Skip to main content

Kuðungsígræðslur á Íslandi

Kuðungsígræðslur nú framkvæmdar á Íslandi og senn munu íslenskir sérfræðingar sjá um aðgerðirnar

Viðtal við Evu Karltorp, sérfræðing í eyrnaskurðlækningum - febrúar 2014

 

Þrír einstaklingar gengust undir kuðungsígræðslur á Íslandi nú í byrjun febrúar. Aðgerðirnar voru framkvæmdar af sænskum sérfræðingi, Dr Eva Karltorp, sérfræðingi í eyrnaskurðlækningum við Karolinska sjúkrahúsið í Huddinge í Svíþjóð. Þetta er í fimmta sinn sem hún kemur til Íslands til að framkvæma slíkar aðgerðir og því tímabært að taka hana tali og fræðast meira um þessar aðgerðir. Eva og kollegi hennar í Huddinge, Anders Freijd, hafa gert flestar aðgerðirnar á íslenskum ígræðsluþegum eða á 63 einstaklingum alls.

 

Heyrnin
Eðlileg heyrn er háð því að ytra- mið- og innra eyrað starfi eðlilega ásamt heyrnartaug og heyrnarbrautum heilans. Innra eyrað nemur hljóðbylgjur, umbreytir þeim í rafboð og sendir þessi boð til heilans.

Veiki hlekkurinn í keðjunni eru hárfrumurnar í kuðungnum í innra eyranu. Þær eru ábyrgar fyrir umbreytingu hljóðs í rafboð. Heyrnarleysi stafar oftast af lélegri virkni eða hrörnun þessara hárfruma. Orsakir geta verið margvíslegar, erfðir, sýkingar á meðgöngu eða eftir fæðingu, slys og sjúkdómar. Ellihrörnun veldur því einnig að virkni hárfruma minnkar og því missum við heyrn með aldrinum

Hvað er kuðungsígræðsla?
Kuðungsígræðsla er skurðaðgerð sem gerir heyrnarlausum einstaklingum (meðfætt heyrnarleysi eða heyrnarmissir vegna sjúkdóma eða slysa) að öðlast heyrn. Ef einhver galli eða skemmd er í innra eyra, en heyrnartaug er óskemmd, er hægt að græða örlítið rafskaut inn í kuðung innra eyrans.
Ytri búnaður, settur bak við eyrað, nemur hljóð, breytir þeim í stafræn boð og sendir rafrænt til elektróðunnar í kuðungnum. Elektróðan örvar heyrnartaugina með rafboðum og heilinn skynjar rafboðin sem hljóð.
Hér má sjá slóð á myndband sem skýrir mjög vel hvernig kuðungsígræðslu-tæknin virkar:
http://www.youtube.com/watch?v=Zm8w88kzZ1I

Eva Karltorp
„Heyrnarvandamál er í níu tilvikum af hverjum tíu vegna skemmda eða galla á hárfrumum“, segir Eva Karltorp . „Heyrnin er fyrsta skynfærið sem læknavísindunum hefur tekist að endurskapa ef svo má segja. Árangur af kuðungsígræðslum er mjög góður og fylgikvillar eru mjög sjaldgæfir“.Eva Karltorp

Fyrsta aðgerðin í Svíþjóð var gerð árið 1984 og nú eru þær jafnvel framkvæmdar á ungbörnum! Hversu ungum börnum stendur slík ígræðsla til boða?

-„Venjulega gerum við aðgerðir um 1 árs aldur en allt niður í 5-6 mánaða gömul börn. Því fyrr sem hægt er að framkvæma ígræðsluna, þeim mun betri árangur næst. Heili allra nýfæddra barna, heyrnarlausra sem heyrandi, er móttækilegastur fyrir hljóðrænu áreiti fram að þriggja ára aldri, svo það er mikilvægt að missa ekki af lestinni. Við getum vissulega veitt heyrnarlausum börnum upp að fimm til sex ára aldri kuðungsígræðslur, en þá er þegar orðið afar erfitt að þjálfa heilann til heyrnar og talmáls. Það er talið tilgangslaust að reyna kuðungsígræðslu eftir 5-6 ára aldur ef barnið hefur verið heyrnarlaust frá fæðingu. Fullorðnum, sem fæddust heyrnarlausir, gagnast heldur ekki kuðungsígræðsla, en á hinn bóginn er öllum sem áður höfðu heyrn, en hafa nú misst hana, boðin kuðungsígræðsla og oftast með góðum árangri. Jafnvel einstaklingar með alvarlega heyrnarskerðingu og nota heyrnartæki geta notið góðs af kuðungsígræðslu“.

Kuðungsígræðslur á Íslandi

Aðgerðir þessar hafa verið gerðar síðustu rúm 30 árin og með bættri tækni næst sífellt betri árangur. Eva segir að um aldamótin hafi örtölvutæknin nánast gerbylt tækninni sem notuð er og árangur og gæði þeirrar heyrnar sem vinnst sé í stöðugri framför.

Til þessa hafa 75 Íslendingar fengið kuðungsígræðslur og þar af 21 barn. Fyrstu árin voru aðgerðirnar framkvæmdar erlendis en hin siðari ár hafa erlendir sérfræðingar komið hingað og framkvæmt aðgerðirnar á Landspítalanum. Heyrnar- og talmeinastöð Íslands sér um allan undirbúning og framkvæmd aðgerðanna í góðri samvinnu við Háls-nef-og eyrnadeild LSP og Sjúkratryggingar Íslands.
Eva Karltorp hefur verið að þjálfa íslenskan kollega sinn, Ólaf Guðmundsson, sérfræðing í háls-nef og eyrnalækningum, í að framkvæma ígræðslurnar svo senn verða hægari heimatökin fyrir Íslendinga. Reiknað er með að gera 6-8 aðgerðir árlega á næstu árum. 2/3 hlutar sjúklinga eru fullorðnir sem missa heyrn en 1/3 verða væntanlega börn.

Árangur kuðungsígræðsla
Eva segir árangur kuðungsígræðsla hafa batnað með hverju árinu. „Fyrir rúmum 20 árum vorum við að gera aðgerðirnar of seint því að talið var réttast að barnið fengi að þróa fyrst sitt táknmál og síðan tæki við ígræðsla og talþjálfun. Reynslan og þekking á starfsemi heilans kenndi okkur fljótt að miklu betri árangur næst ef ígræðslan er gerð eins snemma og hægt er og að þjálfun í bæði táknmáli og talþjálfun hefjist sem allra fyrst. Börn sem fengu ígræðslu of seint náðu aldrei nægilegum árangri og hættu jafnvel að nota heyrnartækin. Þetta kom misjöfnu orði á kuðungsígræðslur í byrjun“.

Eva vann nýlega vísindagrein um þann árangur sem hlotist hefur af ígræðslum í börn, sem hún hefur persónulega framkvæmt eða undir hennar stjórn. „Ég skoðaði árangurinn af 137 ígræðslum hjá frískum börnum. Meðalaldur við ígræðslu var 10,1 mánuður. Börnin hlutu sömu þjálfun og örvun, bæði í táknmáli og í heyrandi/talandi umhverfi. Öll börnin stunda nú nám í almennum grunnskóla eða framhaldsskóla. Og öll hafa þau hlotið fullan málþroska og standa sig vel í námi og fyllilega til jafns við jafnaldra sína, sum betur“.

Hvað ber framtíðin í skauti sér?
„Kuðungurinn er þakinn hárfrumum, 15-20 þúsund hárfrumur breyta hljóðbylgjum í rafboð til heilataugar. Ígrædda elektróðan sem þrædd er í kuðunginn getur enn sem komið er ekki komið í stað allra þessara hárfruma. Á þræðinum eru 12-24 örfínar plötur sem örva mismunandi svæði innan kuðungsins; Yst eru plötur sem senda hátíðnitóna en eftir því sem innar dregur eru sendir dýpri tónar, rétt eins og kuðungurinn fer með hljóðbylgjur við eðlilega heyrn.
Heyrnin sem fæst með kuðungsígræðslunni verður því ekki jafn fullkomin og eðlileg heyrn, ennþá vantar töluvert uppá það. En með bættri tækni má reikna með bættum heyrnargæðum í framtíðinni“, segir Eva Karltorp að lokum.

 

Óskir þú frekari upplýsinga um kuðungsígræðslur, sendið okkur línu í tölvupóstfang This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. með spurningum þínum.

 

Vista
Vefkökur samþykki og yfirlit
Við notum vefkökur til að betrumbæta notendaupplifun vefsins. Ef þú samþykkir ekki notkun vefkaka getur það bitnað á virkni og notkun hans.
Samþykki allar
Neita öllum
Lesa skilmála
Functional
Forrit sem eru notuð til að veita þér fleiri möguleika eins og til dæmis tengingu við samfélagsmiðla.
Osano
Vefkaka sem geymir tímabundið samþykki þitt á þessari vefsíðu
Samþykkja
Neita
Analytics
Forrit sem skráir og mælir skilvirkni vefsíðunnar. Greinir notkun gesta. Við notum þessar upplýsingar til að betrumbæta upplifun notenda.
Google Analytics
Rýnir í vefumferð á vefnum svo hægt sé betrumbæta hann.
Samþykkja
Neita