartap og heyrnarleysi:

WHO hvað geta yfirvöld gert

Felag talmfr feb18

 

Félag talmeinafræðinga á Íslandi verður með kynningu á störfum talmeinafræðinga á Snapchat næstu vikur. Talmeinafræðingar á HTÍ ríða á vaðið og kynna störf sín næstu daga. Þeir sem vilja fylgjast með þessum frábæru starfsmönnum okkar geta skannað inn meðfylgjandi mynd á snappið sitt eða slegið inn notendanafnið ialp2016

 

Eftirfarandi grein er birt með leyfi höfundar. Greinin birtist áður í Fréttablaðinu 21.febrúar s.l.

BjarteyÍ starfi mínu sem talmeinafræðingur verð ég vör við að orðaforði barna sem eiga íslensku sem móðurmál er að verða sífellt enskuskotnari. Mörg börn á leikskólaaldri eru jafnvel með sterkari orðaforða á ensku en íslensku. Við greiningu á málþroskavanda barna hitti ég stundum foreldra sem segja með nokkru stolti að orðaforði barnsins sé talsvert betri á ensku en íslensku og er ég þar að tala um foreldra sem eiga íslensku sem móðurmál. Leikskólakennarar tjá mér að það sé æ sjaldgæfara að inn í leikskólann komi tveggja ára börn með góðan orðaforða og aldurssvarandi tök á setningamyndun. Þeir geta einnig sagt sögur af börnum sem þrátta um það við kennarana sína hvaða nöfn ýmis fyrirbæri beri ,að þessi litur heiti black en ekki svartur og að dýrið heiti hippo en ekki flóðhestur.

En er þetta ekki bara í góðu lagi? Er ekki jákvætt að börnin nái snemma tökum á ensku og verði ,,tvítyngd”? Ef þetta væri ekki á kostnað móðurmálsins, þá væri svarið já. Það sem við sjáum hins vegar er að íslenskum orðaforða barnanna fer mikið aftur. Það er raunveruleg hætta á því að við séum að ala upp kynslóð barna sem talar tvö tungumál þar sem hvorugt málið er vel þróað. Varðandi börn sem eiga annað móðurmál en íslensku er staðan jafnvel enn verri þar sem ensk áhrif trufla máltöku þeirra á íslensku.

Íslenska skólakerfið er ekki búið að hafna íslenskunni, kennslan fer fram á íslensku og megnið af því lesefni sem nemendum er ætlað að lesa er á íslensku. Meðan svo er þurfa nemendur að vera með góðan aldurssvarandi íslenskan orðaforða. Bandarísk rannsókn (Hart og Risley, 1995) sýndi gífurlegan mun á orðaforða barna við þriggja ára aldur eftir því hversu mikið var talað við barnið og hvernig mál var haft fyrir barninu. Þessi mikli munur á orðaforða hafði forspárgildi um tungumálafærni barnanna við níu ára aldur. Í nýlegri doktorsrannsókn Sigríðar Ólafsdóttur (2015) kom fram að sterk fylgni er milli orðaforða og lesskilnings nemenda í 4. – 8. bekk. Það felur í sér að því öflugri sem orðaforði barnsins er við níu ára aldur því betri er lesskilningur þess. Rannsóknin sýndi einnig fram á að þessi fylgni helst  þar til barnið kemst á unglingsaldur. Barn með slakan orðaforða á íslensku á því mjög líklega eftir að lenda í miklum lesskilningsvanda, því góður orðaforði og málskilningur er undirstaða lesskilnings. Ef svo heldur áfram sem horfir gætum við átt von á enn frekara falli lesskilnings íslenskra nemenda í alþjóðlegum samanburðarrannsóknum með tilheyrandi námserfiðleikum og brottfalli úr skóla.

En hvað er þá til ráða? Þessari spurningu mætti svara með langri grein, en einfalda svarið er hins vegar: Ein árangurríkasta leiðin til að efla orðaforða barna, og þar með málskilning, er aukinn bóklestur. Talið við börnin ykkar og lesið fyrir þau daglega á íslensku. Forðist rafrænt afþreyingarefni þar sem allt fer fram á ensku en veljið í staðinn íslenskt efni.

Foreldrar, ykkar er valið. Hvort viljið þið heldur að barnið ykkar tali “krúttlega” ensku á yngri árum eða nái góðum tökum á móðurmálinu og verði í kjölfarið með góðan lesskilning og þar með góðar forsendur til frekara náms?

Höfundur er talmeinafræðingur og verkefnisstjóri læsisverkefnis hjá Fræðslu- og frístundaþjónustu Hafnarfjarðar.

Skráð 22.febrúar 2018