Skip to main content

8 Merki þess að þú sért með skerta heyrn

 

1Þú átt erfitt með að skilja hvað aðrir segja

Þú heyrir hljóðin en greinir ekki orðin


2Þú átt erfitt með að heyra í hávaða

Veislur, veitingahús, samkvæmi, erfið hlustunarskilyrði sem geta reynst heyrnarskertum erfið


3Þú skilur illa raddir barna og kvenna

Heyrnarskertir eiga oft erfitt með að greina raddir sem eru á hærra tíðnisviði eða veikari


4Þú skiptir oft um eyra í símtölum

Að skipta í sífellu um eyra þegar hlustað er í síma getur bent til erfiðleika og þreytu vegna heyrnarskerðingar


5Þú ert með suð eða són í eyrum

Eyrnasuð(tinnitus)er algengt meðal heyrnarskertra


6Þú þreytist fljótt í samræðum

Ef mikil einbeiting við að hlusta á samræður leiðir til líkamlegrar og andlegrar þreytu er ástæðan skert heyrn


7Þú ert með sjónvarp of hátt stillt fyrir aðra

Ef þú þarft sífellt að hækka í sjónvarpinu eða aðrir biðja þig um að lækka í því ert þú líklega með skerta heyrn


8Aðrir segja þig tala of hátt eða óskýrt

Skert heyrn breytir því hvernig þú skynjar og heyrir hljóð og jafnvel eigin rödd og eigin framburð


Algengar spurningar

 

Dagur Heyrnar 2021 - Heyrn og lífsgæði

Dagur Heyrnar 2021 m greinum
Á degi heyrnar þann 3. Mars er ekki úr vegi að benda á þau lífsgæði sem felast í því að heyra vel. Við tökum því flest sem sjálfsögðum hlut að geta farið í leikhús eða á tónleika, að geta talað án vandræða í síma, fylgst með samfélagsumræðu í sjónvarpi eða útvarpi, hlustað á hljóðbækur og almennt notið þess að vera innan um fólk og spjalla um daginn og veginn.

Góð heyrn er ekki sjálfgefin og því þarf að leiða hugann að henni eins og öðrum lífsgæðum. Herynarskerðing  gerist sjaldan á einni nóttu. Oftast er um að ræða hægfara ferli og því á fólk oft erfitt með að átta sig á að það sé farið að heyra illa. Við erum þeim hæfileikum búin að aðlagast breyttum aðstæðum og þá sérstaklega breytingum sem gerast hægt og rólega. Að lokum kemur þó að því að heyrnarskerðingin fer að hafa veruleg áhrif á daglegt líf fólks, bæði líkamleg og sálræn. Stoðkerfisvandamál eins og höfuðverkur og vöðvabólga eru oft fylgikvillar þess að heyra illa. Það stafar af því að fólk með heyrnarskerðingu þarf oft að einbeita sér meira til þess að heyra og skilja það sem  fram fer í kringum það og úrvinnsla upplýsinganna krefst einfaldlega meiri orku en þegar heyrn er góð. Talað er um að sálræn áhrif heyrnarskerðingar geti verið kvíði og einangrun. Einstaklingar með heyrnarskerðingu njóta þess síður en aðrir að vera innan um annað fólk.

Það er til mikils að vinna að grípa inn í það ferli sem heyrnarskerðing er og leita sér hjálpar  en frá því að fólk verður fyrst vart við að heyrn þess sé að skerðast líða gjarnan tíu ár þar til það gerir eitthvað í málunum. Oft eru það ættingjar eða vinir sem fyrst verða varir við heyrnarskerðingu viðkomandi. Fyrstu merki heyrnarskerðingar geta verið margs konar en ástæða er til að leita sér aðstoðar ef:

  • þér finnst erfitt að tala í síma;
  • þér finnst eins og annað fólk sé almennt óskýrt eða þvoglumælt;
  • þér finnst erfitt að skilja það sem þú heyrir;
  • þú þarft að biðja aðra um að endurtaka það sem sagt var;
  • þú verður þreytt/ur eftir að hafa verið innan um fólk;
  • þú átt erfitt með að átta þig á því hvaðan hljóð berst
  • þú reynir að forðast margmenni.

Dagur heyrnar er hvatning til okkar að huga að heyrn okkar og taka henni ekki sem sjálfsögðum hlut. Það fylgja því mikil lífsgæði að hafa góða heyrn.

 

#WorldHearingDay

#safelistening
#hearingcare

#hearathon2021

Höfundur:Kristbjörg Gunnarsdóttir, Heyrnarfræðingur

Kristbjorg Gunnarsdottir passamynd

Dagur Heyrnar tókst vel

Dagur Heyrnar vakti mikla athygli og hlaut góða umfjöllun ýmissa fjölmiðla og fyrirspurnir hafa streymt inn varðandi margvísleg efni.

Við viljum byrja á að þakka Sinfóníuhljómsveit Íslands og Vinnueftirlitinu kærlega fyrir gott samstarf. Hér að neðan eru tenglar á sumt af því sem gerðist á Degi Heyrnar 2020

Dagurinn byrjaði á viðtali þeirra Sigmars og Huldu í Morgunþætti Rásar 2 við forstjóra HTÍ, Kristján Sverrisson. Með því að klikka á myndina hér að neðan er hægt að hlusta á viðtalið.

dagur heyrnar RUV morgunn

Síðan lá leiðin til hinna hressu þáttarstjórnenda Í Bítið á Bylgjunni þar sem þeir Gulli og Heimir spurðu Kristján spjörunum úr um margt varðandi heyrn og Dag Heyrnar.
Smellið á myndina og hlustið á viðtalið:

Bylgjan Bítið Er tóneyrað með fulla heyrn
Mikil fjölmiðlaumfjöllun

 Kvöldfréttir sjonvarpsstöðvanna fjölluðu einnig um framtakið og Dag heyrnar í fréttatímum sínum:
https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/frettir-kl-19-00/27717/8ku9pv/althjodadagur-heyrnar

og á Stöð 2:  https://www.visir.is/k/6a6c04c3-1450-483f-b212-3c7236b77f50-1583263053363

 

 Sinfónían og Vinnueftirlitið

Um hádegisbil voru starfsmenn Heyrnar-og talmeinastöðvar og sérfræðingar Vinnueftirlitsins í hávaðavörnum mættir á æfingu hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands til að vekja athygli á mikilvægi heyrnar og heyrnarverndar á Degi Heyrnar.

Vinnueftirlitið mældi hávaða á nokkrum stöðum á sviðinu á meðan á æfingu stóð og einnig mældu þeir sérstaklega hávaða við eyra sex valinna hljóðfæraleikara sem töldust vera í sérstökum áhættuhópi (s.s. málmblástursfólk, ásláttarhljóðfæraleikarar o.fl.)

Niðurstöður mælinganna vekja athygli því að í ljós kemur að meðal-jafnaðarhávaði á þessari æfingu hjá Sinfóníunni var um og yfir 80 dB sem liggur við hættumörk. EInstakir toppar í hæstu köflum verksins náðu hins vegar rúmum 140 dB sem er langt yfir hættumörkum og nálgast sársaukamörk. (og höfðu starfsmenn Sinfó þó á því orð að hér hefði langt því frá verið að æfa háværasta klassíska verk tónlistarsögunnar!).

Það var því dómur Vinnueftirlits að hér væri ,,klassískt" dæmi um vinnustað þar sem nauðsynlegt er að grípa til ráðstafana til að tryggja heilsu og heyrn starfsmanna.

Lára Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníunnar, útskýrði síðan fyrir fréttamönnum hvaða aðgerðir Sinfónían hefur gripið til í þeim tilgangi að tryggja heyrnarheilsu liðsmanna hljómsveitarinnar. Á undanförnum árum hefur Sinfó heyrnarmælt hljóðfæraleikara, látið útbúa sérsmíðaðar heyrnarhlífar (eyrnatappar með sérstökum tónlistar-síum), komið fyrir hljóðvarnar-þilum og sérstöku "hearWig" hlífðarskjöldum fyrir aftan þá spilara sem mest eru útsettir fyrir hávaða á æfingum og tónleikum. Eru aðgerðir þessar allar til fyrirmyndar og með því besta sem gerist í tónlistarheiminum.

Hér má sjá nokkrar myndir sem sýna þann viðbúnað sem er hafður hjá Sinfóníunni:

 

sinfo hearwig

   sinfo skermar HearWig heyrnarhlífar eru notaðar fyrir þá sem sitja fyrir framan háværustu hljóðfærin. Sérstakir skermar eru einnig staðsettir á völdum stöðum til að hlífa þeim hljóðfæraleikurum sem næst sitja.
Þá eru margir meðlima Sinfóníunnar með sérstaka eyrnatappa sem eru sérhannaðir fyrir tónlistarfólk og dempa hljóð á öllum tíðnisviðum aðeins niður en gera þeim þó kleift að heyra öll blæbrigði tónlistarinnar.
Alveg til fyrirmyndar hjá hljómsveitinni.

 

 

Frægir tónlistarmenn með heyrnarskaða

Hvað eiga þessir ágætu tónlistarmenn á myndinni hér að ofan sameiginlegt ?

Jú, þeir eiga allir við vandamál að stríða vegna heyrnarskerðingar eða eyrnasuðs (tinnitus)

Skoðum sögu nokkurra þessarra heiðursmanna (því miður engar konur á listanum enda heyrnarskerðing algengari meðal karla):

  1. Eric Clapton er einn merkasti og frægasti rokk- og blúsgítarleikari samtímans. Hann hefur þurft að glíma við mikið og þrálátt eyrnasuð sem að öllum líkindum hefur orsakast af miklum hávaða á tónleikum hans í upphafi ferilsins. Clapton var þekktur fyrir að keyra magnara í botni jafnt á tónleikum sem í hljóðverum, jafnvel svo að félögum hans þótti nóg um.

  2. Chris Martin er forsprakki og aðalsöngvari hinnar heimsfrægu hljómsveitar Coldplay sem notið hefur sívaxandi vinsælda allt frá fyrstu hljómplötu þeirra pilta árið 2000. En það sem fæstir vita er að hann hefur þjáðst af eyrnasuði (tinnitus) allan síðasta áratuginn.
    Söngvarinn sagði í viðtali við Daily Mail nýlega “Maður hugsar ekki nógu vel um eyrun og heyrnina fyrr en þú ert þegar kominn í vandræði. Ég er búinn að vera með tinnitus síðustu 10 árin en eftir að ég fór að nota hávaðahlífar hefur vandamálið ekkert versnað, sem betur fer. En ég vildi óska þess að ég hefði byrjað fyrr. Nú nota allir hljómsveitarmeðlimir sérsmíðuð hlustartól sem vernda heyrn okkar.
  1. Sting. Fyrrum aðalsöngvari og bassaleikari hljómsveitarinnar Police er enn einn vinsælasti tónlistarmaður veraldar. Hann varð fyrir heyrnarskaða af völdum hávaða á tónleikum undanfarinna áratuga. Sting er nú mjög áhugasamur um mikilvægi heyrnarverndar og vinnur með ýmsum samtökum og heilbrigðisstofnunum til að vekja athygli á verndun heyrnar.
  1. Jeff Beck lenti í 5. Sæti yfir bestu gítarleikara heims í kosningu tónlistartímaritsins Rolling Stone (“100 Greatest Guitarists of All Time”). Þessi fjölhæfi gítarleikari hefur lengi vakið athygli fyrir frammistöðu sína á sviði þungrar rokktónlistar, raftónlistar, framsækins rokks og jazz-skotinnar rokktónlistar. En hann hirti ekki um að hlífa heyrninni og hefur þjáðst af slæmu eyrnasuði um árabil.

  2. Phil Collins er fyrrum trommuleikari og söngvari hljómsveitarinna Genesis og síðar sóló-listamaður sem fengið hefur margvísleg verðlaun, bæði Óskarsverðlaun og Grammy verðlaun fyrir tónlist sína. Collins þurfti að lokum að aflýsa öllu frekara tónleikahaldi vegna alvarlegrar heyrnarskerðingar sem gerir honum ókleift að flytja tónlist sína.
  1. Will.i.am: Einn áhrifamesti tónlistarmaður síðari ára. Hann er einn stofnenda The Black Eyes Peas og eftirsóttur framleiðandi. Will.I.Am hefur um árabil verið með svo slæmt eyrnasuð (tinnitus) að hann segist nánast viðþolslaus. Hann segist þurfa að vinna við tónlist og vera með tónlist í eyrunum helst allan sólarhringinn því að það sé það eina sem nær að dempa þann sífellda són sem hann er með í eyrunum og slá á streituna sem fylgir þessu slæma eyrnasuði.
  1. Neil Young sló ungur í gegn með Buffalo Springfield og síðar með Crosby, Stills, Nash & Young áður en hann sneri sér alfarið að eigin tónlist og þykir með merkustu tónlistarmönnum síðustu áratuga. Hann hefur gefið út á fjórða tug hljómplatna og komið að gerð margra fleiri. Vegna hávaðaskaða vegna háværs tónlistarflutnings hefur hann þjáðst að eyrnasuði (tinnitus) í mörg ár. Þó að hann flytji oft hljóðlátar perlur með kassagítarinn einan að vopni þá skellir hann enn í mjög háværa rokktónlist á tónleikum sínum svo hann virðist lítið hafa lært af fyrri mistökum.
  1. Ozzy Osbourne: Allir sem séð hafa þáttaröðina um Ozbourne fjölskylduna gera sér fljótt grein fyrir að húsbóndinn heyrir afskaplega illa. Ozzy er ein af stærstu stjörnum þungarokksins en hann var aðalsöngvari hljómsveitarinnar Black Sabbath allt þar til hljómsveitin lauk ferlinum á árinu 2019. Hávaði á tónleikum þeirra var ætíð mikill og er örugglega ástæðan fyrir mikilli heyrnarskerðingu hans í dag.
  1. Brian Wilson, forsprakki og aðal lagahöfundur hinnar fornfrægu hljómsveitar The Beach Boys hefur verið verulega heyrnarskertur á hægra eyra allt frá unga aldri. Þetta hindraði Brian þó aldrei í tónlistarsköpun sinni. Hann hefur samið og útsett tónlist og er enn að.
  1. Paul Stanley, sem stofnaði amerísku rokk-hljómsveitina KISS, fæddist með vissan galla, microtia, sem leiðir til þess að ytra eyrað hægra megin er verulega vanþroskað. Hann var alinn upp í mikilli tónlistarfjölskyldu og ætlaði sér alltaf að verða tónlistarmaður þó að hann heyri í raun nær eingöngu með vinstra eyra.
    Paul Stanley hefur lengi unnið náið með stofnunum og góðgerðarsamtökum sem hvetja ungt fólk og tónlistarmenn til að gæta að heyrnarheilsu sinni og hann segist ávallt nota heyrnarhlífar til að vernda þá heyrn sem hann hefur enn og ætlar sér ekki að tapa!

Þessir og margir aðrir tónlistarmenn hafa orðið fyrir heyrnartapi eða fengið eyrnasuð af völdum mikils hávaða sem tengist atvinnu þeirra og hávaða. Saga þeirra ætti að vera víti til varnaðar og hvetja alla til að huga að heyrnarvernd, nota heyrnarhlífar í öllum tilfellum þegar hávaði fer í hættuleg mörk. Enginn vill þurfa að fórna þeim lífsgæðum sem felast í að hlusta á tónlist !

Við skorum á heyrnarskerta íslenska tónlistarmenn að gefa sig fram við okkur hjá HTÍ svo að við getum skrifað heimfærða frétt með sömu fyrirsögn!

 

janúar 2020

Heyrnarskerðing

Heyrnarskerðing á sér oftast stað á löngu tímabili. Í byrjun reynist æ erfiðara að heyra lág hljóð sem og hljóð í umhverfi þar sem umhverfishljóð eru mikil. Það að greina talað mál getur einnig orðið erfitt. Viðkomandi heyrir en á í erfiðleikum með að greina það sem sagt er.

Heyrnarskerðing getur leitt af sér einangrun vegna þess að sá heyrnarskerti fer að forðast umhverfi og aðstæður þar sem hann á erfitt með að heyra. Heyrnarskerðingu er sjaldnast hægt að lækna en heyrnartæki geta komið að verulegu gagni og létt viðkomanda lífið.

Áreiðanlegar tölur um heyrnarskerta Íslendinga liggja ekki fyrir en ef miðað er við erlendar rannsóknir má gera ráð fyrir að allt að 10% þjóðarinnar sé heyrnarskert og þar af um 5% (um 16 þúsund manns) séu það mikið heyrnarskertir að þeir hafi gagn af því að nota heyrnartæki. Með hækkandi lífaldri fjölgar í hópi heyrnarskertra þar sem heyrnarskerðingu flestra má rekja til öldrunar.
Árlega fæðast 6 til 10 heyrnarskert börn á landinu. Rúmlega 200 börn á aldrinum 0-18 ára eru undir eftirliti hér á Heyrnar- og talmeinastöð og nota tæplega 170 þeirra heyrnartæki.

eyra  heyrnarskerding

 


Hvernig get ég heyrt betur? Hvaða þjónusta stendur til boða ef heyrnin versnar?

Miklu skiptir að bíða ekki of lengi eftir að þú finnur að heyrn er farið að hraka. Því fyrr sem þú leitar aðstoðar, þeim mun betur er hægt að hjálpa þér aðlagast versnandi heyrn.

Heyrn hrakar oft með hækkandi aldri og af ýmsum öðrum orsökum. Ef hljóðheimur þinn er þegar orðinn verulega skertur eru minni líkur á að þú sættist við þann nýja hljóðveruleika sem heyrnartæki geta veitt þér. Viðbrigðin gætu einfaldlega orðið of mikil.Ef þú bregst snemma við hrakandi heyrn eru líkur á að hægt sé að aðlaga heyrn þína jafnt og stöðugt yfir lengri tíma og viðbrigðin verði minni. Þú munt þá eiga auðveldar með að nýta þér heyrnartæki og önnur úrræði.Hér á eftir fylgir lýsing á því sem gerist ef þú ákveður að leita þér aðstoðar við heyrnarskerðingu:

  • Finndu áreiðanlega þjónustuaðila með sérþekkingu á heyrn og heyrnarskerðingu.
    Þetta geta verið heyrnarstöðvar s.s. Heyrnar-og talmeinastöð Íslands, heyrnarfræðingar og háls-nef og eyrnalæknar. Vertu viss um að þjónustuaðilinn bjóði upp á alla þjónustu og hafi yfir að ráða starfsfólki og tækni sem uppfyllir allar kröfur heilbrigðisyfirvalda. Söluaðilar heyrnartækja skulu hafa starfsleyfi heilbrigðisyfirvalda, slíkt starfsleyfi á að tryggja að þjónustan sem í boði er uppfylli allar kröfur.
  • Pantaðu tíma í heyrnarmælingu og aðstoð
    • Heyrnarfræðingur (og í sumum tilvikum læknir) munu skoða þig og taka sjúkrasögu þína. Þeir leita orsaka heyrnarskerðingarinnar, hvort hún sé af völdum of mikils eyrnamergs, sýkingar, afbrigðilegs vaxtar í eyra, aldurstengds heyrnartaps eða af öðrum orsökum. Heyrnarmæling er síðan framkvæmd til að mæla viðbrögð þín við ýmsum hljóðum á víðu tíðnissviði og á mismunandi hljóðsstyrk. Mæling og viðtal tekur u.þ.b. 1 klst og er algjörlega sársaukalaus. Útkoman hjálpar heyrnarfræðingi að finna lausn sem hentar þér best.
    • Ekki hika við að spyrja allra þeirra spurninga sem á þig leita og geta aukið skilning þinn og þekkingu á heyrn þinni. Því betur sem heyrnarfræðingurinn kynnist þér, umhverfi þínu og ástandi, þem mun betur getum við hjálpað þér.
  • Veldu heyrnartæki eða aðrar lausnir
    Heyrnarfræðingur notar niðurstöður mælingarinnar til að meta hvaða úrræði standa þér til boða og eru líklegust til að gagnast þér og þinni heyrnarskerðingu best. Ekki hika við að leita upplýsinga á eigin spýtur og gera vandlegan samanburð á þjónustu og tækni sem í boði er. Einkum skalt þú gera verðsamanburð því að oft getur miklu munað í verði sambærilegra tækja á markaðnum.
    Heyrnarfræðingur skal einnig upplýsa þig um hver greiðsluþátttaka almannatrygginga er í hverju tilviki. Við hvetjum þig einnig til að kanna hvort að stéttarfélög eða vinnuveitendur taka þátt í kostnaði við heyrnartæki eða aðrar lausnir.
    Mundu, að ekki er víst að dýrustu tækin á markaðnum séu endilega bestu tækin og að dýrustu og flóknustu tækin gagnast ekkert endilega sem lausn við þinni heyrnarskerðingu! Heyrn og heyrnarskerðing er afar persónubundin og sumum gagnast einfaldari tæki jafnvel betur en flókinn hátæknibúnaður.
    Við gefum þér ráð og upplýsingar en endanlegt val á lausn er alfarið í þínum höndum. Vandaðu því valið.
  • Mótataka og hlustarstykki
    Stundum er nauðsynlegt að sérsníða heyrnartæki fyrir þig og þá þarf að taka mót af eyranu og hlustinni svo hægt sé að smíða hlustarstykki sem fellur fullkomlega að hlust þinni. Þá tökum við mót af eyranu og hlustinni, mótið er síðan skannað í þrívíddar-skanna og eftir því móti er síðan smíðað hlustarstykki úr plasti eða sílikoni, sérsniðið að þínum þörfum. Þetta tekur nokkra daga og er gert á meðan heyrnartækin sjálf eru pöntuð.
  • Afhending heyrnartækja og fyrsta stilling
    Þegar heyrnartækin eru tilbúin er þér boðið í viðtal hjá heyrnarfræðingi sem fer vandlega yfir allt sem lýtur að notkun, viðhaldi og hreinsun nýju tækjanna. Tækin eru mátuð, tryggt að þau sitji rétt og valdi engum óþægindum. Þá eru tækin still í gegnum tölvu og stillingin er gerð í samræmi við útkomu heyrnarmælingarinnar til að tryggt sé að tækin bæti sérstaklega þau tíðnisvið sem veikust eru og dragi jafnvel úr óþægindum vegna annarra hljóða sem gera þér erfiðara með að greina þau hljóð sem skipta mestu máli. Miklu skiptir að t.d. talgreining, greining og skilningur á mannsröddum og tali, sé sem best með nýju tækjunum.
  • Heyrnarfræðingurinn lætur þig æfa ísetningu og meðferð tækjanna og hvernig best er að meðhöndla þau, viðhald, þrif o.s.frv. Vertu viss um að þú hafir fengið allar þær upplýsingar sem þú telur nauðsynlegar áður en þú gengur út með nýju heyrnartækin.
  • Að lokum er ákveðinn tími fyrir endurkomu og endurstillingu að loknu reynslutímabili (oftast 3-4 vikur).
  • Endurkoma/endurstilling
    Notaðu nýju tækin sem allra mest til að venjast þeim. Notaðu þau við sem fjölbreytilegastar aðstæður og hlustunarskilyrði til að prófa hvernig þau nýtast þér. Skráðu gjarnan hjá þér athugasemdir í dagbók á meðan á reynslutíma stendur svo að þú munir betur hvað er gagnlegt og hvað þú telur miður fara við daglega notkun. Í endurkomutíma er gott að fara yfir öll slík atriði með heyrnarfræðingnum til að tryggja að vankantar séu slípaðir af og þú sért sátt(ur) við tækin.
  • Heyrnarfræðingurinn endurstillir tækin ef þörf er á og fer yfir alla notkun til að tryggja að tækin nýtist þér sem best. Heyrnartæki eru töluverð fjárfesting og því er það sjálfsögð krafa að þau virki eins vel og mögulegt er hverju sinni.
    Mundu að það er 30 daga skilafrestur á öllum nýjum heyrnartækjum. Þú getur því skilað inn tækjum eða fengið ný tæki til prófunar ef að þú telur að tækin henti þér ekki einhverra hluta vegna.
  • Regluleg þjónusta tækja
    Þú getur ávallt leitað til okkar ef einhverjar spurningar vakna eða ef vandamál koma upp með heyrnartæki. Hægt er að mæta í opna tíma hjá Heyrnar- og talmeinastöð fyrir minniháttar aðstoð og stillingar en stundum þarf að bóka tíma ef talin er þörf á flóknari aðstoð. Hægt er að fá gert við biluð heyrnartæki, jafnvel samdægurs. Athugið að heyrnartæki koma með a.m.k. 2ja ára ábyrgð. Á vefsíðu okkar er hægt að fá upplýsingar um tímapantanir, opnunartíma, ýmsa fylgihluti og þjónustu (www.hti.is ).
  • Lærðu að njóta hljóðheimsins upp á nýtt !
    Það getur tekið dálítinn tíma að venjast heyrnartækjum, einkum ef heyrnartap hefur verið orðið verulegt áður en þú fékkst fyrstu heyrnartækin. Það getur tekið á þolinmæðina að venjast nýjum og ólíkum hljóðheimi sem tækin veita þér. Stilltu væntingum í hóf, engin heyrnartæki geta veitt þér fullkomlega náttúrulega heyrn við öll hlustunarskilyrði.

Þér er velkomið að hafa samband við okkur ef þú óskar frekari upplýsinga og allir söluaðilar heyrnartækja veita fjölbreytta þjónustu við viðskiptavini sína.

 

Gangi þér vel !


     

Hvernig hljómar heyrnarskerðing?

Fullheyrandi fólk á erfitt með að ímynda sér hvernig heyrnarskertir heyra.

Vefsíðan www.hear-it.org er stútull af fróðleik um margvíslegt efni sem tengist heyrn og heyrnarskerðingu.
Á vefsíðunni má meðal annars finna hljóðdæmi um það hvernig mismunandi heyrnarskerðing hljómar. Einnig eru þar dæmi um eyrnasuð (tinnitus) o.fl.

hvernig hljomar skert heyrn

Með því að kilkka á myndina hér að ofan getur þú opnað vefsíðuna í sérstökum flipa og spilað þessar hljóðskrár.

Klínískar leiðbeiningar - Skyndileg heyrnarskerðing

Hendi borin upp að eyraSkyndileg heyrnarskerðing er skilgreind sem meira en 30 dB skerðing á heyrn á þremur samliggjandi tóntíðnum, sem kemur á innan við þremur sólarhringum. Algengast er að heyrnarskerðingin sé öðru megin en hún getur verið beggja vegna. Oftast er undirliggjandi orsök óþekkt eða í allt að 90% tilfella. Líklegast er talið að veirusýkingar séu í mörgum tilvikum undirliggjandi ástæða, þó erfitt hafi reynst að sannreyna það eða sýna fram á hvaða veira sé orsakavaldur. Heyrnarskerðinguna er í sumum tilvikum hægt að tengja öðrum orsakavaldi eins og t.d. sjálfsónæmissjúkdómi, æðasjúkdómi, slysi, eða Meniere sjúkdómi. Nýgengi skyndilegrar heyrnarskerðingar er 5-20 tilfelli á hverja 100.000 íbúa/ári og kemur fyrir í öllum aldurshópum, þó algengara hjá fullorðnum en börnum.

 

Greining

Greining skyndilegrar heyrnarskerðingar fæst með sögu, HNE skoðun og heyrnarmælingu. Mikilvægt er að útliloka heyrnarskerðingu vegna leiðnitruflunar, sem getur t.d. verið vegna mergtappa, aðskotahluts í hlust eða vökvasöfnunar eða sýkingar í miðeyra.

Ef orsök heyrnarskerðingarinnar er ekki greinanleg með skoðun er mikilvægt að fá heyrnarmælingu innan þriggja sólarhringa frá því að heyrnarskerðingarinnar varð vart. Ekki er mælt með bráðri tölvusneiðmyndatöku né blóðrannsókn. Hins vegar er mælt með segulómmyndatöku (MRI) innan nokkurra vikna ef um áður óþekkta heyrnarskerðingu er að ræða.

Meðferð

Fjórar ástæður leiðniheyrnarleysisÞar sem orsökin fyrir skyndilegri heyrnarskerðingu er í flestum tilvikum óþekkt, þarf að hafa hina ýmsu mögulegu orsakavalda í huga, þegar tekin er afstaða til meðferðar. Margt hefur verið prófað, eins og t.d. veirulyf, blóðþynningarlyf, vítamín og andoxunarlyf, en það sem helst hefur verið notað er sterameðferð. Tilgátan er að sterar dragi úr bólgum sem valdi heyrnarskerðingunni og í einstaka rannsóknum hefur verið sýnt fram á marktækan mun til hins betra þegar gefnir hafa verið sterar í samanburði við lyfleysu, en margar rannsóknir hafa hins vegar ekki sýnt marktækan mun og því er til staðar efi um gagnsemi þeirra. Ef veita á sterameðferð við skyndilegri heyrnarskerðingu á að hefja hana eins fljótt og auðið er frá upphafi einkenna, helst innan 72 klst, því minni líkur eru taldar á að endurheimta heyrnina eftir því sem lengri tími líður að steragjöf.

Ef ekki er aðgengi að heyrnarmælingu til að staðfesta heyrnarskerðinguna, ætti samt sem áður að hefja sterameðferð ef grunur er sterkur. Ekki er talið gagnast að gefa stera í töfluformi ef meira en 2 vikur eru liðnar frá upphafi einkenna. Ef töflusterar eru gefnir er mælt með að gefa Prednisolon 60 mg á dag í 5 daga og síðan niðurtröppun í 5 daga um 10 mg á dag þannig að heildarmeðferðartími sé 10 dagar.

Steragjöf beint í miðeyra (intratympanal injection) er einnig meðferðarmöguleiki, en ekki hefur verið sýnt fram á marktækan mun á meðferðarárangri þegar borin er saman steragjöf um munn, í æð eða í miðeyra. Að gefa stera beint í miðeyra gæti gagnast einstaklingum með frábendingar fyrir töflumeðferð og eins mætti láta reyna á þessa meðferð ef ekki eru merki um að heyrnin sé að koma tilbaka allt að 4-6 vikum frá upphafi einkenna.

Eftirfylgd

Horfur á endurheimt eftir skyndilega heyrnarskerðingu má skipta í þriðjunga, þ.e. um þriðjungur einstaklinga endurheimtir heyrnina að mestu eða að fullu leyti, þriðjungur að hluta til en þriðjungur lagast ekkert. Þeim mun meiri sem heyrnarskerðingin er í upphafi, þeim mun minni líkur eru á að heyrnin komi tilbaka og eins eru líkurnar minni fyrir eldri einstaklinga.

Mælt er með eftirfylgd með heyrnarmælingu fljótlega eftir að sjúklingur klárar sterameðferð og svo aftur 6 mánuðum eftir lok sterameðferðar en þá er einnig mikilvægt að fara í gegnum mögulega endurhæfingu með heyrnartækjum ef heyrnin er áfram skert.

 

Reykjavík, 1. mars 2022

Arnar Þór Guðjónsson, yfirlæknir Háls-, nef-og eyrnadeild LSH

Einar Kristinn Hjaltested, háls-, nef-og eyrnalæknir, LSH

Eva Albrechtsen, háls-, nef-og eyrnalæknir, LSH og HTÍ

Ingibjörg Hinriksdóttir, yfirlæknir HTÍ

 

 

  1. Sudden sensorineural hearing loss - A contemporary review of management issues. J Otol. 2020 Jun;15(2):67-73. doi: 10.1016/j.joto.2019.07.001. Epub 2019 Jul 30. 
  2. Clinical Practice Guideline: Sudden Hearing Loss (Update). Otolaryngol Head Neck Surg. 2019 Aug;161(1_suppl):S1-S45. doi: 10.1177/0194599819859885.
  3. Feekings et al. Pludselig indsættende idiopatisk hørelsetap. Ugeskr Læger 2018; 180: v03180159
  4. Klínískar leiðbeiningar frá UK: https://www.entuk.org/_userfiles/pages/files/guidelines/SSNHL%20SSO.pdf
  5. Klínískar leiðbeiningar frá Noregi: https://www.legeforeningen.no/foreningsledd/fagmed/norsk-forening-for-otorhinolaryngologi-hode-og-halskirurgi/veileder-for-ore-nese-halsfaget/audiologi/idiopatisk-plutselig-sensorinevrogent-horselstap/
  6. Klínískar leiðbeiningar frá Svíþjóð: https://plus.rjl.se/info_files/infosida44952/plotslig_sensorineural_horselnedsattning_gemensam_loggadocx.pdf
  7. Intratympanic dexamethasone in sudden sensorineural hearing loss: A systematic review and meta-analysis. Laryngoscope. 2017 Aug;127(8):1897-1908. doi: 10.1002/lary.26394.
  8. Systemic, intratympanic and combined administration of steroids for sudden hearing loss. A prospective randomized multicenter trial. Eur Arch Otorhinolaryngol. 2018 Jan;275(1):103-110. doi: 10.1007/s00405-017-4803-5.

 

Morgunblaðið fjallar um málefni heyrnarskertra

MBL 28agust2017

 

Við vekjum athygli á grein sem birtist í Morgunblaðinu mánudaginn 28.ágúst þar sem blaðið fjallar um málefni heyrnarskertra.

Kveikjan að greininni er skipan heilbrigðisráðherra á vinnuhópi til að fara yfir málefni Heyrnar-og talmeinastöðvar Íslands og þá þjónustu sem heyrir undir málefnasvið stofnunarinnar.

Í greininni er m.a. rætt við Kristján Sverrisson, forstjóra HTÍ, sem kallar eftir auknum fjárveitingum og verulega auknu gæðaeftirliti með starfsemi HTÍ og annarra söluaðila heyrnartækja hér á landi.

Kristján nefnir einnig slæma stöðu aldraðra í hópi heyrnarskertra og hvernig fötlunin getur leitt til slæmra lífsgæða og einangrunar þeirra.

Þá er einnig rætt um óvandaða sölumennsku á ódýrum heyrnarmögnurum sem óprúttnir söluaðilar kalla heyrnartæki, þó að magnarar þessir eigi lítið skylt við vönduð nútímaheyrnartæki. Orsakir og einkenni heyrnarskerðingar eru einstaklingsbundnar og það skiptir öllu máli að sérfræðingar rannsaki og meti eðli heyrnarskerðingarinnar og stilli rétt tæki á réttan hátt !

Nýjir sjónvarpsþættir um HEYRN

Heyrnin Þættir Hringbraut


Sjónvarpsstöðin HRINGBRAUT hefur framleitt nýja þætti um heyrnina, heyrnarskerðingu og starfsemi HTÍ. Þættirnir voru unnir í samvinnu við Heyrnar-og talmeinastöð Íslands og það er hinn góðkunni sjónvarpsmaður, Sigmundur Ernir, sem leiðir áhorfendur í gegnum margvíslegan fróðleik um heyrnina með viðtölum við starfsfólk HTÍ og skjólstæðinga stöðvarinnar.

Fyrri hluti þáttanna var frumsýndur þriðjudagskvöldið 28.janúar og síðan verða þeir sýndir næstu daga og vikur.
Við vekjum athygli á því að þættirnir eru textaðir svo að heyrnarskertir og heyrnarlausir geti betur fylgst með því sem rætt er.

Heyrnar- og talmeinastöð Íslands þakkar Hringbraut samstarfið og einnig þeim skjólstæðingum okkar sem tóku þátt með frábærum viðtölum og spjalli.

 

janúar 2020

Nýr viðvörunarbúnaður á markað - JENILE

Jenile Margret og Magnus juli20

https://www.frettabladid.is/kynningar/agengi-a-hljoi-me-jenile/

Nýlega gekk Heyrnar- og talmeinastöð Íslands til samstarfs við framleiðanda viðurkennds viðvörunarbúnaðar fyrir heyrnarskerta og heyrnalausa. Tækin heita JENILE og koma frá Frakklandi. Innflytjendur eru hörkuduglegt par úr hópi heyrnarlausra Íslendinga. Þau Margrét og Magnús voru í viðtali við Fréttablaðið miðvikudaginn 1.júlí þar sem þau gerðu grein fyrir þessum mikilvæga hjálparbúnaði.

Heyrnar- og talmeinastöð Íslands selur búnaðinn til þeirra heyrnarskertu eða heyrnarlausu einstaklinga  sem rétt eiga á greiðsluþátttöku ríkis í slíkum búnaði vegna fötlunar sinnar. Nánari upplýsingar veitir afgreiðsla. Á næstunni mun HTÍ kynna vörurnar betur á vefsíðu og samfélagsmiðlum.

Hér að neðan er hlekkur á fréttina í Fréttablaðinu:

https://www.frettabladid.is/kynningar/agengi-a-hljoi-me-jenile/

 

Birt: 1.júlí 2020

Of fáum boðið að fá kuðungsígræðslu vegna slæmrar heyrnarskerðingar?

grein Turunen Taheri Af hverju ekki CI

Sænsk rannsókn telur að of fáum illa heyrandi eða heyrnarlausum fullorðnum einstaklingum sé ráðlagt
að fá s.k. kuðungsígræðslu til að hjálpa þeim að endurheimta tapaða heyrn.

Nýlega kom út rannsókn í Acta Oto-Laryngologica þar sem Kristina Turunen-Taheri og meðhöfundar rannsökuðu þau úrræði sem boðin eru mjög illa heyrandi fólki í Svíþjóð.

Höfundar tiltaka að tíðni alvarlegrar heyrnarskerðingar sé u.þ.b. 0,2% sem þýði að um 20 þúsund Svía falli í þennan hóp (Ef sömu tölur gilda á Íslandi væri um rúmlega 700 Íslendinga að ræða). Það sem rannsakendur telja athyglisvert er hversu fáir úr þessum hópi hafa verið rannsakaðir með tilliti til mögulegrar meðferðar með ígræðslutækni eða verið boðið að fá kuðungsígræðslur til að bæta heyrnina.

Rannsóknin leitaðist við að svara því hvers vegna kuðungsígræðslur kæmu ekki til greina og hvaða ástæður væru tilgreindar sem mótrök gegn ígræðslum.

Alls voru greindar sjúkrasögur 1076 sjúklinga sem féllu undir greiningu Severe-To-Profound Hearing Loss (Mjög illa heyrandi eða nær heyrnarlausir).

Í ljós kom að aðeins 14,5% sjúklingannan höfðu verið rannsökuð sem kandidatar fyrir mögulega kuðungsígræðslu og 8,5% hópsins fengu ígræðslur. Fleiri konur (56,5%) en karlar fengu ígræðslur.
Helstu tilgreindar ástæður fyrir því að sjúklingum var ekki boðin ígræðsla voru: a) vegna heyrnar (30,5%) þ.e. önnur heyrnartæki voru talin duga, b) Óþekkt orsök (25%), hvað svo sem það þýðir.
Sjúklingar sem voru í reglulegri meðferð hjá heilbrigðisstarfsfólki voru ólíklegri til að lenda í hópnum sem ekki var boðin ígræðsla af "óþekktum ástæðum".

Höfundar lýsa áhyggjum sínum yfir því að illa heyrandi fólk á aldrinum 81-100 ára, sem var elsti hópurinn, fengu örsjalda rannsókn á því hvort að kuðungsígræðslur gætu gagnast .þeim. Aðeins þeir sem voru í virkastri meðferð heyrnarsérfræðinga fengu slíka rannsókn.

heimild: Acta Oto-Laryngologica, Vol 139, 2019,  7.tölublað

 

birt: des 2019

Sjón- og heyrnarskerðing hefur veruleg áhrif á lífsgæði aldraðra

sjonogheyrnarskerding1

Miklu skiptir að greina vandann snemma og meðhöndla vel
til að viðhalda lífsgæðum og heilsu eldri borgara.

Aldraðir með bæði sjón- og heyrnarskerðingu búa við verra heilsufar og lífslíkur borið saman við jafnaldra þeirra sem hafa hvoruga fötlunina. Þetta sýnir nýleg rannsókn frá Singapore.

Skoðaðir voru hópa fólks á aldrinum 60, 70 og 80 ára, bæði með og án sjón- og/eða heyrnarskerðingu. Niðustöður sýna að fólk með annaðhvort sjónskerðingu eða heyrnarskerðingu eða samþætta skerðingu (bæði sjón-og heyrnarskerðingu) búa við verulega skerta líkamsfærni og skert lífsgæði miðað við jafnaldra með góða sjón og heyrn.

Meðhöndla þarf heyrnar- og sjónskerðingu aldraðra

Rannsakendur álykta að nauðsynlegt sé að beita snemmtækri og viðeigandi meðferð við skertri sjón og heyrn, sérstaklega ef um samþætta fötlun er að ræða til að draga úr líkum á því að fólk þurfi að lifa mörg ár við skerta hreyfi- og starfsgetu við daglegt líf.

,,Skert sjón og skert heyrn eru því miður oft talin eðlilegur og léttvægur hluti öldrunar og er oft bæði vangreindur og vanmeðhöndlaður heilsufarsvandi. Þessi mikilvæga rannsókn okkar sýnir að skjót greining og tímanlega meðhöndlun bæði sjón- og heyrnarskerðingar eldra fólks er lykillinn að bættum lífsgæðum fyrir eldri borgara, fjölskyldur þeirra og heilbrigðiskerfið,“ sagði prófessor Patrick Casey, Senior Vice Dean for Research at Duke-NUS í Singapore, í viðtali við tímaritið Science Daily.

Vandamál samkvæmt sjálfsmati aldraðra

Rannsakendur báðu þátttakendur um að meta eigin sjón og heyrn með tilliti til daglegra athafna. Þá voru þátttakendur spurðir um líkamlega getu s.s. hreyfigetu handa og fóta, færni til að ganga 200-300 metra vegalengd, ganga upp 10 þrep hvíldarlaust og að lyfta höndum upp yfir höfuð. Einnig voru þau spurð hvort að þau ættu erfitt með daglegar athafnir s.s. að baða sig, klæða sig, matast, vinna hin ýmsu heimilisstörf, lyfjatöku og hvort þau gætu ferðast með almenningssamgöngum.

Rannsóknin var gerð í þremur lotum. 3452 þátttakendur voru spurðir í fyrstu lotu (2009) og síðan fylgt eftir á árunum 2011-2012 og aftur árið 2015. Alls voru 3103 þátttakendur í annarri lotu og loks náðist í 1572 af upphaflegum þátttakendum í síðustu lotu árið 2015.

Aukin vandamál með hækkandi aldri

Í öllum lotum var hlutfall sjónskertra 12-17%, 6-9% voru með skerta heyrn og 9-13% voru með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.
Verulegur hluti þátttakenda, 34,6% (lotur 1 og 2) og 42,7% (lota 3), upplifðu stöðugt versnandi ástand sjónar og heyrnar á tímabili rannsóknarinnar.

Á fyrsta ári rannsóknarinnar (2009) sögðust 40,6% fólks með heyrnartap búa við takmarkaða líkamlega getu og 20,8% þeirra töldu fötlunina takmarka daglegar athafnir. Í annarri lotu (2011-2012) hækkuðu þessar tölur í 52,2% og 26,6% og í síðustu lotunni árið 2015 voru tölurnar komnar í 60,4% og 29,4%.

Í hópi fólks með BÆÐI sjón- og heyrnarskerðingu var skert hreyfigeta hjá 65,5% og takmarkanir á daglegum athöfnum hjá 39,28% í fyrstu lotu 2009.
Í annarri lotu hækkuðu þessar tölur í 64,3% og 43,7%. Í síðustu lotunni, 2015 voru tölurnar hjá fólki með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu komnar í 78,7% og 50,6% !

Færri ár án skertrar líkamlegrar getu

Rannsóknin sýnir að eldra fólk með skerta sjón OG heyrn geta vænst þess að 62% af elliárum þeirra markist af skertri líkamlegri getu en sambærileg tala fyrir fólk án sjón-og heyrnarskerðingar er 38%.

31% af elliárum þessa hóps mun markast af verulegum takmörkunum á færni til daglegra athafna á meðan hlutfall ára sem ófatlaðir jafnaldrar þeirra búa við slíkar takmarkanir er um 16%. Fólk með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu lifir einnig marktækt skemur en vel sjáandi og vel heyrandi jafnaldrar þeirra.

Rannsóknin

Rannsóknin studdist við svör úr langtíma könnun á heilsu eldri borgara í Singapore: Panel on Health and Ageing of Singaporean Elderly (PHASE).

Niðurstöður birtust í vísindagreininni ,,The Impact of Self-Reported Vision and Hearing Impairment on Health Expectancy”, sem gefin var út í tímaritinu The American Geriatric Society.

Heimild: www.sciencedaily.com og The American Geriatric Society

Sterk tengsl járnskorts í blóði og heyrnarskerðingar

blodleysi jarnskortur

 Ný rannsókn sýnir tengsl heyrnarskerðingar og járnskorts í blóði (iron deficiency anemia)

Fólk með blóðleysi (skort á járni í blóði) er meira en tvöfalt líklegra til að vera með skerta heyrn en þeir sem ekki þjást af járnskorti. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar sem framkvæmd var af Pennsylvania State University College of Medicine í Bandaríkjunum.

Þegar rannsakendur skoðuðu mismunandi tegundir heyrnarskerðingar kom í ljós að þeir sem hafa járnskort í blóði eru með 82% auknar líkur á s.k. skyntauga-heyrnartapi (sensorineural) miðað við fólk sem ekki er með járnskort í blóði. Þá jukust líkur á samsettri heyrnarskerðingu (skyntauga- og leiðnitapi) um 240% í samanburði við fólk án járnskorts í blóði.

 

 

Hvernig stendur á þessu ?

Höfundar ítreka að niðurstöður sýni einungis sterk tengsl á milli heyrnarskerðingar og þessa sjúkdóms. Rannsóknin sanni ekkert hvort að annað valdi hinu á einhvern hátt.

Dr Peter Steyger við heyrnarrannsóknarstofu Oregon Health & Science háskólans segir að nokkur atriði komi til greina varðandi tilgátur um orsakatengsl á milli þessara þátta.

„Járn er augljóslega mikilvægt fyrir eðlilega starfsemi heyrnarkerfis líkamans, líkt og fyrir mörg önnur líffæri. Of lítið járn veldur blóðleysi og skortur á blóðrauða (hemoglóbíni) hindrar flutning súrefnis til vefja líkamans. Of lítið járn getur þannig truflað starfsemi fruma og jafnvel leitt til frumudauða sem gæti valdið heyrnarleysi, ef um hárfrumur í innra eyra er að ræða.“, segir læknirinn.

Um rannsóknina

Rannsakendur skoðuðu tíðni heyrnartaps og heyrnarskerðingar hjá meira en 300.000 fullorðnu fólki á árunum 2011-2015. Þátttakendur voru á aldrinum 21-90 ára (meðalaldur 50 ár), 50,56% voru konur en 43,4% karlar.

Rannsóknarniðurstöður birtust í vísindagrein í tímaritinu JAMA Otolaryngology - Head & Neck Surgery.

Heimildir: jamanetwork.com og upi.com

Veldur heyrnarskerðing elliglöpum ?

ID-100307566Langvinnt heyrnartap veldur rýrnun á heilastöðvum

Dr Frank Lin og rannsóknarteymi frá John Hopkins spítalanum og Bandarísku öldrunarstofnuninni (National Institute of Aging) hafa rannsakað samhengið á milli heyrnartaps aldraðra og andlegrar heilsu og heilastarfsemi þeirra. Niðurstöður hópsins benda til þess að heyrnartap flýti hrörnun heilans og geti verið orsakavaldur ýmissa sjúkdóma s.s. Alzheimers, geðsjúkdóma og elliglapa.

Hópurinn notaði gögn úr langtímarannsókn (Baltimore Longitudinal Study of Aging) til að skoða breytingar á heilastarfsemi aldraðra með eðlilega heyrn og samanburðarhóps aldraðra með skerta heyrn. Fyrri rannsóknir hafa áður sýnt fram á tengsl á milli heyrnarskerðingar og breyttrar heilastarfsemi. T.d. virðast svæði heilans sem vinna úr hljóði og heyrnarmerkjum vera minni hjá heyrnarskertum en hjá fullheyrandi einstaklingum. Ekki hafði þó verið sýnt fram á að breytingarnar kæmu til vegna heyrnarskerðingarinnar eða hefður verið til staðar áður en heyrnarskerðing kom til sögunnar.

Rannsóknin                                                     

126 aldraðir einstaklingar, ýmist heyrandi (75) eða heyrnarskertir (51) fóru í heilaskanna og nákvæma heyrnarmælingu árið 1994 og þeim síðan fylgt eftir árlega. Niðurstöður sýna að heyrnarskertu einstaklingarnir sýndu hraðari hörnun heilans (rýrnun heilavefjar) en jafnaldrar með eðlilega heyrn. Þessir einstaklingar sýndu einnig hlutfallslega meiri rýrnun í þeim heilastöðvum sem vinna úr hljóðum og tali.
Dr Lin segir þetta valda áhyggjum þar sem þessi heilasvæði sinni ekki eingöngu heyrn heldur séu einnig mikilvægar starfsstöðvar þegar kemur að minni og skynjun. Þessi svæði heilans komi þannig við sögu í elliglöpum og hjá Alzheimer sjúklingum.

Mikilvægt að meðhöndla heyrnarskerðingu

Rannsakendur leggja áherslu á mikilvægi þess að láta ekki heyrnarskerðingu ómeðhöndlaða. „Við viljum að gripið sé til meferðar á heyrnarskerðingu sem fyrst í ferlinu.“ segir dr Lin, „Ef heyrnarskerðing veldur þessum neikvæðu áhrifum, sem við sjáum á heilaskanna, þá viljum við meðhöndla heyrn einstaklinganna áður en þessar óafturkræfu breytingar á heilanum eiga sér stað.“

Meira en helmingur fólks 75 ára og eldra er með skerta heyrn og með auknu langlífi verður heyrnarskerðing og heyrnartap sífellt stærra vandamál. Afar mikilvægt er að auka lífsgæði þessa hóps með því að meðhöndla heyrnarskerðinguna um leið og hún greinist. Í ljósi rannsóknar dr Lin og félaga er enn brýnni nauðsyn á að tryggja að allir eldri borgarar geti fengið nauðsynlega meðhöndlun á heyrn sinni. Heyrnartæki verða og eiga að vera aðgengileg og innan kaupgetu eldri borgara.

Hvernig hjálpa heyrnartæki?

Næstu skref í rannsókn dr Lin er að kanna hvort að reglulega notkun heyrnartækja og snemmtæk íhlutun í heyrnarskerðingu fullorðinna geti breytt einhverju um þróun elliglapa. Aðspurður að gagnsemi heyrnartækja svarar dr Lin: „Við vitum því miður ekki enn hvort að kjörmeðferð við heyrnarskerðingu með góðum heyrnartækjum og reglulegu eftirliti geti afstýrt þessum breytingum sem við sáum. Það krefst mun stærri rannsóknar og yfir lengri tíma. Við vonumst þó til að næstu rannsóknir okkar geti svarað þessari spurningu.“
Heyrnartæki, ef rétt notuð og stillt eftir heyrn viðkomandi getur auðveldað fólki hljóðvinnslu og talgreiningu. Því er rökrétt að álykta að bætt heyrn með hjálp heyrnartækja gæti dregið úr líkum á þeim breytingum á heila sem rannsóknir dr Lin og félaga sýndu. Vonandi tekst að sýna fram á það í framtíðinni.

Heimildir:
www.asha.org
www.hopkinsmedicine.org

júlí 2015

 

Vista
Vefkökur samþykki og yfirlit
Við notum vefkökur til að betrumbæta notendaupplifun vefsins. Ef þú samþykkir ekki notkun vefkaka getur það bitnað á virkni og notkun hans.
Samþykki allar
Neita öllum
Lesa skilmála
Functional
Forrit sem eru notuð til að veita þér fleiri möguleika eins og til dæmis tengingu við samfélagsmiðla.
Osano
Vefkaka sem geymir tímabundið samþykki þitt á þessari vefsíðu
Samþykkja
Neita
Analytics
Forrit sem skráir og mælir skilvirkni vefsíðunnar. Greinir notkun gesta. Við notum þessar upplýsingar til að betrumbæta upplifun notenda.
Google Analytics
Rýnir í vefumferð á vefnum svo hægt sé betrumbæta hann.
Samþykkja
Neita