HTÍ og Zontaklúbbur Reykjavíkur

Það er ekki nóg að byrja - Það þarf að byrja rétt!

Saga Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands er um margt fróðleg og merkileg. Fyrstu heyrnarstöð landsins var komið á fót árið 1962. Var það einungis fyrir einstakan áhuga og þrotlaust og óeigingjarnt starf fárra einstaklinga sem þessum merka áfanga var náð. Hér á eftir verður getið þáttar nokkurra þessa einstaklinga og félagssamtaka sem hlut áttu að máli.

Zontaklúbbur Reykjavíkur var stofnaður í nóvember árið 1941. Zontaklúbbarnir eru alþjóðaregla sem stofnuð var í Bandaríkjunum í kjölfar fyrri heimstyrjaldarinnar. Zontaklúbbur Reykjavíkur hafði yfir að ráða sjóði nokkrum, Margrétarsjóði, sem komið var á fót árið 1944 til heiðurs Margréti Bjarnadóttur Rasmus, sem þá lét af störfum sem skólastjóri Málleysingjaskólans. Margrét var einmitt ein af stofnendum Zontaklúbbsins.
Málleysingjaskóli þessi var stofnaður af séra Ólafi Helgasyni, presti við Gaulverjabæjarprestakall, laust fyrir aldamótin 1900. Margrét byrjaði að kenna við skólann árið 1899. Saga Málleysingjaskólans er afar áhugaverð og lýsir dæmalausum áhuga, ósérhlífni og dugnaði séra Ólafs, frú Margrétar og samverkafólks þeirra. Þeirri sögu verður ekki gerð skil hér en áhugasömum bent á ritið „Á brattann“, sem Zontaklúbbur Reykjavíkur gaf út árið 1985.

Friede Briem

Frú Friede Briem (1900-1997) var formaður Zontaklúbbs Reykjavíkur til margra ára og hún barðist ötullega fyrir málefnum heyrnarskertra og heyrnarlausra. FriedeBriemUngHún tók þátt í Zontamóti í Kaupmannahöfn árið 1959, ásamt annarri Zontakonu, Ingibjörgu Bjarnadóttur. Í móttöku á þinginu spjölluðu þær m.a. við sænska konu, Brittu Larsson frá Uppsölum. Þegar Friede og Ingibjörg minntust á Margrétarsjóðinn og stuðning Zontaklúbbsins við heyrnarlausa lifnaði heldur yfir þeirri sænsku. Vildi hún endilega koma Íslendingunum í samband við Bodil Willesmoes frá Árósum, sem hún sagði hafa unnið mjög merkilegt starf fyrir heyrnarlaus börn. Bodil þessi væri stödd á þinginu en héldi heim daginn eftir.

Ekki er að orðlengja það að Friede og ingibjörg „rýndu nærgöngulum augum á öll barmmerkin til þess að finna Bodil Willesmoes og tókst það að lokum“, eins og segir í endurminningum Friede. Gefum henni áfram orðið:

Við bárum upp erindi okkar og lýstum fyrir henni, hversu mikinn áhuga við hefðum á að kynnast starfsaðferðum hennar til hjálpar heyrnarskertum börnum og sögðum henni frá sjóðnum. Hún lifnaði öll við og var fljót að átta sig á því, að starfinu þyrftum við að kynnast með eigin augum og koma beint til Árósa.“ Þær ingibjörg réðu ráðum sínum og ákváðu að lokum að skella sér í heimsókn til Árósa.

Í júní 1959 stóðu þær við dyrnar á dagheimilinu Granly og spurð eftir forstöðukonunni. Bodil tók þeim með kostum og kynjum og kynnti þeim starfsemina og einnig kynnti hún þær fyrir yfirlækni stöðvarinnar, dr Ole Bentzen og kynnin við þau skötuhjúin áttu heldur betur eftir að reynast okkur Íslendingum vel.

Dr Ole Bentzen

Þegar dr Bentzen heyrði að engin heyrnarstöð væri til á Íslandi og að Zontaklúbburinn ætti sjóð til hjálpar heyrnarlausu fólki varð honum að orði: „Sjóðinn eigið þið að nota til að koma upp heyrnarstöð. Ísland getur ekki verið án heyrnarstöðvar. Ef klúbburinn óskar eftir minni aðstoð, skal hún fúslega veitt.
Bodil Willesmoes sýndi þeim margvíslega starfsemi stöðvarinnar í Árósum og áhugi hennar og sannfæringarkraftur smitaði íslensku stöllurnar varanlega.
Með þetta vegarnesti, ásamt fræðsluritum, bæklingum og bókum kvöddu þær stöllur yfirlækninn og frú Willesmoes og héldu heim á leið.
Þegar heim var komið skýrðu Friede og Ingibjörg klúbbsystrum sínum frá ferð sinni og frá þeirri stundu „varð nánast bylting í félagsstarfinu“, eins og Friede lýsir því. Klúbburinn samþykkti að leggja áherslu á stuðning við heyrnarlaus börn og nú skyldi hafist handa.
Eitt af mörgum heilræðum sem dr Bentzen hafði gefið þeim í veganesti var þetta: „Það er ekki nóg að byrja, það þarf að byrja rétt.“
Vegna þarfar á sérfræðilegri leiðsögn fengu Zontasystur Erling Þorsteinsson, háls-nef og eyrnalækni til að skrifa dr Bentzen ásamt þeim Zontasystrum. Erlingur skrifaði dr Bentzen sem og yfirlækni heyrnarstöðvarinnar í Kaupmannahöfn, dr Ewertsen, sem hann þekkti frá dvöl sinni í Danmörku.

DrBentzen1954Eftir nákvæma skoðun á tillögum dönsku læknanna varð niðurstaðan sú að Zontaklúbburinn ákvað að auglýsa námsstyrk til fóstru í júní 1960. Skydli námið fara fram í Árósum, þar sem kennsla færi fram í heyrnarmælingum og verklegt nám í sambandi við heyrnartæki. Styrkþegi skyldi sækja fyrirlestra í háskólanum um heyrnarrannsóknir og fylgjast með öllu starfi á heyrnarstöðinni, dagheimili og leikskóla Bodil Willesmoes. Styrkinn fékk María Kjeld og hóf hún námið þ. 19.ágúst 1960.

 

Heyrnarstöð verður til

Heyrnarstöð þarf að sjálfsögðu húsnæði og rekstraraðila. Zontaklúbbur Reykjavíkur tók þá stefnu að Heilsuverndarstöð Reykjavíkur væri rétti aðilinn til þess og formaður klúbbsins, Auður Auðuns, hitti Jón Sigurðsson borgarlækni að máli 9.febrúar 1961 til að reifa málið. Borgarlæknir var frá fyrstu stundu málinu hliðhollur. Kom hann því til leiðar að 22.desember 1961 ákvað stjórn Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur að stofna heyrnarstöð fyrir börn innan 4ra ára aldurs.

Fjáröflun hófst nú af fullum krafti undir forystu Zontaklúbbsins, með skemmtanahaldi o.fl. Tókst þeim svo vel upp að senn voru til fjármunir til tækjakaupa fyrir nýju stöðina. Enn var leitað til dr Bentzen í Árósum. Pantaði hann tæki fyrir klúbbinn og einnig voru keypt ýmis áhöld og leikföng, valin af Maríu Kjeld í samvinnu við Bodil Willesmoes.

Friede Brien var ekki af baki dottin. Hún fór til Kaupmannahafnar sumarið 1962 og hafði enn samband við dr Bentzen og vildi falast eftir kröftum hans við fyrirlestra á Íslandi. Ekki hafði hann tök á því en benti á kollega sinn á Fjóni, dr Christian Röjskjær, yfirlækni heyrnarstöðvarinnar í Óðinsvéum 1). Sá tók málaleitan vel þar sem hann færi um Ísland um haustið á leið til Grænlands. Friede bauð honum og eiginkonu umsvifalaust að búa heima hjá sér. Sonur Friede, Eggert Briem, rifjaði nýlega upp (des 2017) þennan tíma í viðtali við höfund þessarar greinar og sagðist muna vel þessar heimsóknir og að Eggert hefði verið fyrsta "tilraunadýrið" sem nýji heyrnarmælirinn var prófaður á.

Fyrirlesturinn var svo haldinn í Háskóla Íslands 11.september 1962 og bauð Zontaklúbburinn ýmsum fyrirmönnum og áhrifamönnum til hans. Vakti fyrirlesturinn mikla athygli og Morgunblaðið birti grein um málið.

Friede fékk dr Röjskjær til að ráðleggja Borgarlækni og stjórn Heilsuverndarstöðvarinnar á ýmsa lund og komu ráðleggingar hans að góðum notum.

Heyrnarstöðin, sú fyrsta á Íslandi og fyrirrennari Heyrnar-og talmeinastöðvar Íslands, opnaði síðan undir stjórn Erlings Þorsteinssonar í Heilsuverndarstöð Reykjavíkur þann 1.nóvember 1962. María Kjeld var ráðin til starfa við heyrnarmælingar og meðferð heyrnarskertra barna.

Vert er að leggja áherslu á ómetanlegt framlag þessara einstaklinga. Erlingur Þorsteinsson starfaði t.d. án endurgjalds við stöðina fyrstu misserin og lagði Zontaklúbbnum til ráðgjöf og aðstoð á ýmsa lund. Framsýni og dugnaður þessara einstaklinga allra verður seint fullmetinn.

 

Zontakonur láta ekki deigan síga

Þótt mikilvægum áfanga væri náð voru Zontakonur hvergi nærri hættar. Þær stungu upp á því við formann Barnaverndarfélags Reykjavíkur, að halda fyrirlestra um fötluð börn og samfélagið, ekki síst um þá fötlun sem heyrnarskerðing er. Var því vel tekið og Friede, sem nú var orðin formaður klúbbsins, falið að skrifa dr Bentzen og bjóða honum til Íslands til fyrirlestrarhalds. Þáði hann boðið og var fyrirlestur haldinn í Háskóla Íslands þann 8.júní 1964. Meðal gesta var heiðursfélagi Zontaklúbbsins, Dóra Þórhallsdóttir forsetafrú.
Dr Bentzen flutti einnig fyrirlestra og fundi á Landspítala, Heilsuverndarstöð, með Borgarlækni sem og með Fóstrufélagi Íslands. Fékk heimsókn dr Bentzen góða umfjöllun í dagblöðum bæjarins og vakti athygli á málstaðnum.

Næsti áfangi í starfi Zontaklúbbins var að bjóða fram námsstyrk til kennara sem sérhæfði sig í smíði hlustarstykkja og kynnti sér leiðbeiningarstarf við notkun heyrnartækja, bæði barna og unglinga. Skemmtun var haldin til fjáröflunar með tízkusýningum, happdrætti og ýmsum skemmtiatriðum. „Hljómsveit Svavars Gests lék fyrir dansi og söngvarar voru þau Ellý Vilhjálms og Ragnar Bjarnason.“
Skemmtunin jók sjóðinn verulega og í kjölfarið var boðinn fram námsstyrkurinn. Hann var veittur Birgi Ás Guðmundssyni, ungum kennara sem verið hafði í framhaldsnámi við Kennaraháskólann í Kaupmannahöfn. Hann hafði auk þess kynnt sér kennslu fatlaðra barna í Danmörku.Dr Bentzen reyndist Friede enn hollráður og skipulagði námið og útvegaði húsnæði fyrir Birgi. Birgir var siðan ráðinn til starfa á heyrnarstöðinni þann 1.febrúar 1966 og færði Zontaklúbbur Reykjavíkur stöðinni allan nauðsynlegan tækjabúnað til hlustarstykkjasmíða að gjöf. Birgir starfaði síðan um langt árabil hjá HTÍ.

Auk námsstyrkja söfnuðu Zontasystur fyrir ýmsum tækjum s.s. hljómflutningstækjum í leikhús o.m.fl. Slíkur búnaður, ætlaður heyrnarskertum, var settur upp í Iðnó í janúar 1968, sá fyrsti sinnar tegundar á Íslandi.

 

Friede, dr Bentzen og Stefán Skaftason

Sumarið 1967 er Friede enn stödd í Danmörku og hitti þá dr Bentzen og Stefán Skaftason, sem Zontaklúbburinn höfðu styrkt til framhaldsnáms í Árósum, en Stefán hafði starfað við sjúkrahúsið í Kalmar í Svíþjóð en hafði hug á að koma heim til Íslands og koma upp háls-nef-og eyrnadeild við sjúkrahús hér heima.

Tríóið setti saman aðgerðaáætlun til stuðnings þeim hópi barna sem fæðst höfðu heyrnarlaus í kjölfar Rauðu Hunda faraldurs á Íslandi 1963. Stefán þýddi margvíslegt efni, fjölritaði og sendi heim til Íslands og Friede tók höndum saman við Gylfa Baldursson, sem nú var tekinn við forstöðu heyrnarstöðvarinnar, nýkominn heim úr heyrnarfræðinámi í Bandaríkjunum, og þau söfnuðu saman upplýsingum um heyrnarlausu börnin og aðstandendur þeirra og miðluðu upplýsingum um úrræði sem nú voru í boði. Féllu þau ráð í misgóðan jarðveg og skoðanir dr Bentzen á meðferð heyrnarlausra barna þóttu umdeildar á sínum tíma.FriedeBriemEldri

Að lokum er vert að vitna til orða Auðar Auðuns, sem ritaði lokaorð í ritlinginn „Á brattann“ og sem ítrekað er vitnað í hér að framan. Þar er aðkoma Zontaklúbbs Reykjavíkur rakin og hlutur þeirra gerður ljós, en ýmsum þótti sem hlutverk og framlag frú Friede og Zontasystra allra hefði legið í þagnargildi hvað varðar tilurð fyrstu heyrnarstöðvar sem Íslendingar eignuðust og það brautryðjendastarf, sem unnið var í þágu heyrnarskertra.

Þar segir Auður: „Þögnin um þátt Zontaklúbbsins sýnist mér ásamt fleiru staðfesta það, ...... að þegar fram líða stundir yrði enginn til frásagnar um þátt Zontaklúbbsins varðandi úrbætur í málefnum heyrnarskertra, og því hefi ég og fleiri hvatt til þess að framanrituð frásögn Friede Briem kæmi fyrir almenningssjónir. En sú saga hefði orðið á annan veg ef ekki hefði notið forustu Friede Briem, ráðgjafar dr. Ole Bentzen og skilnings dr. Jóns Sigurðssonar borgarlæknis.“

Við látum svo lokið frásögn þessari af frú Friede Briem og félögum hennar í Zontaklúbb Reykjavíkur. Heyrnar-og talmeinastöð Íslands og Íslendingar allir eiga þeim margt að þakka.

 

Janúar 2014,

Kristján Sverrisson, forstjóri HTÍ

 

(athugasemdir: 1) til gamans má geta að Ole Bentzen, Christian Röjskjær og Harald Ewertsen voru kallaðir „Skytturnar 3 í heyrnarfræði“ í Danmörku á sínum tíma vegna brautryðjendastarfa sinna.)