Fréttir

Mánudagurinn 11.febrúar er Dagur ÍTM, íslenska táknmálsins. Ýmsir viðburðir verða haldnir í kringum þessa dagsetningu til að fagna uppruna og þróun íslenska táknmálsins.

Málþing Málnefndar um íslenskt táknmál og Rannsóknastofu í tákmálsfræðum verður haldið mánudaginn 11. febrúar í stofu 023 (fyrirlestrarsal) í Veröld, Háskóla Íslands kl. 16:30-18:00. Dagskráin fer fram á íslensku og íslensku táknmáli. Málþingið ber yfirskritina: Íslenskt táknmál: Fortíð, nútíð og framtíð. Þar verða m.a. flutt erindi um uppruna og þróun íslenska táknmálsins og stöðu þess í sambandi við snjalltæki samtímans.
Nánari dagskrá má finna á https://www.hi.is/vidburdir/islenskt_taknmal_fortid_nutid_framtid

 

RÚV mun á Degi íslenska táknmálsins senda út KrakkaFréttir túlkaðar á táknmál og auk þess mun Stundin okkar verða táknmálstúlkuð sunnudaginn 17.febrúar.

 

SignWiki:  Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra starfrækir þekkingarbrunninn SignWiki um íslenskt táknmál. Inni á http://signwiki.is má finna ýmiss konar efni, m.a. vinsæl tákn, kennsluefni, orðabók, fræðslu- og skemmtiefni sérstaklega unnið í tilefni dagsins (undir heitinu Dagur ÍTM) og margt fleira fróðlegt og áhugavert efni um íslenska táknmálið. Þetta efni geta skólar og aðrir nýtt sér í tengslum við dag íslenska táknmálsins 11. febrúar. Þá hefur Samskiptamiðstöð útbúið kennsluefni, sem sýnir þróun íslensks táknmáls og gömul íslensk tákn, handa táknmálstalandi grunnskólabörnum

 

Fyrirlestur verður haldinn í Félagi heyrnarlausra, Þverholti 14, 3.hæð, föstudaginn 15.febrúar kl.9-10.30. Fjallað verður um stöðu og aðstæður heyrnarlausra og heyrnarskertra barna í leik- og grunnskólum á Norðurlöndum. Aðalfyrirlesari verður Prófessor Patrick Kermit frá Noregi.
Nánari upplýsingar má finna á  http://www.deaf.is/frettir-og-vidburdir/vidburdir/fyrirlestur-i-felagi-heyrnarlausra-fostudaginn-15.februar-kl.9-10.30.

 

birt á vefsíðu: 11.febrúar 2019

RUV jan19 Hafa ekki íslenskukunnáttu í samræmi við aldur

Í nýlegu sjónvarpsviðtali í Silfri Egils á Ríkisútvarpinu ræddi Elín Þöll Þórðardóttir, prófessor í málvísindum við McGill háskóla í Montréal í Kanada, um þann sívaxandi vanda að íslenskukunnátta barna sem eiga erlenda foreldra sé ekki nógu góð. Rannsóknir hafi sýnt það síðustu ár. Þau standa höllum fæti í samanburði við jafnaldra sína og fái því ekki jöfn tækifæri.

Horfa má á þáttinn með því að smella á myndina hér að ofan eða HÉR.

Heyrnar- og talmeinastöð Íslands hefur gefið út nýtt málþroskapróf; Málfærni ungra barna (MUB), ætlað börnum á aldrinum 2-4ra ára.

MUB auglýs

Prófið er greiningartæki fyrir talmeinafræðinga til að staðfesta eða útiloka frávik í málþroska. MUB hefur verið í vinnslu frá árinu 2009 og er staðlað á íslenskum börnum. Prófið kemur í handhægri tösku með myndabók og prófgögnum.  
Skorblöð og handbók eru á rafrænu formi sem hægt er að nálgast á heimasíðu Heyrnar – og talmeinastöðvar Íslands www.hti.is.  

Hægt er að panta prófið með því að senda tölvupóst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.  

Verð: 38.000 kr. m/vsk.  

Nýju tækin frá Sivantos heita Signia STYLETTO og eru bylting í hönnun heyrnartækja.

Í fyrsta sinn bjoðast heyrnartæki með nýju útliti, glæsileg og stílíseruð heyrnartæki. Hleðslrafhlöður og þægilegt hleðslutæki tryggja að aldrei þarf að skipta um rafhlöður.
Hleðslutækið er hlaðið í venjulegu rafmagni og hleðslan dugar til að hlaða heyrnartækin þrisvar sinnum.Styletto 1

 

Hönnuðir nýju tækjanna ákváðu að hlusta á notendur sem vildu sjá nýja nálgun í hönnun. Með nýrri tegund lithium hleðslurafhlaða var hægt að víkja frá því staðlaða útliti heyrnartækja sem tíðkast hefur síðustu áratugi þar sem ávallt þurfti að gera ráð fyrir rafhlöðuhólfi fyrir kringlóttar rafhlöður.

Nú eru mjóar og langar hleðslurafhlöður innbyggðar í tækin sem gerir framleiðanda kleift að hafa tækin mjórri og nýtízkulegri í útliti.

Signia STYLETTO tækjunum fylgir einstaklega þægilegt og notadrjúgt hleðslutæki sem einnig er geymsluhólf fyrir heyrnartækin. Hægt er að hlaða heyrnartækin allt að 3svar sinnum með þeirri hleðslu sem hólfið býr yfir og taka hleðsluhólfið með sér hvert sem farið er. Með einföldum hleðslubanka (líkt og fólk notar fyrir farsíma) er síðan hægt að endurhlaða Signia hleðslutækið til viðbótar. Myndband um hleðslu STYLETTO heyrnartækja.

Signia Styletto tækin eru aðeins seld sem par af tveimur tækjum með meðfylgjandi hleðslutæki og tækin fást í þremur fallegum litasamsetningum sem sjást hér að neðan.

Styletto 3 litir

 

 

 

 

 

Allar frekari upplýsingar veita heyrnarráðgjafar okkar.

Heyrnar-og talmeinastöð Íslands - janúar 2019

Jolin2017

 

Opnunartímar HTÍ um jólin!

 

Starfsstöð HTÍ í Reykjavík er opin til kl 16 á föstudag 21.desember.

LOKAÐ verður 24.-26.desember.
Opið verður 27. og 28.desember (fim-fös) frá kl 9-15:30 báða dagana.

Engin móttaka verður á Akureyri yfir hátíðar en fyrsti starfsdagur er 3.janúar.

Starfsfólk HTÍ óskar viðskiptavinum sínum og Íslendingum öllum gleðilegra jóla og góðrar heyrnar- og talheilsu á nýju ári !

Gleðilega HTÍð !

Samantekt á niðurstöðum 11 vísindarannsókna sýnir svo ekki verður um villst að bein tengsl eru milli heyrnarskerðingar og aukinnar áhættu á vitrænni hrörnun.

gömul kona öldrun
Nýlega fór fram samanburður á fjölda eldri rannsókna sem varða tengsl heyrnartaps og vitrænna glapa (ellihrörnunar).
Niðurstöður sýna að aldraðir með verulega skerta heyrn sýndu greinileg tengsl milli vitrænna glapa og alvarleika heyrnarskerðingarinnar (um 30% tíðni hjá illa heyrandi, sem er 1,29 sinnum hærri tíðni en hjá heyrandi jafnöldrum).
Eftirfylgni 6 árum síðar sýnir að áhættan hefur aukist um nærri 60% ( 1,57 sinnum hærri tíðni vitrænna glapa hjá þeim heyrnarskertu). Verst heyrandi hópurinn er í áhættu sem er 320% (3,21 sinnum hærri líkur) en hjá vel heyrandi jafnöldrum.

Mismunandi áhætta eftir alvarleika heyrnartaps

Við heyrnartap yfir 40 desibilum (dB HL) við loftleiðnimælingu (pure-tone average, PTA) á tíðnum  0.5, 1, 2, og 4 kHz s (meðalslæm heyrnarskerðing), er áhætta á vitrænum glöpum aukin um 29 – 57% í samanburði við fullheyrandi jafnaldra.

Hjá eldri einstaklingum með vægari heyrnarskerðingu (yfir 25 dB) er áhættan einnig töluverð eða um 30% eða 1,29 sinnum hærri en hjá heyrandi jafnöldrum.

Tengsl heyrnartaps og versnandi lífsgæða eldra fólks eru löngu sönnuð og nú hrannast upp sannanir þess að slæm heyrn geti leitt til hraðari vitrænna glapa og ellihrörnunar hjá öldruðum. Nauðsynlegt er að meðhöndla betur heyrnarskerðingu hjá öldruðum og gildir það ekkert síður á Íslandi.

Um rannsóknina

Í rannsókninni voru bornar saman niðurstöður úr 11 eldri rannsóknum sem fundust í gagnagrunnum  PubMed og Embase.

Niðurstöður birtust í greininni: “The risk of cognitive impairment associated with hearing function in older adults: a pooled analysis of data from eleven studies” í vísindatímaritinu Scientific Reports.

Heimild:  www.hear-it.org

4.desember 2018 - vefsíða HTÍ

ánægðir heyrnartækjanotendur Alltaf vex hlutfall þeirra heyrnarskertu einstaklinga sem nota heyrnartæki reglulega og sífellt fleiri fá sér heyrnartæki á bæði eyru en áður var.

Um leið vex ánægja notenda með heyrnartæki.

EuroTrak er neytendakönnun sem fylgst hefur með þróun þessara mála í fjölda Evrópulanda allt frá árinu 2009. 

Notkun heyrnartækja eykst hratt í Evrópu

Skv könnun EuroTrak hefur fjöldi þeirra sem segjast vera heyrnarskertir nokkurn veginn staðið í stað á þessu tímabili. Þannig sögðust 13.1% fullorðinna (18 ára og eldri) á árinu 2009 vera með skerta heyrn. Í nýjust könnun á þessu ári, 2018 er 12.7% aðspurðra.

En á sama tíma hefur hlutfall heyrnarskertra Evrópubúa sem segjast nota heyrnartæki vaxið marktækt eða frá 33.1% árið 2009 til 41.6% á þessu ári (2018). Og hlutfall þeirra sem nota tæki fyrir bæði eyru hefur einnig vaxið  verulega eða úr 55% í 67% á milli áranna 2009-2018.

 

Ánægja heyrnartækjanotenda eykst.

Sífellt fleiri notendur lýsa ánægju með heyrnartæki sín.

 • Hlutfall heyrnartækjanotenda sem telja heyrnartækin virka vel í hópsamræðum vex úr 63% í 71%.
 • Hlutfall notenda sem telja tækin virka vel í símtölum hækkar úr 61% í 74%
 • Hlutfall notenda sem telja heyrnartæki virka vel á samkomustöðum (fundum, leikhúsum o.fl) hækkar úr 62% í 72%
 • Heildartala ánægðra með frammistöðu heyrnartækja í háværu umhverfi eykst úr 54% í 67%
 • Ánægja með útlit og virkni heyrnartækja vex úr 70% í 80% milli áranna
 • Hins vegar fækkar í hópi þeirra sem finnst óþægilegt að vera með tæki eða skammast sín fyrir heyrnartækin. Sú tala fer úr 56% á árinu 2009 og niður í 30% fólks í ár, sem er mjög gott.

Um EuroTrak könnunina

EuroTrak rannsóknir hafa verið í gangi í fjölda Evrópulanda allt frá árinu 2009. Síðasta könnun var framkvæmd á þessu ári, 2018. Framkvæmdaraðili er svissneskt markaðsrannsóknafyrirtæki, Anovum, fyrir hönd EHIMA, European Hearing Instrument Manufacturers Association, samtök evrópskra heyrnartækjaframleiðenda.

Ítarlegar upplýsingar um rannsóknarniðurstöður má finna á heimasíðu EHIMA: www.ehima.com

Heimild: www.ehima.com   www.hear-it.org

27.nóv 2018 – www.hti.is

( þýdd grein eftir Debbie Clason af vefsíðu Healthy Hearing)

Ertu að hugsa um að fá þér stóran kaffibolla til að vakna betur daginn eftir hljómleikana?
Kannski ættir þú að velja koffín-laust kaffi – sérstaklega ef að heyrnin hefur ekki ennþá náð sér eftir hávaðann frá kvöldinu áður.

Rannsakendur hjá McGill University Health Centre í Montreal, Quebec í Kanada hafa komist að því að dagleg neysla á koffíni (caffein) getur komið í veg fyrir að heyrnin jafni sig eftir að hafa lent í miklum hávaða.

kaffibolli
Myndatexti: Kaffibollinn getur komið í veg fyrir að heyrnin jafni sig eftir mikinn hávaða.

Hvað er Temporary Threshold Shift (TTS)

Flest okkar hafa upplifað það að missa heyrnina að nokkru leyti eða vera með háværan tón í eyrum eftir háværa tónleika, flugeldasýningar, byssuhvelli eða álíka háværar uppákomur.  Þetta ástand er á læknamáli kallað Temporary Threshold Shift (TTS) eða Tímabundin hávaðaþröskulds-færsla, gerist þegar hinar viðkvæmu hárfrumur innra eyrans eru hálfóvirkar eða lamaðar eftir mikið áreiti vegna hávaða. Það tekur þessar hárfrumur mislangan tíma að jafna sig, allt frá fáum klukkustundum og jafnvel allt að 72 tímum eða 3 sólarhringum þar til heyrn er komin í samt lag.

Og hvað kemur kaffi þessu máli við ?

Koffín er náttúrlegt örvandi efni sem finnst m.a. í kaffi, te, súkkulaðidrykkjum og mörgum orkudrykkjum auk þess sem koffín er notað í hin ýmsu lyf við kvefi, ofnæmi og í verkjalyfjum. Koffín örvar miðtaugakerfið, bætir blóðflæði og eyðir þreytutilfinningu sem annars fylgir vökum og skemmtunum fram á nótt. Sumar rannsóknir hafa jafnvel bent til þess að koffín geti dregið úr hættu á vissum tegundum krabbameins (s.s. í lifur, munni og hálsi) og haft jákvæð áhrif til að hindra Sykursýki 2, Parkinson-sjúkdóm og heilablóðfall.

En þegar kemur að heyrninni þá virðist koffín ekki vera alveg jafn jákvætt. Rannsakendur segja að koffínmagn úr jafnvel einum venjulegum kaffibolla geti hindrað að heyrnin jafni sig eðlilega eftir TTS.

Dr. Faisal Zawawi, háls-nef og eyrnalæknir, sem starfar á McGill Auditory Sciences Laboratory, sagði að vísindamenn hans hefðu nokkur efni grunuð um að hindra líkamann í að „gera við“ skemmdir í eyrum eftir TTS. Þau ákváðu því að sannreyna tilgátur sínar með rannsókn á þremur hópum tilraunadýra. Niðurstöður hópsins birtust í vísindagrein sem kom út apríl 2016 í Journal of the American Medical Association (JAMA) Otorhinolaryngology Head and Neck Surgery. Einn hópur tilraunadýra var látinn þola 110 decibila (dB) hávaða, sem jafngildir þeim hávaða sem algengur er á mörgum rokktónleikum. Hinir hóparnir tveir voru einnig útsettir fyrir sama hávaða en fengu að auki 25 mg af koffíni (caffeine), magn sem er álíka mikið og er í einum bolla af venjulegu tei sem inniheldur koffín eða litlum espresso bolla.

Tilraunadýrin sem aðeins þurftu að þola hávaðann voru búin að jafna sig á áttunda degi. Heyrn þeirra var aftur orðin eðlileg. En dýrin sem fengu koffín-skammtinn náðu aldrei eðlilegri heyrn. Niðurstaða rannsóknarfólksins var því  að tímabundin lækkun hávaðaþröskuldarins af völdum hávaða (TTS) ásamt neyslu koffíns leiði til varanlegrar heyrnarskerðingar.

Forvarnir

Flestir einstaklingar ná sér að fullu eftir tímabundna heyrnarskerðingu af völdum hávaða en stöðugt áreiti á heyrnina, sérstaklega hávaði yfir 80 dB getur valdið varanlegu heyrnartapi.

Skv skýrslum Hearing Health Foundation í Bandaríkjunum eru nærri 50 milljónir Bandaríkjamanna með skerta heyrn. Þar af eru um 26 milljónir með heyrnartap af völdum of mikils hávaða við störf eða leik. Heyrnartap af völdum hávaða (HvH) er ein algengasta tegund heyrnarskerðingar og er jafnvel oft af völdum einstaks atburðar s.s. sprengingar en getur einnig myndast á lengri tíma ef viðkomandi er í of miklum hávaða í lengri tíma. Slíkt heyrnartap er einnig það sem auðveldast er að fyrirbyggja.

Þarf maður að hætta að drekka kaffið sitt ? Ekki endilega. Langflestir fullorðinna drekka kaffi reglulega og það getur verið erfitt að gefa slíka daglega siði upp á bátinn. En það eru önnur ráð til:

 • Komdu í veg fyrir að þú sért of lengi í mjög háværu umhverfi. Ef hávaði á vinnustað er óþægilegur skaltu ræða við yfirmenn um hvernig draga megi úr hávaða. Skv rannsóknum er þægilegur hávaði á vinnustöðum um 60 dB eða lægri.
 • Vertu vakandi fyrir aðstæðum í frítíma þínum þar sem hávaði er mikill og reyndu að takmarka þann tíma sem þú ert í slíku hljóðumhverfi. Byssuskot getur mælst allt að 165 dB og getur valdið varanlegri heyrnarskerðingu. Hávaði í líkamsræktarstöðvum getur verið yfir hættumörkum og svo mætti lengi telja.
 • Notum eyrnatappa eða heyrnartól til verndar heyrninni við háværar aðstæður. Kappleikir og tónleikar geta verið alveg jafn skemmtilegir þó að maður sé með eyrnatappa í hlustum. Hávaði á landsleikjum hefur mælst langt yfir 100 dB þegar mest gengur á. Tónleikar rokksveita í 2-3 klukkutíma geta hæglega valdið heyrnarskaða hjá áhorfendum
 • Ef þú lendir í því að upplifa TTS (hella, tímabundið heyrnartap og syngjandi tónn í eyrum eftir mikinn hávaða) þá skaltu forðast kaffi þangað til heyrnin hefur lagast. Þó að niðurstöður rannsókna séu ekki endanlegar þá er sjálfsagt að taka enga áhættu. Þú getur alltaf fengið þér góðan bolla af sterku kaffi þegar heyrnin er aftur komin í lag
 • Láttu mæla heyrnina reglulega, einkum eftir miðjan aldur. Reyndu að viðhalda bestu mögulegu heyrnarheilsu til að geta notið þessa merkilega skynfæris alla ævi.

(birt á vefsíðu HTÍ í okt 2018)

Óundirbúinn fyrirspurnatímiAlþingi

Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, lagði á dögunum fram óundirbúna fyrirspurn til heilbrigðisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, er laut að löngum biðlistum hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands.

Með því að klikka á myndina sem fylgir fréttinni má sjá upptökur af fyrirspurninni og svörum ráðherra.

Af þessu tilefni vill HTÍ útskýra frekar stöðu mála hvað biðlista varðar:

Eftirspurn eftir þjónustu eykst hratt

Eftirsókn eftir þjónustu HTÍ hefur vaxið stöðugt undanfarin ár. Þetta ætti ekki að koma neinum á óvart þar sem Íslendingum fjölgar og hlutfall eldri borgara vex hröðum skrefum. Heyrnarskerðing eykst með aldri og því hefur eftirspurn eftir heyrnarbætandi aðgerðum og tækjum vaxið mikið.

Uppúr síðustu aldamótum voru biðlistar eftir heyrnartækjum orðnir mjög langir og þá var HTÍ eina stofnunin á landinu sem annaðist útvegun heyrnartækja hér á landi. Þá voru biðlistar allt að 9 mánuðir sem þótti afleitt. Með því að leyfa einkareknum fyrirtækjum að koma inn á þennan markað með nýrri löggjöf árið 2006 skánaði ástandið nokkuð, a.m.k. tímabundið. Síðustu árin hafa þannig starfað 3 einkareknir söluaðilar heyrnartækja (Heyrn, Heyrnarstöðin og Heyrnartækni). Eftir sem áður sinnir HTÍ öllum börnum (forgangshópur) og fólki með erfiðari og flóknari heyrnarskerðingar eða heyrnarleysi.

Þrátt fyrir innkomu þessara nýju aðila á markaðinn er svo komið að eftirspurn er ekki mætt. Einkarekin fyrirtæki auglýsa þjónustu sína og vörumerki töluvert og slíkt markaðsstarf, til viðbótar við almennt aukna þekkingu og meðvitund fólks um mikilvægi þess að viðhalda góðri heyrnarheilsu, kallar á aukna eftirspurn.

Bið eftir fyrstu heyrnarmælingu barna og fullorðinna er mjög stutt og börn að 18 ára aldri eiga aldrei að þurfa að upplifa bið eftir þjónustu. En þegar kemur að mælingum og ráðgjöf varðandi heyrnartæki fullorðinna þá er staðan orðin sú að það getur tekið 7-8 mánuði að komast að hjá okkur og fá ný heyrnartæki eða heyrnartæki endurnýjuð. Þetta er ótækt og aðgerða er þörf til að bæta úr þessu.

Skortur á menntuðu fagfólki í heyrnarfræði

Ráðherra nefndi eitt mikilvægt atriði í svari sínu en það er skortur á heyrnarfræðingum hér á landi. Heyrnarfræði er ekki kennd við íslenska háskóla og kröfur um menntun heyrnarfræðinga sem fengið geta starfsleyfi á Íslandi (sbr nýlega reglugerð um heyrnarfræðinga sem löggilda heilbrigðisstarfsmenn) eru nú slíkar að einungis fáir fullmenntaðir heyrnarfræðingar starfa hér á landi (og nær allir hjá HTÍ) og enginn Íslendingur er að stunda slíkt háskólanám, að því er HTÍ er kunnugt um. Þetta hefur gert það að verkum að HTÍ hefur þurft að leita til erlendra heyrnarfræðinga síðustu árin til að fylla upp í þær stöður sem stofnunin hefur. Starfsaldur sumra starfsmanna HTÍ er 30-40 ár og því ljóst að endurnýjunar er þörf auk þess sem stöðin þarf að geta fyllt í skörð þegar fólk veikist eða fer í barneignafrí o.s.frv. Síðustu árin hafa starfað hér nýútskrifaðir heyrnarfræðingar frá Svíþjóð og Noregi, afar hæft fólk sem hefur lagt á sig að læra íslensku þó að það geti gengið misvel fyrir sig.

Heilbrigðisyfirvöld hafa heldur ekki brugðist við þessari fyrirsjáanlegu aukningu í eftirspurn. Heyrnar-og talmeinastöð Íslands hefur ekki fengið nein viðbótarstöðugildi síðustu 26 árin eða síðan að stöðugildum var fjölgað úr 19 í 20 árið 1992 !  (reyndar voru stöðugildi færð niður í kjölfar hrunsins og aðeins komist í fyrra horf frá 2015). Á hverju ári er óskað eftir úrbótum en niðurstaðan er ávallt sú sama: Ekkert viðbótarfé, engar viðbótarstöður og helst vilja heilbrigðisyfirvöld leggja þessa stofnun niður því að yfirvöldum er mikið í mun að fækka fámennum ríkisstofnunum ! Samtök heyrnarskertra, Heyrnarhjálp, og fleiri hafa lengi kallað eftir stefnu heilbrigðisyfirvalda í málefnum heyrnarskertra en fátt verið um svör. Og á meðan lengjast biðlistar og þjónustan versnar.

Skortur á mannafla og aðstöðu en fjölgun verkefna

HTÍ hefur verið staðsett í sama húsnæði á Háaileitisbraut 1 allar götur síðan að stofnunin tók formlega til starfa árið 1979. Húsnæðið er löngu sprungið og alls ekki boðlegt fyrir nútíma heilbrigðisstofnun. Heyrnarmælaklefar eru of fáir og aðstaða starfsmanna í engu samræmi við kröfur um búnað heyrnarstöðvar á því herrans ári 2018 (né heldur síðustu 30 ára).

Stofnunin er einnig á hrakhólum með húsnæði á Akureyri þar sem aðstaðan er lítil forstofa fyrir utan heyrnarmæliklefa á heilsugæslustöðinni í Hafnarstræti.

Árið 2015 keypti stöðin ferðastöð sem fer um helstu þéttbýlissvæði úti á landi vor og haust til að reyna að þjónusta landsbyggðina enda ber HTÍ að þjóna öllu landinu. Höfum við átt gott samstarf við heilbrigðisstofnanir úti á landi hvað það varðar og geysimikil ánægja viðskiptavina úti á landi með þessa auknu þjónustu. Þá ferðast starfsfólk HTÍ um landið til að skima fyrir heyrn nýbura en stöðin reynir að ná til allra barna sem fæðast á landinu. Greining á fyrstu mánuðum er forsenda þess að snemmbær íhlutun geti átt sér stað.

Með framförum í læknisfræði og aukinni tækni hafa bæst við ný verkefni hjá stöðinni sem reynt er að sinna eftir fremsta megni. Kuðungsígræðslur (ígrædd heyrnartækni fyrir þá sem fæðast heyrnarlausir eða missa heyrn vegna sjúkdóma eða slysa) hafa færst í vöxt hér á landi og nú hafa rúmlega 100 manns hlotið slíkar aðgerðir. Mikil vinna fer í undirbúning, aðgerðir og endurhæfingu slíkra sjúklinga.

Mikið skortir á að HTÍ geti sinnt fræðslu- og þjálfunarhlutverki sínu til aðstandenda og umönnunarstétta. Ástand í meðferð heyrnarskerðingar aldraðra á hjúkrunar-og dvalaheimilum um land allt er langt frá því fullnægjandi en stofnunin hefur ekki mannafla eða fjármagn til að sinna þeim þætti sem skyldi.

Á sínum tíma útvegaði HTÍ heyrnarmæliklefa og heyrnarmæla í velflestar heilsugæslustöðvar á landsbyggðinni en víðast hvar er sá búnaður lítið notaður enda umönnun heyrnarskertra nánast úthýst úr heilsugæslunni fyrir löngu og skimun á heyrn skólabarna var einnig hætt í sparnaðarskyni fyrir mörgum árum, þvert ofan í tilmæli HTÍ. Í dag er búnaður þessi helst notaður af einkafyrirtækjum sem nýta aðstöðu á heilbrigðisstofnunum og í einhverjum tilfellum án endurgjalds.

Skortur á fjármagni og stöðugildum stendur í vegi framþróunar

Almennt hefur stofnunin haldið uppi góðri faglegri þjónustu og viðskiptavinir ítrekað lýst yfir ánægju með þjónustu HTÍ. Starfsfólk hefur unnið óeigingjarnt starf og bætt á sig álagi til að mæta kröfum um aukin afköst. Hins vegar er búið að hagræða eins og mögulegt er og ekki með neinu móti hægt að kreista meiri afköst út úr starfsfólki. Starfsmönnum HTÍ hefur ítrekað verið lofað bjartari framtíð og bættri aðstöðu í gegnum tíðina. Þannig hefur a.m.k. í þrígang farið af stað sameiningarferli við hinar ýmsu stofnanir en ávallt runnið út í sandinn, síðast árið 2016 þegar ljóst varð að þær stofnanir sem sameina átti HTÍ höfðu skyndilega engan áhuga á slíku þó að unnið hefði verið að sameiningu í rúmt ár og lög um sameinaða stofnun væri tilbúin og komin í kynningu fyrir Alþingi.

HTÍ hóf á þessu ári, í samvinnu við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, tilraun með fjarþjónustubúnað sem gerir heyrnarráðgjöfum á heyrnarsviði færi á að afgreiða heyrnartækjanotendur úti á landi í gegnum internetið. Tilraunin lofar góðu og ef að niðurstöður verða jákvæðar mun HTÍ reyna að fjármagna uppsetningu slíks búnaðar á nokkrum stöðum á landinu sem eru fjarri afgreiðslustöðum okkar svo að hægt sé að stilla heyrnartæki og hitta notendur í aðstoðartímum á netfundum á viðkomandi stöðum. Þannig munu sérfræðingar okkar í Reykjavík geta sinnt fólki úti á landi í auknum mæli.
En til þess að geta veitt fullnægjandi þjónustu til jafns við nágrannaþjóðir okkar er nauðsynlegt að Heyrnar-og talmeinastöð Íslands sé veitt svigrúm til að vaxa og dafna í takt við þörf fyrir þjónustuna og framfarir á sínu sviði.

 

október 2018

Inspirational Music Teacher w CI Laima

Það hafa ekki allir þá hæfileika og færni sem þarf til að gerast tónlistarkennarar.
Miklu færri slíkir einstaklingar finnast sem eru heyrnarlausir og með kuðungsígræðslu.

Laima varð ástfangin af tónlist á unga aldri. En þegar hún missti heyrnina af völdum heilahimnubólgu sögðu læknar henni að hún gæti sennilega aldrei leikið á píanó framar. Í eftirfarandi frásögn segir Laima okkur frá því hvernig kuðungsígræðsla gerði henni kleift að uppfylla drauma sína og halda áfram að vinna við það sem henni var ætíð ætlað, tónlist.

,,Ég heiti Laima Jakité. Ég er 48 ára gömul og fæddist í Litháen en hef búið á Íslandi í mörg ár. Tónlist er líf mitt og yndi. Tónlist tengist svo mörgum minningum og upplifunum í lífinu, bæði góðum og slæmum, skemmtilegum tímabilum og sorglegum stundum. Um tíma varð ég jafnvel afhuga tónlist og var alls ekki viss um að tónlist væri réttur vettvangur fyrir mig.

En þegar ég fékk ígrædd heyrnartæki hóf ég að leika tónlist aftur. Ég spilaði á píanóið á hverjum degi þangað til að ég fann að ást mín á tónlist hafði kviknað á ný. Mig langar að segja ykkur sögu mína – hvernig lífið breyttist þegar ég missti heyrnina og hvernig ég get nú lifað lífinu á ný með hjálp kuðungsígræðslutækjanna frá Med-El".

Að læra að njóta tónlistar

Ég hef alltaf haft gaman af tónlist. Hún var alls staðar á æskuheimili mínu; faðir minn spilaði á fiðlu og kontrabassa og bræður mínur stunduðu tónlistarnám. Þegar ég hlustaði á þá spila reyndi ég alltaf að muna nóturnar og spila þær síðan aftur á píanóið. Fyrsta lagið sem ég náði að spila alveg var „Kattarmarsinn“. Þegar ég var 8 ára hóf ég síðan píanónám. Í fyrstu skyldi ég ekkert í því að ég þyrfti að spila eftir nótum. Mér fannst miklu einfaldara að spila bara eftir eyranu. Fyrsti píanókennarinn minn var yndislegur og kenndi mér að lesa nótur og þá fór mér að skiljast hvernig tónlist er skráð niður.

Þegar ég eltist hélt ég áfram í tónlistarnámi, fyrst við Art College of Žemaitija í Litháen og síðar í háskóla. Þar komst ég í kynni við þjóðlega tónlist og heimstónlist (ethnoculture). Mér finnst afar spennandi að greina hvernig tónlist hefur leikið hlutverk í lífi fólks um allan heim – líf fólks þróast og tónlistin með. Eftir að ég útskrifaðist sem tónlistarkennari snerist allt mitt líf um tónlist. Ég starfaði við Degaičiai Ethnocultural Center sem listrænn stjórnandi, skipulagði tónleika og vann að margvíslegum tónlistarverkefnum. Ég spilaði og söng sjálf um leið og ég stóð fyrir ýmsum uppákomum. Síðar varð ég Ethnocultural miðstöðvar.

Ákvörðun sem gjörbreytti lífi mínu

Árið 2007 flutti ég til Íslands. Margir hafa spurt mig hvers vegna ég hafi farið frá Litháen og hvernig ég hafi getað skipt út starfi mínu í tónlist í Litháen fyrir einfalt sveitalíf á Íslandi. Á þessum tíma var ég óánægð með stefnu yfirvalda í menningarmálum í Litháen. Þess vegna ákvað ég að flytja burt og Ísland varð fyrir valinu. Nú hef ég búið hér í 11 ár og ég hef aldrei nokkurn tímann iðrast þess að hafa flutt hingað í ókunnugt land. Ísland kalla ég núna „heima“.

Sex árum síðar varð aftur gjörbylting í mínu lífi þegar ég veikist af heilahimnubólgu sem olli því að ég missti heyrnina algjörlega. Í hönd fór erfiðasta tímabil lífs míns. Ég lifði í algjörri þögn. Ég gat ekki einu sinni grátið því að sorgin kæfði jafnvel grátinn. Ég var hreinlega hrædd við að gráta því ég gat ekki heyrt minn eigin grát. Ég var á barmi örvæntingar.
Ég spurði lækninn minn hvort ég mundi nokkurn tímann geta heyrt eða leikið tónlist, ég þráði það og vonaði heitt að svo væri. Því miður var úrskurður læknisins sá að ég mundi að öllum líkum aldrei geta heyrt tónlist aftur. Þetta voru skelfilegar fréttir en ég hélt samt dauðahaldi í vonina um að ég gæti aftur snúið til tónlistarinnar.

Kuðungsígræðsla

Áður en ég varð heyrnarlaus vissi ég ekkert um kuðungsígræðslur. En læknirinn minn sagði mér frá þessari tækni og útskýrði fyrir mér að þessi aðgerð væri mín eina von um að öðlast heyrn á ný. Svo að ég kynnti mér kuðungsígræðslur og fyrir mig skipti það miklu máli að vita hvort að ég gæti mögulega heyrt tónlist á ný. Ég las allt sem ég fann, umsagnir fólks um tæki og búnað og ræddi ítarlega við lækninn minn og ákvað loks að taka skrefið og valdi mér að lokum tæki frá Med-El sem við töldum geta gagnast mér best.

Erfiðasta tímabilið í lífi mínu var eftir að ég missti heyrnina og þangað til ég fékk ígrædda heyrnartækni. Ég lifði í algjörri þögn, ég lærði að lesa varamál að nokkru leyti. Ég gat bara tjáð mig með því að skrifast á við lækninn minn. Ég hripaði niður spurningar og þau svöruðu mér skriflega.

Í febrúar 2014 fékk ég loks skurðaðgerðina framkvæmda og tækin voru grædd í bæði eyru. Ég hafði beðið þessarar stundar með mikilli óþreyju. Aðgerðin heppnaðist mjög vel og loks kom að þeirri stund að kveikt var á búnaðinum. Fyrsta hljóðið sem ég heyrði var rödd læknisins sem spurði mig hvort ég heyrði rödd hennar. Grátandi svaraði ég: „Já, ég heyri.“

Smátt og smátt batnaði heyrn mín með hverri heimsókn til heyrnarfræðinga og talmeinafræðinganna. Ég er mjög þakklát sérfræðingum Heyrnar-og talmeinastöðvar Íslands. þau hvöttu mig til dáða og til að vinna stöðugt að endurhæfingu og prófa að leika tónlist að nýju. Þeirra góða starf og tækninýjungar í læknisfræði hefur fært mig aftur inn í heim hljóðs og tónlistar.

Endurkoma í tónlist

Frá þeim degi sem ég fékk ígræðslutækin áttaði ég mig á því að mér mundi reynast erfitt að takast að leika á píanó og heyra tónlist að nýju. Ég heyrði bara ógreinilegan hávaða þegar ég lék á píanóið, ég náði ekki að greina neinar melódíur. Þegar ég lék lög sem ég þekkti frá því áður en ég varð heyrnarlaus þá greindi ég laglínu í byrjun en síðan rann allt saman í háværan graut. Ég spilaði sömu lögin aftur og aftur og aftur. Ég reyndi að spila þau í lægri tóntegundum en þau voru skrifuð í því að ég gat greint sumar lægri nótur betur en nótur á hærra tíðnissviði.

Hægt og bítandi fór ég að skilja laglínur og ég gat farið að spila lögin eins og til var ætlast. En ég heyrði hljóma mjög illa og ég gat jafnvel ekki greint hvort að lagið var í dúr eða moll. Það var mjög erfitt að halda áfram að vinna stöðugt að því að spila og læra að heyra upp á nýtt. En strax eftir 3ja mánaða þjálfun fann ég að ég gat heyrt hvað ég var að spila á píanóið.

Þá rakst ég á auglýsingu frá tónlistarskóla Rangæinga sem var nálægt heimili mínu. Þau voru að leita að píanókennara og ég ákvað að sækja um stöðuna. Þau gáfu mér tækifæri til að spreyta mig og ég hóf störf til reynslu. Það var fyrir fjórum árum síðan og ég starfa þar enn þann dag í dag. Ég er með 13 nemendur í píanónámi og kenni 2 hópum barna í grunnnámi í tónlist. Kennslan var erfið í byrjun en í dag get ég staðhæft að tónlist er sennilega besta mögulega endurhæfing fyrir fólk eins og mig, sem þarf að læra að heyra með kuðungsígræðslutækjum.

Draumar rætast á tónlistarhátíðinni Beats of Cochlea

Í dag heyri ég nógu vel til að greina hvort að lag er í dúr eða moll, ég heyri hljóma og tóna á öllu hljómborðinu. Ég sem og útset einfalda tónlist fyrir píanó og önnur hljóðfæri. Ég get nú spilað lög sem ég hef aldrei heyrt eða spilað áður.

Fólk spyr mig oft hvernig ég geti starfað sem píanókennari við tónlistarskóla þar sem ég er algjörlega heyrnarlaus og get aðeins heyrt með aðstoð tækninnar þ.e. kuðungsígræðslutækja. Ég sagði stundum fólki ekki frá starfi mínu því ég var feimin og mér fannst óþægilegt að útskýra þetta. Ég spurði sjálfa mig þessara spurninga aftur og aftur: Hvernig get ég heyrt og spilað tónlist?
Ég leitaði svara og kannaði upplýsingar um fólk sem var í mínum sporum og væru að leika tónlist. Og ég fann sögu um breska konu sem er kuðungsígræðsluþegi og leikur á píanó. Það var mér mikil örvun.

Hún sagði mér frá Beats of Cochlea tónlistarhátíðinni í Pólandi, hátíð sem eingöngu ætluð tónlistarfólki sem er með kuðungsígræðslutæki. Mig dreymdi um að fá að taka þátt og spila þar. Og sá draumur rættist nú síðsumars þegar ég tók þátt og var útnefnd sigurvegari hátíðarinnar.
Laima spilar á Beats of Cochlea

HÉR má sjá myndband af frammistöðu Laimu á hátíðinni

Beats of Cochlea er einstæður vettvangur til að sýna öllum heiminum að heyrnarlaust fólk getur ekki aðeins heyrt á nýjan leik með aðstoð ígræddrar heyrnartækni heldur er það einnig fært um að heyra tónlist, spila og syngja. Ég get með engu móti lýst því með orðum hvernig mér leið að spila í stórum tónleikasal með hundruðir áheyrenda sem hlustuðu á mig. Hátíðin jók mér kjark og veitti mér aukið sjálfstraust og vissu um að ég sé fær um að stunda tónlist. Mín fyrsta hugsun eftir að ég gekk af sviðinu var: Ef pabbi hefði getað séð mig gera þetta þá hefði hann orðið stoltur af stelpunni sinni.

Nú veit ég að tónlistin er rétta brautin í mínu lífi. Nú er ég ekkert hrædd við að viðurkenna að ég sé algjörlega heyrnarlaus og geti bara heyrt með aðstoð tækninnar og ígræddu tækjanna. Og það sem meira skiptir, ég er óhrædd við að lýsa sjálfri mér sem tónlistarkennara. Ég mun halda áfram að mennta mig svo ég geti betur kennt mínum nemendum og deilt allri færni og tilfinningum sem ég get miðlað til þeirra. Mig langar einnig að hjálpa öðrum kuðungsígræðsluþegum að læra að heyra tónlist. Það er minn stóri draumur og næsta stóra áskorun í lífinu.

 

(þýtt úr grein: An Inspirational Music Teacher With Cochlear Implants, sem birtist á blog síðu MED-EL heyrnartækjaframleiðandans í október 2018)